Vikumatseðill – vika 4 frá Heilsumömmu
Jæja, nú reynir á útsjónarsemi og skipulag í þessari viku. Það hefur gengið erfiðlega að vera undir hámarkinu svo núna er síðasti séns að redda málunum. Þetta virðist ætla að verða önnur veikindavika og svo er vetrarfrí í skólanum í lok vikunnar. Mér sýnist á ástandinu á mannskapnum að það verði bara spilað, púslað, haft kósý og örugglega bakað eitthvað gott. Hápunktur vikunnar er um helgina þar sem vinnustaðurinn minn heldur Árshátíð út á landi og verður það nú aldeilis stuð fyrir hjónakornin að komast aðeins frá börnum og búi og slaka á og njóta lífsins í sveitasælunni.
Mánudagur – Ljúffeng linsubaunasúpa og spelt bollur. Einn sá ódýrasti matur sem finnst í heiminum. Nýbakaðar spelt bollur lyfta svo máltíðinni heilmikið upp.
Þriðjudagur – Spæld egg, ristað brauð og grænmeti. Einfalt og fljótlegt á þriðjudegi. Brauðið kaupi ég í Kökulist, Firðinum, svo ótrúlega gott súrdeigs spelt brauð sem er það besta sem ég hef fundið.
Miðvikudagur – Taco súpa. Þessi uppskrift er búin að vera lengi á leiðinni á vefinn. Krakkarnir elska þessa súpu. Hún er snilld ef það er til smá afgangur af hakki (uþb. 3 dl) Tek stundum hakk afgang og set í frysti til að eiga í þessa súpu.
Með súpunni mæli ég með þessu lífræna nachosi (ekki búin til úr erfðabreyttu korni) sem er alveg svakalega gott og fæst í heilsuhillum víðsvegar um bæinn, ég hef keypt það í Nettó.
Fimmtudagur – Grjónagrautur. Hýðisgrjónagrauturinn með heimagerðu möndlumjólkinni.
Föstudagur - Kalkúnaborgarar í heimgerðu hamborgarabrauði. Eftir tiltekt í frystinum fann ég pakka af kalkúnahakki sem ég keypti í Fjarðarkaup um daginn. Mjög ódýr matur. Ég rakst á svo girnilega uppskrift af borgurum og heimagerðu hamborgarabrauði í Heilsuréttum fjölskyldunnar. Ég hlakka mikið til að prófa þessa uppskrift. Sætar franskar kartöflur með og væntanlega sollu kokteilsósa fyrir yngri deildina líka.
Laugardagur – Árshátíð og því þarf ekkert að hugsa um mat þennan daginn.
Sunnudagur – Lax með mangósósu og sætum kartöflum. Á sunnudaginn er komin nýr mánuður og ég ætla að fagna því með því að hafa lax í matinn. Lúxus sem ég kom ekki inn í skipulagið í febrúar.
Í frystinum eru til jarðaber og bláber fyrir drykki, spurning hvort ég komist í fjarðarkaup til að kaupa frosin ananas eða mangó. Annars verða bara epli í græna góða á morgnanna.
Þar sem ég kem til með að vera svolítið heima þessa vikuna ætla ég að nota tækifærið og nota það sem til er til að baka og búa til sjálf. Í dag bjó ég til dæmis til kanil kex, bananabrauð og Nutella hvað? súkkulaðihnetusmjör, það er ekki hægt að kvarta yfir því. Oft leynist hitt og þetta í skúffunum og hægt að töfra fram dásamlegar veitingar.
Vonandi verður vikan sem best hjá ykkur öllum.
Tengt efni:
Heilsumamman - Ofurhollar smákökur fyrir þá sem nenna ekki að baka
Heilsumamman - Geggjuð Tíramísú “ís” kaka
Heilsumamman - Staðan eftir viku 2