"viltu sitja við glugga eða gang" ?
Það getur skipt máli fyrir heilsu þína hvar þú situr þegar þú ferð í flug. Rannsóknir benda til að það sé verra fyrir heisuna að sitja í gluggasæti en við gang. Þetta hefur ekkert með gluggann sjálfan að gera, geimgeislun eða hitastig sem kannski væri það fyrsta sem maður gæti látið sér detta í hug.
Þekkt er að á löngu flugi geta myndast blóðtappar í djúpum bláæðum ganglima, fyrirbæri sem kallað hefur verið DVT (deep vein thrombosis). Lengi vel var talið að meiri hætta væri á þessu ef ferðast er í venjulegu farrými og fékk DVT því viðurnefnið "economy class syndrome". Slíkir blóðtappar eru ekki hættulausr enda geta þeir rekið til lungna og setið fastir í slagæðum þeirra (blóðtappi í lunga).
Ýmsir áhættuþættir fyrir blóðtappa í djúpri bláæð hafa verið skilgreindir. Sennilega er löng kyrrseta stærsti áhættuþátturinn. Ef þú situr í gluggasæti er ólíklegra að þú hreyfir þig í flugi en ef þú situr við gang eða í miðsæti. Sitjir þú við gang geturðu skroppið á salernið og staðið upp þegar þér sýnist, án þess að ónáða nokkurn mann. Ef þú aftur á móti situr við gluggann ertu til vandræða í hvert sinn sem þú þarft að standa á fætur. Þú veigrar þér við að hreyfa þig því það getur truflað sessunauta þína sem kannski eru sofandi eða í miðri máltið.
Í glænýjum klíniskum leiðbeiningum um varnir gegn blóðsegum, frá American College of Chest Physicians (ACCP), kemur fram að það er áhættuþáttur fyrir bóðtappa að sitja í gluggasæti í flugi. DVT hefur ekkert að gera með hvort þú ert á fyrsta farrými eða hvað þú hefur mikið pláss í sætinu þínu. Leiðbeiningar þessar eru birtar í nýjasta hefti tímaritsins Chest og þú getur skoðað þær hér.
Prófessor Gordon H Guyatt frá Hamilton, Ontario í Kanada sem fór fyrir hópnum sem samdi leiðbeiningarnar bendir á að ef þú ert heilbrigður einstakingur sé hættan á DVT mjög lítil, jafnvel á löngu flugi, minni en 1/1.000. Leiðbeiningarnar beinast fyrst og fremst að þeim sem eru í áhættu en það eru einstaklingar sem hafa fengið blóðtappa áður, hafa brenglun í storkukerfi eða eru hreyfihamlaðir fyrir. Aðrir sem eru í áhættuhóp eru eldri einstaklingar, ófrískar konur, konur sem taka estrogen hormón, t.d. p-pilluna og einstaklingar sem nýlega hafa gengist undir skurðaðgerð.
Guyatt leggur áherslu á að ef þú ert í flugi sem er lengra en sex tímar sé ráðlegt að standa upp reglulega og hreyfa sig. Einnig getur verið gagnlegt að spenna kálfavöðvana þótt þú sitjir í sætinu þínu. Ef þú ert í áhættuhóp getur hjálpað að nota teygjusokka, svokallaða flugsokka sem hægt er að fá víða. Ekki hefur verið sýnt fram á að aspirín eða magnyl komi í veg fyrir blóðtappamyndun í flugi.
Ef þú ert í löngu flugi skaltu standa upp á 1-2 tíma fresti og ganga um. Hikaðu ekki við þetta, jafnvel þótt þú sitjir í gluggasæti og þurfir að vekja farþegana við hliðina á þér. Þeim kemur að vísu ekki til með að finnast þú ánægjulegur ferðafélagi en það gleymist. Það er ekki ráðlegt að taka svefntöflu og liggja í hnipri allt flugið.
Heimildir: mataraedi.is