Yfirlýsing vegna Biggest loser
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands gáfu út frá sér yfirlýsingu vegna Biggest Loser þáttana ásamt samtökum um líkamsvirðingu, Félagi fagfólks um átraskanir, Sálfræðingafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Matarheillum og Félagi fagfólks um offitu.
Nýlega hófust sýningar á íslenskri útgáfu sjónvarpsþáttanna The Biggest Loser hjá Skjá Einum.
Þar sem þættirnir hafa verið kynntir hér á landi undir þeim formerkjum að þeir séu „vottaðir afsálfræðingum, læknum og næringarfræðingum“ (http://www.skjarinn.is/einn/islenskt/biggest-loser-island/) vilja neðangreind félög senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
Biggest loser þættirnir hafa sætt mikilli gagnrýni bæði erlendis og hérlendis fyrir öfgakenndar áherslur á þyngdartap, mikla fæðutakmörkun, æfingaálag og harkalega framkomu þjálfara í garð keppenda. Við teljum þessa nálgun ekki samræmast faglegum vinnubrögðum og sú framkoma sem þjálfarar sýna keppendum samræmist hvorki siðareglum né lögum um heilbrigðisstarfsmenn sem kveða skýrt á um að skjólstæðingum skuli sýnd virðing (Lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012).
Rannsóknir benda enn fremur til þess að áhorf á þættina ýti undir fitufordóma (Domoff o.fl., 2012; Yoo, 2013) og að litlar líkur séu á þættirnir hvetji áhorfendur til aukinnar hreyfingar og bættra lífshátta (Readdy og Ebbeck, 2012; Berry, McLeod, Pankratow og Walker, 2013).
Við viljum taka skýrt fram að meint „vottun“ sem þættirnir eru sagðir hafa fengið frá fagfólki á ekki við um fagfólk hér á landi. Enginn íslenskur heilbrigðisstarfsmaður gæti viðhaft þá nálgun gagnvart sínum skjólstæðingum sem einkennir þessa þætti án þess að það væri brot á siðareglum viðkomandi fagstéttarog gildandi lögum um heilbrigðisstarfsmenn.
Félag fagfólks um átraskanir
Félag fagfólks um offitu
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Matarheill
Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands
Samtök um líkamsvirðingu
Sálfræðingafélag Íslands
Heimildir: mni.is