Zíkaveirusýking - ný farsótt
Zíkaveira telst til svokallaðra flaviveira en meðal þeirra eru beinbrunaveira og guluveira (yellow fever).
Þær smitast með moskítóflugum og valda oftast litlum sem engum einkennum.
Einkennin lýsa sér með hita, útbrotum, liðverkjum og tárubólgu. Þau vara frá nokkrum dögum til viku og leiða sjaldan til sjúkrahúsvistar.
Zíkaveiran uppgötvaðist fyrst í Mið-Afríku á fimmta áratug síðustu aldar. Sýking af völdum veirunnar var talin sjaldgæf og bundin við Afríku og Asíu.
Vorið 2015 varð vart við mikla útbreiðslu Zíkaveiru í Brasilíu. Samtímis því varð vart við aukningu á fósturskaða hjá þunguðum konum sem leiddi til vaxtarskerðingar heilans (microencephaly).
Þótt ekki hafi endanlega verið sýnt fram á að veiran valdi fósturskaða er það áhyggjuefni ef móðir sýkist á meðgöngu. Þá hefur einnig orðið vart við aukningu á heilkenni bráðrar fjöltaugabólgu (Gullain-Barré syndrome) þar sem Zíkaveirusýkingin geisar í Mið- og Suður-Ameríku.
Faraldurinn sem nú gengur yfir í Suður- og Mið-Ameríku er því nýr af nálinni. Til þess að faraldurinn berist manna á milli þarf móskítóflugur. Sýkingin getur þó borist frá móður til fósturs og hugsanlegt er að sýkingin geti borist með blóðgjöf og jafnvel með sæði.
Um þessar mundir hefur faraldurinn breiðst hratt út í El Salvador, Venezúela, Colombíu, Brasilíu, Súrinam, Frönsku Gíönu, Hondúras, Mexíkó, Panama og Martiník.
Zíkaveirunnar hefur einni orðið vart í Bólivíu, Guyana, Ekvador, Guadeloupe, Gúatemala, Paragúay, Púertó Ríkó, Barbados, Saint Martin og á Haiti.
Ekki hvatt til ferðabanns
Sóttvarnastofnun ESB (ECDC) hvetur ekki til ferðabanns til ofangreindra landa en ráðleggur öllum að forðast moskítóbit allan sólarhringinn, einkum að morgni og síðla dags til kvölds.
Ráðlagt er að nota moskítófælandi áburð (athugið að efni sem innihalda DEET má ekki nota fyrir börn yngri en þriggja mánaða), klæðast síðerma skyrtum og síðbuxum, einkum þegar moskítóflugurnar eru virkastar. Ef gist er við frumstæðar aðstæður er mikilvægt að nota moskítónet með eða án flugnafælandi efnis.
Þungaðar konur sem hafa hug á að ferðast til ofangreindra landa eru hvattar til að íhuga að fresta för þar til eftir fæðinguna.
Ferðamenn sem snúa heim til Íslands ættu ekki að gefa blóð fyrstu fjórar vikurnar eftir að hafa dvalið á ofannefndum svæðum.
Sóttvarnalæknir
Af síðu landlaeknir.is