Álag vegna eldgosa á umhverfi, dýr og almenning eru almennt lítt þekkt. Nýverið var gefin út, í Riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 83, áhugaverð samantekt rannsókna á áhrifum Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu. Ritið samanstendur af 15 köflum þar sem fjölmargir fagaðilar hafa lagt hönd á plóg við að draga saman helstu niðurstöður rannsókna og vöktunar á áhrifum eldgossins. Ritið er aðgengilegt öllum sem áhuga hafa hér:
Áhrif Holuhraunsgossins á umhverfi og heilsu (skýrsla pdf 9MB)
Þó að sérfræðingar birti vísindarannsóknir sínar á alþjóðavettvangi í sérhæfðum miðlum, þá verður oft erfitt og tímafrekt að ná heildaryfirsýn yfir niðurstöður jafn margra og ólíkra aðila og komu að vöktun og rannsóknum á áhrifum Holuhraunsgossins. Samantekt sem þessi gerir því fræðasamfélaginu, stjórnvöldum og almenningi vonandi kleift að ná betri yfirsýn yfir það margslungna álag sem getur skapast af völdum loftmengunar og eldgosa hérlendis. Einnig er von okkar að hún muni styrkja samhæfð viðbrögð við slíkum atburðum í framtíðinni.
Atburðirnir sem leiddu til eldgossins í Holuhrauni hófust með jarðskjálftahrinu í Bárðarbungu um miðjan ágúst 2014. Hraungosið sem hófst í Holuhrauni þann 31. ágúst 2014 er með stærri hraungosum hérlendis á sögulegum tíma. Gosið varði í um 6 mánuði, en skilgreind goslok voru þann 29. febrúar 2015. Gosið var í eðli sínu sambærilegt að gerð og Skaftáreldar 1783-1784, sem ollu móðuharðindunum svokölluðu, með háum styrk eldfjallagass en lítilli ösku. Eldfjallagastegundir bárust víða frá Holuhraunsgosinu og mældist styrkur hár víða um land á gostímanum. Víðtækari loftmengunar af völdum eldfjallagass hafði ekki orðið vart hérlendis síðan í Skaftáreldum.
Í þessu hefti er gerð grein fyrir megin niðurstöðum úr mörgum þeim vöktunar- og umhverfisrannsóknum þar sem reynt var að meta áhrif eldgossins í Holuhrauni á umhverfi og heilsu. Ljóst er að áhrif eldgossins í Holuhrauni á eðlis- og efnafræðilega eiginleika umhverfisins hafa verið talsverð og líklega meiri en margan grunaði. Niðurstöðurnar sýna að eldfjallagas frá gosinu hafði mælanleg áhrif á umhverfisaðstæður hérlendis þrátt fyrir að atburðurinn hafi átt sér stað á hálendi Íslands, að vetri til og fjarri mannabústöðum.
Sumar af þeim mælingum sem hér er fjallað um voru gerðar á meðan á gosinu stóð, en aðrar, t.d. á straumvatni, gróðri og jarðvegi, fóru fram síðar á árinu 2015, nokkru eftir skilgreind goslok. Staðsetning gossins var hinsvegar afar heppileg, utan jökla og fjarri byggð, og tímasetningin lágmarkaði einnig hversu mikið af eldfjallagasinu hvarfaðist yfir í brennisteinssýru yfir landinu. Bæði staðsetning og tímasetning gossins hefur þannig án vafa lágmarkað neikvæð áhrif eldfjallagassins á umhverfi og heilsu og í raun bjargað því að áhrifin urðu ekki mun meiri en hér varð.