Við höfum stöðugt verið minnt á að sitja og standa bein í baki. Passa að beygja bakið ekki þegar við lyftum hlutum og rétta vel úr okkur öllum stundum.
En er þetta rétt eða orðin úrelt fræði?
Hver kannast ekki við að gleyma sér í vinnu, standa svo upp og vera skakkur og stífur eftir kyrrsetuna?
Þegar við sitjum lengi hvort sem það er bein í baki eða hokin fer líkaminn að kvarta og senda okkur boð um óþægindi, stífni eða verki frá mismunandi líkamssvæðum. Við erum ekki að skemma neitt eða sitja vitlaust, þetta er einfaldlega líkaminn að láta vita að nú sé gott að hreyfa sig eða skipta um stöðu.
Rannsóknir segja okkur að ekki sé bein tenging milli verkja og líkamsstöðu.
Það skiptir ekki máli í hvaða stöðu ég sit, það myndast ákveðið álag í þeim öllum, jafnvel þó ég sé teinrétt í baki og algjörlega til fyrirmyndar. Þess vegna gagnast mér frekar að þekkja inn á hreyfingar líkamans, hafa stöðurnar fjölbreyttar til að létta á mismunandi svæðum hverju sinni og hreyfa mig reglulega yfir daginn.
Það hjálpar að fylgjast með önduninni.
Það getur líka skipt sköpum að athuga hvernig öndunarmynstrið okkar er þegar við erum niðursokkin við vinnu. Höldum við mikið niðri í okkur andanum eða erum við slök með jafna öndun. Ef við höldum mikið niðri í okkur andanum og bítum mikið saman svo kjálkar eru stífir eykst spennan í kerfinu verulega sem getur einnig haft áhrif á líðan við vinnu. Þá getur verið gott að dæsa nokkrum sinnum, hreyfa sig létt og reyna að slaka meðvitað á huga og líkama við vinnuna.
VIVUS þjálfun
Valgerður Tryggvadóttir