Eitt það mikilvægasta í sjálfsvinnu er að vera heiðarleg/ur við sjálfa/n sig. Heiðarleikinn er eitt af því sem flestir þurfa að kljást við. Í erfiðum aðstæðum leitast margir við að afneita, réttlæta eða draga úr sannleikanum. Þetta getur átt við um aðstæður, lífssögu og uppeldi, framkomu einhvers náins og um tilfinningar og hugsanir.
Flestir kannast við það að afneita eigin hugsunum, réttlæta hegðun og draga úr tilfinningum. Þetta getur falist í setningum eins og „mér finnst það ekki... (jafnvel þó mér finnist það)“ eða „já, þetta var nú ekki svo slæmt...“ og „mér fannst þetta vont en það er allt í lagi...“
Til þess að komast að eigin kjarna og byrja svokallað bataferli eða hefja leiðina að bættum lífsskilyrðum og heilbrigðum samskiptum þá er undirstaðan sú að horfast í augu við eigin upplifun.
Við þurfum að vera tilbúin að stíga út úr afneitun, stoppa réttlætingar og hætta að draga úr. Það að þekkja sína lífssögu og eiga sinn eigin veruleika er grunnurinn sem við byggjum á. Það er því mikilvægt að keppa eftir sannleikanum og vanda sig við að vera heiðarleg/ur.
Heiðarleg tilvera er gjöf.
Gjöf frá mér til mín, gjöf sem gefur frjálst líf. Ef við erum sönn uppskerum við frelsið sem fylgir sannleikanum. Þá þurfum við ekki að leggja lygina á minnið, þá finnum við ekki skömm yfir því að vera sek um óheiðarleika, við þurfum ekki að fyrirlíta okkur sjálf fyrir lygi, sleppum öllum feluleik og finnum vel fyrir hugrekki okkar. Það þarf sannarlega hugrekki til þess að horfast í augu við sannleikann. Hvort sem það eru aðstæður eða tilfinningar. Hvað þá ef það eru eigin brestir, gömul úrelt mynstur eða brot sem við höfum jafnvel falið í langan tíma. Heiðarleikinn færir okkur bæði hamingju og frið. Við höfum aðeins talað um frelsið en hamingjuna fáum við með því að gangast við okkur sjálfum. Leyfa öðrum að sjá okkur og meðtaka okkur en þannig fáum við staðfestingu á því að við séum elskuverð eins og við erum.
Oft er það vinur sem til vamms segir.
Sannleikurinn getur verið sár, þar sem við erum ekki alltaf tilbúin til þess að horfast í augu við hann. En heiðarleg nálgun, sönn viðbrögð og sannleiksorð ýta undir traust á meðan óheiðarleiki og lygi ýta undir vantraust og mynda gjá á milli fólks.
En hvernig áttum við okkur á því að við erum í afneitun, að við séum að réttlæta okkur eða að draga úr sannleikanum?
Því er auðvelt að svara, um leið og við þurfum að fela, réttlæta eða flýja þá er það sterk vísbending um að ekki sé allt með felldu.
Ert þú í felum?
Getur þú ekki hitt ákveðna manneskju? Forðast þú ákveðin málefni? Áttu erfitt með að fást við barnið þitt?
Fólk felur sig á bak við uppgerðar bros, samþykkjandi orð sem það meinar ekki. Sjálfshöfnun er óvægin feluleikur en fólk felur skoðanir sínar, mörk sín, gildi og tilfinningar af ótta við hvað öðrum gæti fundist eða hvað aðrir gætu sagt. Til skamms tíma er líklega auðveldara að látast, gangast ekki við því að eitthvað móðgi eða særi. Það gengur hins vegar ekki til langs tíma því sjálfshöfnun ýtir undir kvíða og skert sjálfsmat.
Það að deila sér ekki með öðrum á sannan hátt veldur fjarlægð og stelur nándinni úr samböndum. Það að halda friðinn er ekki brú til sátta.
Vilt þú halda friðinn?
Þegar einstaklingur velur að segja ekkert til að halda friðinn endar það með því að nánd rofnar og skortur verður í samböndum. Þegar manneskja velur að þegja í stað þess að segja hvað í henni býr þá fyllist hún gremju og aðskilur sig frá fólkinu í kringum sig. Slíkt val rænir fólk tækifærum til þess að laga það sem út af ber. Sérstaklega þegar um er að ræða samskipti við nánustu fjölskyldu. Með því að gangast ekki við eigin veruleika, setja mörk, ræða það sem er óþægilegt og vera sönn verður fólk tilfinningalega fjarlægt.
Fólk á það til að segja ósatt þegar það telur sig vernda einhvern með því en staðreyndin er að þegar við uppgötvum að okkur hefur verið sagt ósatt veldur það okkur að öllum líkindum meira uppnámi heldur en bitur sannleiki. Heiðarleiki er betri en óheiðarleiki. Þegar traust hefur einu sinni verið rofið er erfitt að byggja það upp aftur. Við getum beðist afsökunar á gjörðum okkar og óheiðarleika en traust þurfum við að ávinna okkur.
Ef afsökunarbeiðni fylgir ekki ákveðin breyting eða leiðrétting á þeirri hegðun sem beðist er afsökunar á þarf að skoða hvort einlægur vilji fylgi fyrirgefningarbeiðninni.
Það er ekkert til sem heitir hvít lygi eða hálfur sannleikur, heiðarleikinn hefur ekkert svigrúm. Annaðhvort erum við heiðarleg eða ekki. Ef við erum heiðarleg og sönn hvort við annað þá getum við treyst hvort öðru.
Sannleikurinn, ásamt hugrekki, trú og trausti, gerir okkur kleyft að fást við nánast hvað sem er. Sannleikurinn mun gera yður frjálsa . Þegar við erum sönn og setjum fram það sem okkur finnst,hvernig okkur líður, hugsanir okkar og hegðun, erum við frjáls.
Gullna regan er í fjallræðu Jesú Krists, hún hljómar svona: Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Jesús segir þetta vera mikilvægt boð en með þessari reglu setur Jesús umhyggjuna fyrir náunganum í forsæti, þar með talið sannleika og heiðarleika. Boðskapurinn er byltingarkenndur á svo margan hátt, hann er einfaldur og fallegur. Ef við erum heiðarleg og sönn þá erum við fyrirmynd og vinnum þannig að því að fleiri vilji keppast að því að ganga þann veg að virða sannleikann.
Díana Ósk Óskarsdóttir og Fritz Már Berndsen Jörgensson
Hér getur þú nálgast fleiri greinar og fróðleikskorn.