Bandaríska “breytingarskeiðs” félagið (North American Menopausal Society) hafi gert rannsókn á þessu, þar sem fram komi að 17-45% kvenna finni til sársauka við samfarir, þegar þær eru komnar á breytingaskeiðið. “Mér finnst þessar tíðnitölur koma vel heim og saman við þann fjölda sem ég fæ á stofuna til mín”, segir hún.
“Ég fæ konur nánast vikulega sem eru á breytingarskeiðinu og hafa óþægindi við samfarir en oftast kemur það fram 1-2 árum eftir að blæðingar eru hættar eða fer að versna þá”, segir Berglind og bætir því við að þær viti oft ekki að það séu til leiðir til að meðhöndla þetta vandamál. Sumar hafi kannski verið slæmar lengi án þess að leita læknis. “Þetta getur verið verkur við samfarir, eða sviði og verkur eftir kynmök. Þetta getur verið orðið það slæmt að þær geta ekki stundað kynlíf”, segir hún.
Ástæðan fyrir þessu er að þegar estrogen hormónið minnkar við breytingarskeiðið þá þynnist slímhúðin í leggöngunum og verður minna teygjanleg. Þetta veldur þurrki og óþægindum við samfarir, að sögn Berglindar. “Ef þetta er ekki meðhöndlað”, segir hún “og konan stundar aldrei samfarir þá verða leggöngin þrengri með árunum og samfarir verða þá enn erfiðari, svo það er mikilvægt að meðhöndla konuna ef slík einkenni eru til staðar og hún hefur áhuga á að stunda kynlíf”