„Fólk bregst misjafnlega við missi. Sumum gengur erfiðlega að venjast því að ástvinur sé farinn, en aðrir eiga auðveldara með það“, segir Bryndís. „Það þýðir ekki að þeir hafi elskað minna, séu að loka á tilfinningar sínar eða séu ekki í lagi sjálfir, það þarf ekkert að vera. Menn ganga í gengum sorgina á mismunandi hátt. Þar er ekkert rétt og ekkert rangt. Við höfum ákveðna þörf fyrir að setja allt í sérstök hólf og telja að ákveðin viðbrögð eigi ekki við í sorginni. En ég hugsa að það leiti til mín jafn margir sem telja að þeir séu ekki að syrgja „rétt“ og þeir sem eiga í erfiðleikum og þurfa aðstoð“.
Bryndís segir mikilvægt að skoða hvort neikvæðar hegðunarbreytingar verði hjá fólki í kjölfar missis. Þarna skipti bjargráð hverrar manneskju miklu máli. „Dæmi um neikvæð bjargráð eru aukin áfengisneysla, aukin áhættuhegðun, eins og fjárhættuspil eða óábyrgt kynlíf, eða að menn hætti skyndilega í vinnu, selji húsið sitt, flytji og þar fram eftir götunum“. Hún segir að þetta eigi þó fyrst og fremst við um þá sem ekki hafi lagt það í vana sinn áður að gera slíka hluti, en byrja á þessu eftir missi. Félagsleg einangrun eftir missi geti líka verið neikvæð, þó hún sé alveg eðlileg að vissu marki.
„Það er eðlilegt að við drögum saman seglin og veljum okkur verndaðra umhverfi á meðan við erum að jafna okkur og þurfum að hlúa að okkur. Þá umgöngumst við helst nána aðstandendur og vini, sem geta veitt jákvæðan stuðning. Það er ekki gott að einangra sig frá slíku fólki“, segir Bryndís. Hún segir að jákvæð bjargráð séu þannig að menn leyfi sér að upplifa tilfinningar sorgarinnar án þess að dæma sig fyrir það. Einnig að þeir biðji um aðstoð ef þeir þurfi á henni að halda. En þeir megi líka hafna aðstoð ef þeim líður þannig. „Það er mikilvægt að halda rútínu þegar menn ganga í gegnum sorg, sofa vel, nærast, hreyfa sig og vera í hæfilegri virkni. Það er mjög mikilvægt“, segir hún „og að fólk geri sér grein fyrir að það hafi ekki sömu orku og venjulega, sömu færni og geti ekki haldið sama hraða í lífinu. Sýni því almennt skilning og umburðarlyndi sem það er að ganga í gegnum og lagi sitt daglega líf að því“.
Bryndís segir að helsti vandinn sem þeir upplifi sem séu að ganga í gegnum sorg, sé samskiptavandi. Hann geti birst í samskiptum við vini, kunningja, nágranna og vinnufélaga. „Það er ótrúlegt hvað við hræðumst dauðann og sorgina. Sumir vita ekkert hvernig þeir eiga að bregðast við. Forðast jafnvel að hitta þann sem syrgir eða eru alltof nærgöngulir“, segir hún og bætir við að það eigi að sjálfsögðu alltaf að heilsa fólki í þessum aðstæðum og að við höfum orð til að nota eins og ég samhryggist þér, eða ég finn til með þér. Þannig fær sá sem syrgir tækifæri til að segja frá því sem hann vill segja frá og það er gott að láta hann eða hana stýra umræðunni.
Menn setja líka tímastimpil á sorgina að sögn Bryndísar. „Nú er komið ár, er þetta ekki orðið ágætt?“ spyrja menn. „Ertu enn með fötin hennar uppi og það er komið ár?“, eða að uppkomin börn sem hafa misst föður sinn, undrast að móðirin hafi losað sig við fötin hans og aðra hluti þremur mánuðum eftir andlát hans. Dragi af því þá ályktun að hún sé í afneitun. Bryndís segir að fólk í báðum þessum aðstæðum geti verið á góðum stað í sorgarferlinu og takist á við það á sínum hraða, sem sé bara allt í lagi.
Svo eru þeir sem eiga virkilega erfitt í sorginni. Þrátt fyrir rannsóknir segir Bryndís að það sé í raun ekkert hægt að segja til um ástæður þess hvers vegna sumir eigi erfiðara með sorgarferlið en aðrir. „Nei, en hafi verið mikil togstreita í sambandi . . . LESA MEIRA