Þrír fulltrúar geðverndarmiðstöðvarinnar Grófarinnar á Akureyri hafa í haust farið í grunnskólana á Akureyri og boðið upp á geðfræðslu fyrir kennara og annað starfsfólk.
Þrír fulltrúar geðverndarmiðstöðvarinnar Grófarinnar á Akureyri hafa í haust farið í grunnskólana á Akureyri og boðið upp á geðfræðslu fyrir kennara og annað starfsfólk.
Einnig á Hrafnagili og á Grenivík. Áður höfðu nemendur verið fræddir og hefur ætíð tekist mjög vel til að sögn þremenninganna.
Það er geðfræðsluteymi Grófarinnar sem þarna er á ferðinni; Eymundur Eymundsson, Sonja Rún Magnúsdóttir og Hrafn Gunnar Hreiðarsson. „Við höfum farið í alla 9. bekki á þessum stöðum og foreldrum á Akureyri bauðst fræðsla en við eigum framhaldsskólana eftir hér í bæ og nágrannasveitarfélögum,“ segir Eymundur.
Óhætt er að segja að vel hafi tekist til, að mati þeirra. „Starfsfólk, kennarar, ungmenni og foreldrar orðið margs vísari um geðraskanir og hvernig er að lifa með þær án þess að fá hjálp en líka hvað hægt er að gera með því að fá hjálp. Einlægar og góðar spurningar höfum við fengið sem og mikið þakklæti frá öllum hvort sem það er starfsfólk, kennarar, nemendur eða foreldrar.“
Fræðslan var hugsuð fyrir skólana á Akureyri en þegar starfsfólk grunnskólans á Grenivík sóttist eftir að fá eins fræðslu stökk teymið til og fór í heimsókn. „Við tókum því fagnandi enda gott og hollt fyrir alla að sjá að við erum manneskjur sem höfum glímt við geðraskanir með okkar tilfinningar sem hafa haft áhrif á okkar líf og það á enginn að þurfa að skammast sín fyrir að leita sér hjálpar eða tala um sína vanlíðan. Með því að byrgja inni vanlíðan og þora ekki að tala um hana er maður að búa til svarthol sem étur mann að innan, sem hjálpar engum og síst þeim sem þurfa hjálp.“
Eymundur, Sonja og Hrafn segjast hafa fundið fyrir því hve mjög vanti fagmenn til að taka á þessum vanda strax í grunnskóla og umhugsunarefni sé hvers vegna þeir séu ekki fyrir hendi árið 2015! Því fyrr sem tekið sé á vandanum því betri tækifæri hafi ungmenni í vanda á að byggja upp sjálfstraust sem gefi þeim meiri möguleika á auknum lífsgæðum.
„Það er svo skrýtið að við erum alltaf að taka á afleiðingum í staðinn fyrir að byrja á grunninum og gefa ungmennum tækifæri á að byggja sig upp í staðinn fyrir að bíða þangað til í óefni er komið sem getur orðið of seint. Að það sé margra mánaða bið eftir að komast að hjá skólasálfræðingi neyðir oft foreldra til að kaupa þjónustu. Hver maður sér að það kostar mikið og margir hafa ekki efni á því. Mörg ungmenni eiga erfitt með sín andlegu veikindi eða vanlíðan og við teljum að þetta myndi ekki líðast ef um önnur veikindi væri að ræða. Við læknum ekki allt með lyfjum heldur vantar skilning og stuðning frá samfélaginu sem og ráðamönnum til að þessi börn og ungmenni fái strax hjálp. Það sparar að taka á vandanum strax en kostar tvöfalt meira ef menn ætla alltaf að fresta vandanum.“
Grein send inn til Heilsutorg.is frá Eymundi Eymundsson.