Haustið er sá tími þar sem tilfinningar eiga það til að fara upp og niður, út og suður. Gleði, spenna, eftirvænting, kvíði, ótti og svo mætti áfram telja.
Breytingar virðast vera hluti af haustinu, sama á hvaða aldri við erum. Að mæta til vinnu eftir sumarfrí, upplifum við að eitthvað hefur breyst og við sjálf mögulega líka. Hjá sumum eru nýir samstarfsfélagar, ný viðmið, aðrar reglur, sé nú ekki minnst á ástand sökum Covid 19.
Þetta finnst okkur nóg að kljást við. Ég tel að við fullorðna fólkið eigum að hafa þokkalegan þroska og lífsreynslu til að stjórna okkar tilfinningum, kvíða og spennu. Við ættum að geta leyst þessi mál án þess að setja heimilið okkar undir með tilheyrandi spennu og tilætlunarsemi.
Um leið og börnin okkar byrja að sækja menntun eða þjónustu utan heimilis upplifa þau án efa margvíslegar tilfinningar. Segja má að hjá þeim séu breytingar á hverju hausti. Til dæmis flutningur frá dagmömmu í leikskóla. Úr leikskóla í grunnskóla. Úr grunnskóla í framhaldsskóla. Úr framhaldsskóla í háskóla, svona mætti rekja líf barna okkar í fáum setningum.
Setjum okkur í spor barnanna. Veltum fyrir okkur hvað bíður þeirra. Skildu þau vera búin að gera sér væntingar um viðkomandi skóla? Hvað vita þau um þær aðstæður áður en skólinn byrjar? Hver verður síðan upplifunin? Hafa þau tækifæri til að tjá líða og upplifun sig, við fullorðna?
Því má líkja við þegar fullorðið fólk byrjar í nýrri vinnu eða skóla þá er óvissan gjarnan mikil. Berum virðingu fyrir því þegar nýr kennari byrjar í leikskólanum, barnið flytur á nýja deild. Það getur verið heilmikil áskorun. Sama má segja um grunnskólann, nýr kennari, nýir bekkjafélagar og ný skólastofa.
Svona mætti rekja hvert skólaár barns frá því það er tæplega ársgamalt.
Hversu vel hlustum við og virkilega heyrum hvernig þeim líður. Hvar við getum stutt við þau í þeim sporum sem þau standa hverju sinni. Eiga þau að „harka af sér“ því við höfum ekki tíma til að sinna þeim og vinnan okkar bíður. Það er skylda okkar að setja börnin okkar í 1.sæti sérstaklega á ákveðnu aldurstigi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Frami okkar verður að bíða meðan við styðjum við börnin til náms og eflum þau til að setja mörk í samskiptum. Það að hafa tækifæri til að tala um skóladaginn sinn og tjá tilfinningar sínar, fá aðstoð við hvernig best er að takast á við þær skiptir miklu máli.
Afar mikilvægt er að vanda vel skil milli skólastiga. Þar skiptir brúin milli leik-og grunnskóla miklu máli. Ekki síður en skilin milli grunnskóla og framhaldsskóla. Foreldrar unglinga finna fyrir breytingunum þegar framhaldsskólaganga er hafin. Þessar tvær brýr eru gríðarlega mikilvægar að vel sé unnið að skólaskilum og nemendur séu eins vel undirbúin og kostur er. Að uppalendur átti sig á þeim aðstæðum sem börnin standa í.
Í leikskólanum mínum, leggjum við áherslu á góðan undirbúning fyrir næsta skólastig. Með tilliti til félags- og tilfinningafærni, auk hljóðgreiningar og lesturs.
Fyrir tíma Covid áttum við í góðu samstarfi við aðra leikskóla í hverfinu sem koma að grunnskólanum sem okkar nemendur sækja. Við höfum markvisst farið í heimsókn í skólann, hitt kennara 1.bekkjar og kynnst nemendum. Við höfum fengið aðstöðu í frístund fyrir hádegi, þar sem húsnæðið er lítið notað þá, fyrir nemendur okkar til að kynnast húsnæðinu. Þar hitta þau einnig verðandi bekkjarsystkin og leika saman. Fyrir vikið þekkja nemendur okkar margt af því sem bíður þeirra.
Ef við skoðum okkur sjálf, í nýrri vinnu. Hvernig tekið er á móti okkur. Upplifum við okkur fljótlega sem einn af hópnum. Aðlögun okkar í nýtt starf má líkja að svo mörgu leiti við það að byrja á nýju skólastigi, sama hvaða skólastig ræðir. Við þurfum að læra uppá nýtt, þekkja húsnæðið, ný nöfn, jafnvel aðra starfshætti en við erum vön. Við þurfum að taka tillit, gefa eftir og sammælast um atriði sem fleiri hafa stjórn á en við sjálf.
Þetta eru sömu lögmál með öðrum breytum en hjá börnum okkar þegar þau standa frami fyrir skólabyrjun.
Hlustum á hvert annað og virkilega heyrum hvað verið er að segja. Ef einhver í fjölskyldunni upplifir kvíða, ótta eða depurð. Þá er mikilvægt að fá aðstoð. Tala við kennara eða einhvern sem hefur með nám barnsins að gera, fá leiðbeiningar og verkfæri til að leysa vandann. Einnig er hægt að leita á heilsugæsluna eftir aðstoð. Ég er ekki að tala um að við stoppum við fyrstu hindrun, heldur er mikilvægt að vera vakandi fyrir líðan.
Þekkt er að börn sæki sér umhyggju og áheyrn eitthvað annað. Því miður er það staðreynd í okkar litla samfélagi sem heitir Ísland, um land allt er veikt fólk sem níðist á börnum. Börn sem fá ekki umhyggju og áheyrn eru oft auðveld fórnarlömb þessara aðila. Börnin átta sig ekki á því að einhver vilji þeim illt. Þau geta verið auðkeypt til að gera ýmsa hluti eins og mörg dæmi því miður sanna.
Einnig verður að taka inn í myndina að manneskjan er kynvera og á ákveðnu aldursbili eru miklar uppgötvanir hjá börnum gagnvart kynferði sínu og annarra. Því miður þarf ekki fullorðin einstakling til, mögulega eldri skólasystkin, eða eldri systkin sem fá þau yngri til að gera kynferðislega hluti. Þeir „leikir“ geta þróast í skugga þess að uppalendur hafa takmarkaðan tíma og eldri systkini og vinir eru meira ábyrg fyrir yngri systkinum.
Höfum hugfast hvernig við forgangsröðum lífi okkar, hvað við veljum að láta stjórna lífi okkar er breytilegt eftir hvar við erum stödd í lífinu hverju sinni.
En eitt er víst að börnin eiga ekki að líða fyrir það að þau fæddust í okkar líf og við „geymum þau upp í hillu“ meðan að við setjum aðra hluti í forgang sem við teljum mikilvægari í augnablikinu.
Hlustum og heyrum hvað börnin segja
Að lokum langar mig að minna okkur öll á að séum við í vanda, er það skylda okkar gagnvart barninu að leita aðstoðar „SEGÐU FRÁ“.
Arnrún Magnúsdóttir
leikskólakennari
Fræðsla ekki hræðsla