Fyrir nokkrum dögum var ég við jarðarför konu á besta aldri sem lést langt fyrir aldur fram frá fjölskyldu sinni. Við útförina talaði presturinn um að lífið væri óvissuferð. Þetta finnst mér afar áhugaverð nálgun enda aldrei sett þetta í þannig samhengi.
Auðvitað er lífið óvissuferð, við vitum aldrei fyrir víst hvar við endum eða hvenær og þótt við skipuleggjum og undirbúum okkur vel þá getur allt breyst á svipstundu. Þess vegna er lífið óvissuferð.
Og þegar maður fer í óvissuferð þá lætur maður sig hlakka til og bíður spenntur hvað gerist næst. En auðvitað getur maður svo sem líka orðið kvíðinn gagnvart því óvænta.
Þannig er þetta líka í lífinu. Lífið er ein stór óvissuferð – en hún er mislöng hjá okkur því sumir eru í langri ferð á meðan aðrir fá mun styttri ferð. Þetta er ekkert alltaf sanngjarnt. Enda hefur enginn lofað okkur því að lífið sé sanngjarnt. Við erum jú í óvissuferð.
Nákvæmlega þess vegna er svo mikilvægt að njóta hvers dags, að gera það sem stendur hjarta okkar næst, að lifa og vera til.
Litlu hlutirnir í lífinu eru þeir sem skipta mestu máli þegar upp er staðið. Þess vegna ætti kannski frekar að kalla þá stóru hlutina. En litlu hlutirnir eru líka oftast þeir sem kosta ekki neitt og ættu að vera auðveldir í framkvæmd.
Njótum óvissuferðarinnar og njótum þess að vera til!
1. Bros
2. Hlátur
3. Kossar
4. Faðmlög
5. Ást . . . LESA MEIRA