Það er einföld ástæða fyrir því að Margréti tekst að fara með svo mörg börn á mótið á hverju ári. Þau eru nefnilega sjö talsins frá 21 árs aldri og niður í fjögurra. Unglingalandsmót UMFÍ er fyrir 11-18 ára börn og ungmenni og hafa tvö yngstu börnin ekki enn náð aldri til að taka þátt í mótinu nema á þeim viðburðum sem ætlaðir eru fyrir yngri systkini þátttakenda. Á fyrsta Unglingalandsmóti fjölskyldunnar var ein dóttir skráð til leiks. Síðan þá hafa þá alltaf verið fleiri.
Margrét átti ekki heimangengt þegar Unglingalandsmótið var haldið á Egilsstöðum árið 2011. Næstelsta dóttir hennar fór hins vegar og náði góðum árangri.
Margrét segir Unglingalandsmót UMFÍ afar jákvætt fyrir alla fjölskylduna. „Við föum alltaf öll saman og þau litlu með. Hún viðurkennir samt að hún sé ekki mikil útilegumanneskja og eigi fjölskyldan hvorki tjaldvagn né fellihýsi eins og algengt er. Þau hafi aðeins einu sinni tjaldað á mótinu. Það var í Borgarnesi 2010. „Við erum það mörg að við fáum frekar inni hjá ættingjum og vinum á mótastöðunum. Það hefur gengið ótrúlega vel,“ segir Margrét en fjölskyldan gistir hjá bróður hennar í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina.
Margrét æfði frjálsar á sínum yngri árum og hafa börnin tekið við keflinu í greininni. Þau hafa þó bætt við sig keppni í fótbolta og körfubolta. „Við reynum að láta þau taka þátt í flestum greinum. Ég á mér þann draum að þau keppi í einhverju öðru og reyndi að skrá þau í stafsetningu. Þótt þau eru góð í íslensku þá höfðu þau ekki húmor fyrir því,“ segir Margrét.
Margréti finnst afar gaman að mæta með fjölskylduna á Unglingalandsmóti.
„Á mótið mæta margir sem ég æfði með og keppti við í frjálsum í gamla daga. Þess vegna er þetta eins og ættarmót fyrir mig og fjölskylduna,“ segir Margrét Brynjólfsdóttir á Patreksfirði.
Viltu vita meira um Unglingalandsmótið og dagskránna?
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Skráningargjald er 7.000 kr. Öll ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára geta skráð sig til leiks. Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag.
Dagskrá mótsins er á ulm.is. Þar er líka að finna allar upplýsingar um frábæra tónlistarfólkið sem kemur fram. Þar á meðal eru Between Mountains sem voru á Bræðslunni um helgina, tónlistarkonan Young Karin, Emmsjé Gauti sem var líka á Bræðslunni, Herra Hnetusmjör, Huginn, DJ Egill Spegill, Flóni og margir fleiri.