NEMA GLÚTENLAUST MJÖL FARI Í BAKSTURINN!
Auðvitað er hægt að sleppa öllu brauði. Bara alltaf. Taka út allar bollakökur, afþakka súkkulaðikökur í afmælisveislum og narta bara í ávexti. Panta glútenlausa rétti á heilsuveitingastöðum og svo eru það heilsuhillurnar í matvöruverslunum, þar sem úir og grúir af glútenlausum viðbótum sem eiga að koma í stað hveitis. En er alltaf að marka innihaldslýsingar tilbúinna matvæla og er ekki bara hægt að blanda glútenlausar mjölblöndur heima?
HVAÐ EF MANNI LANGAR EINFALDLEGA Í BRAUÐSNEIÐ?
Á bandaríska heilsuvefnum WebMD er að finna ágætis umfjöllun um glútenlausar viðbætur og hvað ber að varast þegar glútenlaust mjöl á að koma í stað hveitis. Það er nefnilega ekki nóg að taka út allt hvítt hveiti og telja að sú ákvörðun ein og sér leiði af sér kraftaverk.
Mjöl sem innihalda glúten eru meðal annars hvítt hveiti, spelt, bygg og rúgmjöl. Í stuttu máli er glúten próteinsameind sem finnst í fyrrgreindu mjöli og veldur m.a. því að mjölið lyftir sér betur í bakstri, mótar sig betur og gefur bökunarvörum ákveðna þéttni.
Þetta gerir að verkum að glútenlaus bakstur getur verið afar erfið áskorun, þar sem glúten hjálpar mjölinu að lyftast, mótast og brúnast í bakstri. Þetta er ástæða þess að glútenlaus mjöl í tilbúnum umbúðum innihalda oft hvítt rísmjöl og önnur bindiefni sem hjálpa geri, bökunarsóda og lyftidufti að lyfta deiginu þegar bakað er.
GLÚTENLAUST MJÖL GETUR INNIHALDIÐ FLEIRI HITAEININGAR EN HVÍTT HVEITI:
Glútenóþol er staðreynd, þjakar einstaklinga á öllum aldri víða um heim og þá eru þeir ótaldir sem ekki eru með beint glútenóþol, heldur eru einungis næmir fyrir glútenríkum brauðvörum. Meðan það eitt að taka út glúten úr fæðunni getur umbreytt líðan fólks og orkað styrkjandi á heilsuna, er sú mýta að glútenlausar matvörur séu beinlínis bætiefnaríkari útbreiddur misskilningur. Glútenlausar matvörur innihalda ekki fleiri næringarefni en hvítt hveiti, rúgur og bygg – þvert á móti eru glútenlaus mjöl oft næringarsnauðari, þar sem hvítt hveiti er oft vítamínbætt og inniheldur þannig fólínsýru, B-vítamín og steinefni. Það eina sem skilur að – er að glútenpróteinið vantar. Það er það sem skiptir sköpum, en ekki næringarefnin sem glútenlaust mjöl er oft talið innihalda.
Grein af sykur.is