Sem betur fer er Beta vulgaris, rauðrófan eða rauðbeðan, nú aftur að fá þá athygli sem henni ber. Þegar allt kemur til alls hefur þessi grænmetistegund, frá blöðum niður í rót, verið þekkt í fjölmörgum ólíkum samfélögum um árþúsundir . Laufin eru bæði næringarrík og bragðgóð, en það er samt rótin, sjálf rauðrófan, sem er umfjöllunarefni þessa bæklings. Hún hefur þraukað í gegn um gerilsneyðingu allt til nútímans, aðeins af einni mikilvægri ástæðu – ótrúlegu næringargildi sínu.
Rauðrófan hefur tapað vinsældum sínum sums staðar í aldanna rás en haldist sem hefðbundin fæða í öðrum, svo sem í Austur- og Mið-Evrópu og á Indlandi. Sumir telja að rauðrófan hafi lotið í lægra haldi fyrir spínati, sem varð víða vinsælt. Góðu fréttirnar eru þær að rauðrófan er að ná vinsældum á ný, þökk sé vísindunum og þekkingu á hollustu hennar og orku. Ef einhver ánetjast henni ekki vegna bragðsins, þá munu þeir fljótlega skynja lífsgæðin sem hljótast af neyslu rauðrófunnar.
Líklegt er að rauðrófan hafi löngum verið einhver vanmetnasta fæðutegundin. Það er auðvelt að rækta hana, hún hefur gott geymsluþol og aðlagast auðveldlega mismunandi loftslagi. Frá öndverðu hefur rauðrófan verið notuð í lækningaskyni, m.a. við eftirtöldu:
Núna er rauðrófan einnig notuð sem hvati, til að styðja mörg fæðubótarefni og rauðrófuduft er er virkt innihaldsefni í fjölmörgum slíkum. Rauðrófur og efni sem unnin eru úr þeim eru afar margbreytileg og hafa mismunandi virkni.
Finna má niðurstöður rannsókna í fjölmörgum vísindatímaritum og á netinu, sbr. tilvísanir. Vinsælustu rannsóknirnar fjalla um hæfni rauðrófuduftsins til að efla þrek og úthald, efla minni vegna aukins blóðflæðis til heila og bæta hjartastarfsemi. Að auki inniheldur rauðrófan ýmis vítamín og steinefni auk náttúrlegra jurtaefna, sem mörg hver eru okkur nauðsynleg.
Rauðrófur og efni unnin úr þeim eru viðurkennd af afreksfólki um allan heim og voru meðal annars notuð af nokkrum keppendum á Ólympíuleikunum 2012. Þeir töldu að það hefði bætt árangur þeirra verulega, jafnvel allt að 16%. Þetta hefur aukið áhuga almennings á þessu endurheimta fæðubótarefni.
Þessum bæklingi er ætlað að vera einfaldur en upplýsandi leiðarvísir um gildi rauðrófu og efna sem unnin eru úr henni. Með því að beisla lækningamátt efna sem leynist í þessu stórkostlega rótargrænmeti er unnt að bæta lífsgæði og heilsu verulega og jafnvel að bjarga mannslífum.
Fyrir þá sem vilja vita meira og fræðast um þær rannsóknir sem gerðar hafa verið er skrá yfir heimildir í lok hvers kafla, sem höfundar þessa rits hafa stuðst við. Þar er um að ræða bækur, fræðitímarit og einstakar greinar, auk tilvísana í efni á vefnum.
[Rauðrófa eða rauðbeða (fræðiheiti: beta vulgaris ssp. vulgaris v. conditiva (v. rubra)) er rótargrænmeti, rautt á lit. Rauðrófa er náskyld sykurrófu og beðju. Hún er tvíær, fyrra árið myndast rótarávöxtur en seinna árið myndast fræ.
Rauðrófa er núna nytjaplanta sem vex hvergi villt en fyrr á öldum þá var villt afbrigði strandrófu notað sem lækningajurt en það óx villt meðfram ströndum í Evrópu. Villta afbrigðið myndaði ekki forðarót. Fyrsta afbrigðið af rauðbeðu sem líkist nútíma rauðbeðu er er afbrigði af rómverskri rófu (beta romana) sem fjallað er um árið 1587 í bókinni Historia Generalis Plantarum. Rómverska afbrigðið barst til Þýskalands árið 1558 og barst þaðan endurbætt til fleiri ríkja. Í mið- og Austur-Evrópu varð rauðrófa mikilvægt grænmeti og uppistaða í súpu eins og borsjtj og í Skandinavíu var rauðrófa notuð í síldarsalat og rauðbeðusalat. Hún var síðar þróuð í fóðurrófu og sykurrófu og fyrsta sykurrófuverksmiðjan var stofnsett árið 1802 í Slesíu.
Rauðrófur hafa fremur hátt sykurmagn (sykur er um 9 g á hver 100 g). Rauðrófur innihalda litarefnið betanin. Það er unnið úr rauðrófum sem rautt litarefni með númerið E-162. Rauðbeður má borða hráar (t.d. rifnar í salat), niðursoðnar eða heilar eða ofnbakaðar.
Hjartað rauða
Mannkynið og rauðrófan hafa átt samleið um óraveg tímans. Formóðir hennar var strandrófan, sem óx villt meðfram ströndum í Evrópu. Villta afbrigðið myndaði ekki forðarót og því var það kálið og stilkurinn sem var nýtt til matar og lækninga. Grikkir, Rómverjar og Gyðingar ræktuðu rauðrófur vegna kálsins og stilkanna, en Rómverjar fóru síðan að nota rótina sem lyf við hitasótt og ýmsu öðru. Rauðrófan öðlaðist ekki „frægð“ sem rótarávöxtur fyrr en á 16. öld.
Rauðrófur koma fyrir í forngrískri og rómverskri goðafræði. Því hefur verið haldið fram að gyðja fegurðar og ástar, Afródíta (eða Venus) þakkaði rómantískan þokka sinn krafti rauðrófunnar. Þetta gæti skýrt það hvers vegna rauðrófu er að finna á erótísku veggmálverki frá hinni fornu borg Pompei. Það var vegna meintra áhrifa á kynlíf guðanna að dýrkendur Apollós, sem einnig var nefndur sólguðinn, komu með rauðrófur sem fórnargjöf í hofið í Delfí. Véfréttin í Delfí sagði Appolló, að radísur væru virði þyngdar sinnar í blýi, en rauðrófur væru virði þyngdar sinna í silfri. Það var aðeins piparrótin sem tók þeim fram, en hún var sögð þyngdar sinnar virði í gulli.
Hjartalögun rauðrófunnar, blöð hennar og ástríðufullur rauður litur skapa djúp tengsl við tákn ástarinnar, hjartað. Rauðrófan „blæðir“ meira að segja rauðu. Og ef rótin er hjartað þá samsvara blöðin líkamanum og æðar þeirra blóðrásarkerfi mannslíkamans. Það má greina þessar æðar á blöðunum. Það var liturinn, lögunin og þessi samlíking, sem styrkti trú forn-Grikkja á áhrifamátt jurtarinnar.
Miðaldamenn þekktu gæði hinnar mjúku, sætu og jarðbundu rauðrófu og tryggðu ræktun hennar til neyslu. Frá Miðjarðarhafslöndum breiddist ræktun hennar út með kaupmönnum. Um miðaldir var farið að rækta hana sem rótarávöxt og grasalæknar nýttu sér eiginleika hennar. Rauðrófan var ræktuð sem vetrargrænmeti í klausturgörðum á Ítalíu, Frakklandi og á Spáni. Ný afbrigði þróuðust og ræktunin sótti norður á bóginn. Á þessum tíma var rótin lengri og mjórri en nú.
Hin kunnuglega hjartalögun rófunnar varð til á sextándu öld og átti sess á matseðli Mið- og Austur-Evrópubúa um aldir. Á Englandi náði rauðrófan vinsældum á nítjándu öld, þar sem hún var notuð í salöt, búðinga og aðra eftirrétti. Evrópskir landnemar komu með rauðrófu til Ameríku, þar sem hún reyndist drjúg sem vetrarforði. Fljótlega uppgötvaðist að í rauðrófunni var að finna sykur, sem mátti vinna, ekki síður en úr sykurreyr. Þetta varð til þess að þróuð voru sætari afbrigði og farið að vinna úr þeim sykur.
Úr rauðrófu hafa verið framleiddir fatalitir, matarlitir og varalitir, hún hefur verið notuð til gerjunar og drykkir verið framleiddir, sem hlotið hafa heitið „lífs elixír“. Þá þekkja mjög margir vinsæla rauðrófusúpu, sem kölluð er „borsch“ og er einkum vinsæl í Rússlandi og Austur-Evrópu.
Nú á dögum eru fjölmörg afbrigði ræktuð af Beta vulgaris. Þar er að finna kál- og spínatrauðrófur jafnt og rótarafbrigði jurtarinnar. Rauðrófuafbrigðin eru ólík að lögun, stærð og lit. Rótarliturinn getur verið frá gulu yfir í rautt, jafnvel afbrigði sem eru röndótt. Hvíta rótin, „sykurrófan“ er notuð til að framleiða sykur til manneldis og hefur verið kynbætt upp í að innihalda allt að 20% sykur. Annað afbrigði, nefnt: „mangelwurzel“, er ræktað til dýrafóðurs og er of gróft til manneldis. Alvinsælasta afbrigðið er blóðrauða rauðrófan, ein allra vinsælasta heilsuvara nútímans.
Og ekki að ástæðulausu ...
Heimildaskrá fyrsta kafla:
Rauðrófan er eins og gullkista troðfull af verðmætum næringarefnum, eins og skýrt verður í næstu köflum. Rauðrófan tilheyrir Chenopod ættkvíslinni og skyldar tegundir eru t.d. spínat og inkablóm (frumbyggjanjóli). Þessar fæðutegundir innihalda skyld næringarefni, sem er ekki að finna í öðrum ættkvíslum jurta og rannsóknir eru stöðugt að leiða í ljós fleiri kosti þeirra.
Í rauðrófunni eru andoxunarefni, og þau finnast líka í grænu blöðunum. Rauði liturinn er flókin samsetning af vatnsleysanlegum sindurefnum sem eru nefnd „betalains“, en nafnið er dregið af latneska heiti jurtarinnar, „Beta vulgaris“. Betalain, sem einkennist af rauða litnum, er einnig að finna í öðru grænmeti og ávöxtum, svo sem rauðkáli, greipaldinum, kirsuberjum og plómum.
Það er efnið betalain sem veldur hinum rauða lit rauðrófunnar, sem getur reyndar verið breytilegur frá gulum að djúpum rauðfjólubláum lit. Rauðu til fjólubláu afbrigðin eru nefnd betacyanins (betanín), en hin gulu til appelsínurauðu betaxanthins (vulgaxanthin og indicaxanthin). Betanín er auðveldast að muna, enda er það grunnefnið í rauðrófum og það hefur verið mest rannsakað af þessum efnum. Gulu efnin eru undirliggjandi í öllum þessum tegundum, þau eru bara grímuklædd í þeim rauðu. Betanín er samþjappað í frumum rauðrófu og lekur auðveldlega út eða“blæðir“ úr rófunni þegar hún er skorin eða hituð.
Rauðrófur innihalda öflug andoxunarefni. Andoxunarefni eru mikilvæg því þau eyða eða gera óvirkar stakar súrefnisrafeindir, sem geta með oxun valdið skaða á líkamsfrumum og erfðaefnum þeirra er þær flytjast frá einu efni í annað. Þó súrefnisrafeindir séu líkamanum nauðsynlegar í nokkrum mæli verður að halda þeim í jafnvægi. Líkaminn framleiðir sjálfur andoxunarefni til að mæta þessu, en ekki alltaf nægilega mikið og því er nauðsynlegt að velja fæðu sem inniheldur andoxunarefni og ná með því jafnvægi í frumubúskapnum.
Fjölmargar rannsóknir styðja andoxunarhæfni efnisins betanín, sem er að finna í rauðrófum. Þetta efni dregur úr streitu, lækkar kólesteról í blóði og minnkar áhættu á hjartaáföllum, hjartaslagi og kransæðastíflu. Af öllum hinum ágætu innihaldsefnum rauðrófunnar eru andoxunarefnin mikilvægust.
Rauðrófur hafa ávallt verið notaðar til þess að hreinsa líkamann og losa úr honum óæskileg efni. Nú á tímum eru stöðugt fleiri efni í umhverfinu sem berast í líkama manna, en eru óæskileg. Samkvæmt rannsóknum bandarísku krabbameinsstofnunarinnar (U.S. Cancer Panel) er talið að á heimsvísu séu daglega um 80.000 mismunandi mengunarvaldar sem fólk þarf að kljást við. Aukning á krabbameinstilfellum helst í hendur við vaxandi mengun. Það er talið víst að efni í rauðrófum vinni gegn mörgum þessara eiturefna.
Komið hefur í ljós í rannsóknum að betanín er mikilvægur þáttur í áhrifum rauðrófu gegn krabbameini. Sýnt hefur verið fram á varnargildi jurtafæðu gegn margvíslegum sjúkdómum. Þetta hefur vakið mikla athygli og skapað nýjar væntingar um bætta heilsu með réttu mataræði. Rauðrófur innihalda fjölmörg af þessum heilsubætandi efnum, svo sem luteolin, lutein, og beta-carótín.
Það er rétt að nefna líka að betanín er gagnlegt sem litarefni í fæðuiðnaðinum. Stöðugt fleiri kjósa náttúrleg litarefni umfram gerviefni í fæðu, snyrtivörum og lyfjum. Betanín, svo sem E162 er notað sem bragðefni og litarefni í mjólkurvörur, kjöt, tómatsósu, sósur, eftirrétti og morgunkorn. Þetta efni er heppilegt til þessara nota vegna heilsusamlegra áhrifa og það er algjörlega laust við ofnæmisvaka.
Það getur hent að blóð sé í þvaginu eftir neyslu rauðrófusafa. Svo þarf þó ekki að vera. Þetta er yfirleitt hættulaust og má líkja við það að mikið af B-vítamíni getur valdið gulu þvagi. Af einhverjum ástæðum gerist þetta hjá sumum en öðrum ekki. Þrátt fyrir fjölmargar rannsóknir hefur ekki tekist að upplýsa ástæðuna fyrir þessum mismun milli einstaklinga.
Heimildaskrá annars kafla:
Enn fleiri verðmæti tengd ofurfæði má finna í gullkistu rauðrófunnar. Annað „beta“ efni, aðgreint frá betalain, var uppgötvað í rauðrófusafa og var nefnt betaine. Hlutverk þess er að stýra vatnsinnihaldi í rauðrófufrumum. Betaine er amínosýra með viðbættum þremur methyl samböndum (tri-methyl-glycine). Með því að veita þessum methylsamböndum í þurfandi mannslíkama hefur betaine hlotið sess sem dýrmætt fæðubótarefni.
Betaine verndar frumur, prótein og ensím gegn áhrifum umhverfis, svo sem ofþornun í miklum hita og of mikilli saltupptöku. Betaine er einnig notað í snyrtivörur vegna mikillar vökvadrægni. Sem methylgjafi dregur betaine úr myndun hættulegra amínósýra sem nefnast homocysteine. Hátt hlutfall þess í blóði eykur hættu á kransæðastíflu vegna áhrifa þess á æðaveggi. Ásamt því að vernda hjartað virkar efnið á ónæmiskerfið og mörg líffæri til hins betra.
Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að betaine verndar lifrina og getur komið að notum í meðferð við lifrarsjúkdómum. Áhrif þess á lifur og gallblöðru hjálpa við úrvinnslu fæðunnar og eyðingu eiturefna.
Þá er vert að nefna að betain gefur orkuskot til íþróttafólks, en sýnt hefur verið fram á það í mörgum rannsóknum að það eykur orku og úthald. Þó þessar rannsóknir hafi verið gerðar með betaine sem hreinu einangruðu efni, þá er hér mikilvæg staðreynd: Rauðrófur innihalda betaine, sem gæti verið mikilvægur þáttur í því sem lesa má um í næstu köflum varðandi neyslu rauðrófu og bættan árangur í íþróttum.
Rauðrófur eru auðugar af öðrum metýlgjafa – fólati (aka folic acid) Líkt og betaine hjálpar fólat til að lækka blóðþrýsting og draga úr streitu. Á síðari tímum hefur einmitt verið lögð mikil áhersla á að leita uppi náttúrulyf sem hamla gegn streitu. Vonandi getur neysla rauðrófuafurða, sem innhalda fólat, mætt þessum þörfum. Þar að auki stuðlar fólat að heilbrigðari gómum, blóðfrumumyndun, dregur úr fósturskaða á meðgöngu ásamt mörgu fleira.
Rauðrófan er mjög háð bóroni á vaxtartíma sem gerir hana auðuga af þessu steinefni. Bændur vita að skortur á bóroni veldur því að nýgræðingurinn vex ekki. Mikilvægi bórons fyrir heilbrigði manna var fyrst uppgötvað upp úr 1980.
Líklega rekur þig minni til þess að í fyrsta kafla var sagt frá því að Forn-Grikkir og Rómverjar sögðu fyrstir frá kynaukandi áhrifum rauðrófunnar. Það hefur nú verið sýnt fram á það með rannsóknum að vissulega er fótur fyrir þessum átrúnaði. Svo virðist sem þetta sé bóroninnihaldi rauðrófunnar að þakka. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að bóron eykur hormónamyndun, einkum estrógen og testósteron. Sömuleiðis dregur bóron úr tapi á D-vítamíni, kalsíum og magnesíum úr líkamanum.
Rauðrófur innihalda einnig þekktari fæðuefni, svo sem helstu vítamín, A, C, ásamt K og B vítamínum. Auk bórons má nefna kalíum, kalsíum, magnesíum, mangan, og fosfór en einnig járn, sink, kopar, og selen. Kalíum er sérstaklega mikilvægt fyrir hjarta og æðakerfið. Rauðrófur eru trefjaríkar og innihalda líka jurtasteróla en hvort tveggja er mikilvægt fyrir meltinguna. Ferskar rauðrófur og rauðrófusafi eru ríkari af næringarefnum en niðursoðnar og unnar rauðrófur.
Rauðrófur eru þannig hlaðnar næringarefnum sem gera þær að góðum orkugjafa. Í einum skammti (120 ml) af rauðrófum eru um 2 grömm af próteini og afar lítið fituinnihald. Nauðsynlegt er að taka fram að niðurstöður geta verið mismunandi af mörgum ástæðum. Miklu skiptir hvort rauðrófan er fersk, hrá, soðin, eða unnin á annan hátt. Þá geta aðstæður á ræktunarstað skipt sköpum, t.d. jarðvegur, hitastig, sólskin, regn og áburður, ásamt áhrifum flutnings, umskipunar eða geymsluskilyrða. Allt hefur þetta mikil áhrif á næringargildi rauðrófunnar.
Rauðrófan er stútfull af andoxunarefnum. Hún innheldur hátt hlutfall af betaníni, bóroni og fólati. Hún er rík af öðrum næringarefnum og uppfyllir fyllilega skilyrði sem ofurfæða. Það eru því allar horfur á að rauðrófan fái á ný sess sem mjög heppilegt yngingarlyf, eða í það minnsta haldi í við öldrun, sé hennar neytt reglulega.
Næstu kaflar marka nýtt skeið fyrir rauðrófuna stórkostlegu. Ekki bara til að sýna fram á gildi hennar, heldur líka til að bjarga mannslífum.
Heimildaskrá þriðja kafla.
http://en.wikipedia.org/wiki/Beetroot
SEINNI HLUTI BIRTUR Á MORGUN.
Höfundar þessa rits
Nathan S. Bryan er aðstoðarprófessor í sameindalyfjafræði við Háskóla heilsuvísindamiðstöðvar Texas í Houston. Hann hefur áralanga reynslu af vísindastörfum og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar, m.a. hin virtu Deans verðlaun fyrir vísindastörf sín. Helsta viðfangsefni hans í rannsóknum hin síðari ár hafa verið að skoða áhrif nitríumoxíðs á mannslíkamann og greina áhrif þess á heilsufar manna. Dr. Bryan hefur gefið út fjölda vísindaritgerða og samið eða ritstýrt fjórum bókum um þessi efni.
Carolyn Pierini hefur yfir 20 ára reynslu í rannsóknum á sviði örverufræði, blóðmeinafræði og ónæmisfræði. Hún hefur einnig starfað að næringarrannsóknum og ráðgjöf og sérstaklega rannsakað tengsl næringarefna og læknisfræði. Rannsóknir hennar á undirliggjandi orsökum ýmissa sjúkdóma leiddu hana að rannsóknum á nitríumoxíði vegna mikilvægis þess fyrir almennt heilsufar.
Nokkuð stytt þýðing og endursögn:
Pétur Bjarnason