Neysla á heilkornavörum getur lengt lífið, segja vísindamenn sem rannsakað hafa málið. Okkur finnst því upplagt að nota gróft mjöl frekar en fínt við sem flest tækifæri, líka þegar við erum að baka og útbúa sætindi. Enda er gróft mjöl bragðgott og mörgum finnst þetta grófa jafnvel bara miklu betra en hvítt, þegar það hefur vanist. Í botninn á bökunni notum við lífrænt ræktað gróft spelt og haframjöl, ásamt möluðum möndlum sem gefa dásamlegt bragð. Fyllingin er mjög einföld, bara góð sulta og bláber. Við notuðum bláberja- og sólberjasultuna sem við útbjuggum um daginn, hún er súrsæt og góð. En bakan er líka góð með hefðbundinni bláberjasultu.
Framkvæmdin er auðveld. Við byrjum á því að hnoða deigið saman, skipta því síðan í tvo hluta: 3/4 fyrir botninn og 1/4 fyrir hjörtun. (Það má líka alveg mylja deig yfir bökuna í staðinn fyrir að skera út hjörtu, okkur fannst hjörtun bara svo krúttlegt). Til að útbúa hjörtun setjum við 1/4 af deiginu á milli tveggja bökunarpappírsblaða og rúllum út með kökukefli, og notum svo piparkökuform til að skera út. Við geymum síðan hjörtun í frysti/kæli á meðan við setjum pæjuna saman. (Sameinum afskurðinn frá hjörtunum við deigið sem fer í botninn). Nú þjöppum við 3/4 deigsins í kökuform. Svo smyrjum við sultu yfir botninn, stráum berjum yfir og náum svo í hjörtun til að raða ofan á. Og þá er bakan tilbúin í ofninn.
Hér fer sultan á botninn
Og berin yfir sultuna
Hjörtunum raðað ofan á
... og nú er bakan tilbúin í ofninn
Botninn
100g spelt
140g haframjöl
80g möndlur eða heslihnetur, malaðar
90g kókospálmasykur
1 tsk kanill
1 tsk sjávarsalt
120 ml kókosolía
Fyllingin
100g bláberjasulta (eða meira ef þarf)
120g bláber, t.d. frosin
Geymið dós af kókosmjólk inn í ísskáp. Feitari parturinn stífnar og skilst frá þynnri vökvanum. Takið feita hlutann (geymið restina til að nota í matreiðslu eða í smoothie) og hrærið hann aðeins upp áður en hann er settur í rjómasprautu með gashylki.
Við vorum ekkert mjög lengi að klára af disknum
Uppskrift af vef maedgurnar.is