Flestar nýbakaðar mæður kannast við stressið sem getur fylgt brjóstagjöf og velta fyrir sér hvað sé til ráða ef mjólkurframleiðslan er ekki næg.
Flestar nýbakaðar mæður kannast við stressið sem getur fylgt brjóstagjöf og velta fyrir sér hvað sé til ráða ef mjólkurframleiðslan er ekki næg. Sjálf er ég nýbökuð móðir með stórt heimili hefur mjólkurframleiðslan ekki verið sem skyldi.
Eftir að hafa prufað ýmis gömul húsráð ákvað ég að leita að ráðum hjá Google. Þar fann ég geggjaða uppskrift af smákökum sem áttu að auka brjóstamjólkurframleiðsluna og ótrúlegt en satt þá flæddi mjólkin hjá mér nokkrum klukkustundum síðar.
Það tók ekki nema um 15 mínútur að skella í kökurnar og um 10 mínútur að baka þær.
- 100 gr smjör (við stofuhita)
- 1 bolli hveiti
- ½ bolli púðursykur
- 1 ½ bolli haframjöl
- 1 egg
- 1 tsk lyftiduft
- 2 tsk möluð hörfræ (ekkert mál að mala í t.d. matvinnsluvél)
- 2-3 tsk vatn
- 1 tsk vanilludropar
- 1 tsk kanill
- ½ tsk gróft salt
- 1-2 tsk brewers yeast
Bakað við 180°í 8-10 mín.
Brewers yeast er fæðubótarefni frá t.d. NOW, en það er ekki til hér á landi (allaveganna hef ég ekki fundið það) og varð ég að sleppa því úr uppskriftinni. Samkvæmt innihaldslýsingu NOW þá er þetta tegund af geri sem er framleitt úr ákveðnu byggi sem er notað í t.d. bjórframleiðslu. Gerið hefur náttúruleg prótein ásamt B-vítamínum. Ráðlagt er að taka tvær msk daglega í mjólk eða safa. Einnig er hægt að bæta því í matreiðslu eða bakstur til að auka þar með næringargildi.
Til þess að gera kökurnar ennþá betri þá má bæta við t.d. súkkulaði, rúsínum eða einhverju öðru með. Ég bætti við sirka einum dl. af kókosmjöl og um 100 gr af þurrkuðum trönuberjum.
Kökurnar voru æðislegar og slógu í gegn hjá öllum heimilismeðlimum.
Ég mæli með því að bera þær fram með ískaldri mjólk.
Njótið!
Grein eftir Elsu Kristinsdóttur og er af vef mamman.is - kíktu HÉR ef þú vilt skoða fleiri frábærar greinar af síðunni þeirra.