Hummus inniheldur m.a. Omega 3-fitusýrur og járn ásamt amínósýrum sem geta haft góð áhrif á svefn og kætt lund. Hummus er mjög góður sem álegg og er líka æðislegt í salatið.
Innihald:
2 msk ólífuolía
2 msk sítrónusafi
2 msk tahini (búið m.a. til úr sesamfræjum - fæst tilbúið)
2 hvítlauksgeirar
1 dós eða 1,5 bolli kjúklingabaunir
3 stk olíulegnir sólþurrkaðir tómatar
½ tsk sjávarsalt
½ tsk cumin
½ tsk cayenne pipar
Aðferð:
Öllu blandað vel saman í blender.
Geymist í kæli í loftþéttu íláti í nokkra daga.
Kjúklingabaunir
Hægt er að nota hvort sem er niðursoðnar kjúklinabaunir í dós eða leggja baunir í bleyti t.d. kvöldinu áður. Að leggja í bleyti er mjög einfalt. U.þb. 100-150 gr. af þurrkuðum baunum er sett í skál og vatn látið fljóta yfir. Daginn eftir er vatninu hellt af, skolað og baunirnar settar í pott ásamt nóg af vatni og látið sjóða í um 45 mín.
Hraðferðin: Ef þú ert ekki með baunir sem hafa verið lagðar í bleyti og þig vantar baunir þá er hægt að setja þurrar kjúklingabaunir í pott og láta vatn fljóta vel yfir. Ná upp suðu og láta sjóða í 5 mín. Slökkva undir og láta standa í eina klukkustund. Kveikja þá aftur undir og láta sjóða í u.þ.b. klukkustund. Passa að það sé ávallt nóg af vatni.
Fínt að gera nóg og frysta.
T.d. hægt að nota sem álegg, sem ídýfu og skera þá niður t.d. gulrætur og agúrkur eða sem meðlæti t.d. með salati.
Njótið!