Hér er enn ein kartöfluuppskriftin sem ég hef heillast af. Ekki nóg með að hún sé virkilega spennandi og öðruvísi heldur er hún líka sáraeinföld. Seint mun ég neita því hversu hrifin ég er af öllu því sem er bæði einfalt og gott.
Þú verður að prófa þessa!
1 stór bökunarkartafla
½ tsk saxað ferskt rósmarín eða 1 tsk þurrkað
¼ tsk sjávarsalt
½ tsk ferskur pipar
1 tsk bráðið smjör
Rífðu kartöfluna niður og þurrkaðu allan vökva úr henni, eins vel og þú getur, með eldhúsrúllu eða viskustykki.
Settu þetta í skál og blandaðu salti, pipar og rósmarín saman við.
Hitaðu vöfflujárnið.
Berðu smjörið á báðar hliðar vöfflujárnsins með pensli.
Hrúgaðu síðan niðurrifnu kartöflunni á vöfflujárnið. Allt í lagi að ofhlaða það aðeins.
Lokaðu síðan járninu og klemmdu það aftur – það hjálpar kartöflunni að fletjast út.
Eftir svona 2 mínútur ýttu þá aftur ofan á járnið til að pressa þetta enn meira niður.
Láttu kartöfluna vera í vöfflujárninu í svona 10 mínútur í viðbót. Kíktu þá á hana en hún ætti að vera orðin gyllt sums staðar.
Leyfðu henni að vera í 1 til 3 mínútur í viðbót eða þar til hún er öll orðin fallega gyllt.
Svona kartöflur má svo borða með hverju sem er – þær eru meira að segja góðar einar og sér með sýrðum rjóma og/eða niðurrifnum osti.
Uppskrift fengin af vef kokteill.is