Fara í efni

Vegan burger með “kokteilsósu” og sætkartöflufrönskum (djúsí og glútenfrítt)

Vegan burger með “kokteilsósu” og sætkartöflufrönskum (djúsí og glútenfrítt)

 

 

 

 

 

 

Við Íslendingar elskum kokteilsósuna okkar, það klikkar bara ekki.

Ég man þegar ég bjó sem krakki í Bandaríkjunum. Við fjölskyldan fórum á hamborgarastað og báðum þjóninn um majónes, tómatsósu, litla skál og skeið. Úr því gerðum við okkar eigin kokteilsósu á meðan þjónninn hristi hausinn yfir okkur.

Um daginn fékk ég svo svakalega löngun í burger og kokteilsósu að ég ákvað ég að gera smá tilraun og bjó til holla “kokteilsósu”. Ég verð bara að segja að ég varð sko ekki svikin!

DSC_3128

Í franskarnar nota ég sætar kartöflur og nípu sem ég krydda með reyktri papríku sem gefur rétta bragðið með borgaranum! En það besta við þennan borgara er hvað hann er fljótlegur og tekur ekki nema 10 mín á grillinu, rétt eins og hefðbundnir borgarar!

Fyrir bestu útkomuna reynið að velja breið og flott eggaldin! Borgarinn er sannarlega rausnarlegur og eitthvað sem allir sælkerar kunna vel að meta.

DSC_3083

Djúsí vegan burger með “kokteilsósu” og sætkartöflufrönskum

Egggaldin (brauðið)
1 tsk Eðalkrydd frá pottagöldum
1 tsk olífuolía

2-4 sveppir (kjötið)
1 tsk balsamik edik
1 tsk olífuolía
1/2 tsk hlynsíróp/kókospálmanektar

1 tómatsneið
rauðlaukur skorinn í hringi
rauð papríka, skorin í strimla

“Kokteilsósa” eða hollari kokteilsósa
2 msk Lífræn tómatsósa
2 msk kasjúhnetudressing frá Lifðu til fulls bókinni eða vegan majóness
örlítið chillimauk (val)

Sætkartöflu- og nípufranskar
1 sæt kartafla
1 nípa
1 tsk reykt papríkukrydd
1 tsk Eðalkrydd frá pottagöldum

1. Hitið grillið.

2. Skerið sætkartöflu og nípu í strimla og sjóðið í saltvatni í 2-3 mín eða þar til þær eru orðnar mjúkar. Setjið franskarnar á grillbakka og penslið með kryddi og olíu.

3. Skerið eggaldin í þykkar sneiðar. Leggið á disk og penslið með kryddi og olífuolíu. Skerið sveppi í þunnar sneiðar og veltið uppúr balsamik ediki og olífuolíu. Setjið á grillbakka eða álpappír með götum.

4. Grillið sætkartöflur og nípur í 15-20 mín eða þar til eldaðar og snúið við einu sinni. Grillið sveppi og eggaldin í 10 mín. Eggaldin er sett beint á grillið og snúið við eftir 5 mín.

5. Berið borgarann fram með því að setja eggaldinsneið á disk, smyrjið með kokteilsósunni, bætið við tómatsneið, sveppum, rauðlauk, papríku og toppið með annari eggaldinsneið. Njótið!

Mér þykir best að borða borgarann með hníf og gafli en þar sem eggaldin molnar síður eins og venjulegt brauð má alveg borða hann eins og hefðbundinn borgara!

Ég er aðeins á flakki um Evrópu og Asíu þessa dagana og má sjá meira af ferðalögum mínum á Instagram, Snapchat (lifðu til fulls) og Facebook!

Ekki gleyma að deila djúsí borgaranum á samfélagsmiðlum kæra vinkona og vinur!


Heilsa og hamingja,
jmsignature