Frjókornaofnæmi er eitt algengasta ofnæmið sem kemur fram í nefi og augum. Ástæðan er ofnæmi fyrir grasi, birki eða súrum þ.e. frjókornum frá gróðri. Einkennin koma yfirleitt fram á sama tíma á hverju ári og sumum reynist erfitt að greina milli svokallaðs sumarkvefs og frjóofnæmis. Margir þjást af ítrekuðu kvefi á hverju sumri áður en þeir átta sig á því að um frjókornaofnæmi er að ræða. Reynið því að átta ykkur á því hvort hugsanleg tengsl geti verið á milli einkenna og gróðurs í kringum ykkur.
Eitt helsta einkenni frjókornaofnæmis og það sem margir finna fyrst fyrir, er kláði í augum. Aðeins örfá frjókorn í loftinu geta framkallað augnkláða. Augun verða rauðsprengd og það rennur úr þeim. Fyrstu einkenni frá nefi eru síendurteknir hnerrar. Önnur einkenni sem miklum óþægindum valda er kláði í nefinu, sem oft veldur svokallaðri ofnæmiskveðju, nefnuddi og grettum sem geta verið býsna spaugilegar. Þá fer að renna stöðugt úr nefinu, sem þýðir að vasaklúturinn er sífellt á lofti. Einnig getur nefið stíflast eða slímhúð þrútnað svo að erfitt verður að draga andann gegnum nefið.
Nauðsynlegt er að hafa í huga að frjókornaofnæmi getur oft valdið astmaeinkennum.
Þau frjókorn sem algengast er að valdi ofnæmi á Íslandi eru aðallega frjókorn frá ýmsum grastegundum, en einnig frá súrum (t.d. hundasúru), birki og túnfíflum. Frjókorn frá blómstrandi blómum valda sjaldan ofnæmi.
Helsta tímabil frjókornaofnæmis er sumarið, þ.e. júní, júlí og ágúst. Frjókorn frá súrum eru heldur seinna á ferðinni en frjókorn frá grasi, þ.e. frá júlí fram í september.
Magn frjókorna í andrúmsloftinu fer mikið eftir veðri. Þegar rignir er magn frjókorna í lofti lítið, því laus frjókorn setjast á jörðina og blautar plöntur gefa ekki frá sér ný frjókorn. Á hlýjum, þurrum dögum eykst frjókornamagnið, einkum ef vindur blæs.
Veðurstofa Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands standa í sameiningu að mælingu frjókorna í andrúmslofti.
Hafa ber í huga að fólk með frjókornaofnæmi getur myndað ofnæmi fyrir vissum fæðutegundum.
Læknar geta prófað hvort þú hafir frjókornaofnæmi. Þetta er gert með einföldu húðprófi. Litlir dropar sem innihalda ofnæmisvaldandi efni úr gróðri eru settir á húð á framhandlegg og með lítilli nál er efninu ýtt inn í húðina. Hafir þú ofnæmi fyrir efninu kemur það fram innan 10 mínútna. Húðin roðnar og bólgnar örlítið upp og þú færð kláða á stungustað. Þar með er staðfest að þú hafir ofnæmi fyrir efninu.
Einnig er hægt að láta fólk anda að sér ofnæmisvaldandi efnum og mæla viðbrögð með lungnaprófi. Fólk með astmatengt ofnæmi þolir mun lægri styrk af innönduðum ofnæmisvaldandi efnum en þeir sem heilbrigðir eru.
Ofnæmisviðbrögð í augum tengjast oft gróðurofnæmi. Kláði í augum er oft fyrsta vísbending um að aukið magn frjókorna sé í andrúmsloftinu. Ofnæmiseinkenni í augum geta einnig tengst ofnæmi fyrir t.d. dýrum, rykmaurum eða fæðu.
Augneinkennin eru yfirleitt verulegur kláði, rennsli úr augum og augun verða rauðsprengd og þrútin. Þá verða augun oft viðkvæmari fyrir birtu.
Hægt er að fá augndropa hjá læknum til að slá á einkenni í augum. Þá er um að ræða annaðhvort andhistamín-augndropa sem slá á einkennin eða augndropa sem virka fyrirbyggjandi og hindra að einkenni komi fram þegar frjókornatímabilið hefst.
Fólk með linsur ætti að ráðfæra sig við lækni áður en það notar augndropa til lyfjameðferðar.
Rannsóknir benda til þess að börn fædd á frjókornatímabilum séu líklegri en önnur börn til að fá frjókornaofnæmi þegar þau vaxa úr grasi. Ef hægt er að skipuleggja fæðingartíma barna er því ágætt að reyna að stilla svo til að þau fæðist ekki snemmsumars, eða á þeim tíma árs þegar magn frjókorna í andrúmslofti er í hámarki.
Hægt er að takmarka gróður í nánasta umhverfi viðkvæmra einstaklinga þó að fæstir vilji hafa malbikaðan garð.
Þurrkið ekki þvott á snúru utandyra þegar mikið er af frjókornum í loftinu því að þau setjast í föt og lín.
Látið ekki barnavagna standa utandyra og safna í sig frjókornum.
Reynið að útiloka plöntur innandyra ef þær valda ofnæmi.
Hafir þú ofnæmi fyrir grasi skalt þú reyna að fá einhvern annan til að slá blettinn.
Farðu alltaf eftir ráðleggingum læknis um notkun ofnæmislyfja, hafir þú fengið slík lyf.
Eitt af þeim efnum sem líkaminn myndar í ofnæmisviðbragði er histamín. Histamín veldur kláðanum í nefi og augum. Því þarf oft að meðhöndla ofnæmi með svokölluðum andhistamín-lyfjum. Andhistamín-lyf eru yfirleitt í töfluformi en fást einnig sem augndropar og nefdropar. Andhistamín er efni sem hindrar að histamínið virki og einkenni s.s. kláði í augum og nefi hverfur.
Ýmsar tegundir andhistamín-lyfja eru á markaði, sumar fást í lyfjabúðum án lyfseðils en gott er að ráðfæra sig alltaf við lækni áður en meðferð með slíkum lyfjum hefst.
Ef nef þitt er stíflað vegna ofnæmis-bólgusvörunar í nefslímhúðinni og andhistamín-lyf sýna litla virkni mæla læknar stundum með fyrirbyggjandi lyfjameðferð með bólgueyðandi lyfjum eða ofnæmis-hindrandi lyfjum. Þessi lyf gera slímhúðina aftur eðlilega svo nefgöngin opnast á nýjan leik.
Bólgueyðandi lyf eru yfirleitt steralyf sem sprautað er í nefið með úðabrúsum. Athugið að skammtar þeir sem notaðir eru í meðferð ofnæmis í nefi eru afar smáir og fullkomlega skaðlausir.
Önnur ofnæmishindrandi lyf þarf að taka áður en einkenna verður vart, þau hindra losun ofnæmismyndandi efna í nefinu. Ef um mikið áreiti er að ræða duga þessi lyf stundum ekki og grípa þarf til bólgueyðandi lyfjanna.
Mundu að taka alltaf lyfin í samræmi við ráðleggingar læknis. Fyrirbyggjandi lyfin verður að taka á hverjum degi, jafnvel þó að þú finnir ekki fyrir einkennum þá stundina.
Í lyfjabúðum er hægt að kaupa án lyfseðils stíflulosandi lyf sem draga saman háræðar í nefslímhúðinni og losa þannig stíflur. Lyf þessi eru afar áhrifarík en þau má einungis nota í skamman tíma í senn eða 7-10 daga. Teljir þú þig þurfa að nota þessi lyf lengur er afar mikilvægt að þú ráðfærir þig við lækni. Lyf þessi eru t.d. Nexól, Otrivin, Nezeril o.s.frv.