Okkar helsti umhverfisþáttur er því einmitt loftgæðin í byggingunum sem við verjum allt að 90% af tíma okkar. Aðrir umhverfis- og áhrifaþættir eins og til dæmis hreyfing og næring skipta að sjálfsögðu einnig máli, við nærumst og hreyfum okkur oftar en ekki innandyra, ekki satt?
Helsti áhrifaþáttur á gæði innilofts er raki í byggingum. Þar sem er viðvarandi raki vegna vatnstjóns, leka eða rakaþéttingar geta vaxið upp lífverur sem gefa frá sér efni og afleiður sem hafa neikvæð áhrif á loftgæðin og útgufun frá byggingarefnum eykst. Mygla, bakteríur og rokgjörn efni eru hluti af þessari „efnasúpu“ sem verður til í rökum byggingum. Gró myglusveppa eru loftborin, menn ásamt öðrum lífverum eru ötul við að bera þau á milli staða í fötum, á skóm og öðrum hlutum þar sem þau hafa sest fyrir. Gró er því að finna alls staðar, inni og úti. Mygla gegnir mikilvægu hlutverki við niðurbrot og hringrás efna í náttúrunni. Gró hennar geta legið lengi í dvala án þess að valda óþægindum til dæmis innan í veggjum eða undir gólfefnum. Þar er nægilegt æti (flest byggingarefni eru gott æti t.d. pappír á gifsi, lím og timbur), súrefni, þægilegt hitastig og takmarkað sólarljós, kjörnar aðstæður fyrir myglu. Ef gólf- eða önnur byggingarefni blotna er því ekkert til fyrirstöðu að mygla vaxi upp af þessum gróum. Gró eru því út um allt en myglan eingöngu þar sem er nægilegur raki og aðrar aðstæður hagkvæmar.
Fylgni og staðfest tengsl eru á milli astma, ýmissa kvilla tengdum öndunarfærum, húð, röskun á ónæmiskerfi og þess að dvelja í húsnæði þar sem er raki. Hægt er að lesa skýrslu á vefsíðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem var gefin út árið 2009 „Raki og mygla (Dampness and mold)“ sem byggir á niðurstöðum hundruða rannsókna. Helstu einkenni geta verið astmameinkenni, hósti, auknar sýkingar, þurrkur í hálsi, hæsi, nefrennsli, húðkvillar, meltingartruflanir, augnkvillar, þreyta, verkir og flensulík einkenni.
Þessi einkenni minnka eða hverfa þegar húsnæði er lagfært eða bygging yfirgefin og tengjast fastri viðveru í ákveðnu húsnæði.
Einnig eru að koma út rannsóknir varðandi raka og frekari röskun á ónæmiskerfi og þróun heilkennis CIRS (Chronic inflammatory response syndrome) þar sem bólguviðbrögð og varnarkerfi líkamans truflast. Niðurstöður gefa í skyn að allt að 25% þeirra sem hafa fasta viðveru í röku húsnæði eigi á hættu að fá þetta heilkenni. Það verður athyglisvert að fylgjast frekar með þeim rannsóknum og meðferðum sem eru og verða í boði.
Það að vera stanslaust með ofantalin einkenni skerðir lífsgæði og getur orðið til þess að einstaklingur getur ekki stundað vinnu eða nám, til dæmis í ákveðnum byggingum og getur takmarkað tekið þátt í því sem lífið hefur upp á að bjóða.
Þess vegna er mikilvægt að auka fræðslu og þekkingu okkar á því sem við getum gert sjálf til þess að halda húsunum okkar þurrum og bæta loftgæði. Það eru margir aðrir þættir en raki og lífverur sem geta skert loftgæði en hér í þessari grein er það helst til umfjöllunar. Aðrir þættir eru efni í aðra grein.
Mikilvægt er að viðhalda húsum þannig að þau leki ekki og bregðast fljótt við ef vart verður leka eða rakamyndunar af öðrum toga. Algengustu rakastaðirnir eru meðfram gluggum, hurðum, sprungur, þak, kjallari, baðherbergi og votrými. Því fyrr sem er brugðist við má takmarka tjón og áhrif. Skref í átt að árangri er að leita til fagaðila ef rakavandamál er til staðar, bæði við greiningu, framkvæmd og hönnun ef þess þarf. Þar sem raki hefur verið viðvarandi má búast við því að finna myglu og aðrar rakasæknar lífverur. Þar sem rétt er staðið að málum og fylgt verkferlum við hreinsun er hægt að ná fullnægjandi árangri. Stundum það góðum að húsið er í betra ástandi en áður, með tilliti til loftgæða.
Lifnaðarhættir okkar skipta einnig máli. Við takmörkuð loftskipti hlaðast enn frekar upp agnir í innilofti. Við þurfum að opna glugga eða nota aðra loftræstingu og „skipta út“ lofti amk 1-2 sinnum á dag. Góð húsregla er að eiga loftrakamæli og fylgjast með því að loftraki hækki ekki úr hófi. Loftraki getur m.a. hækkað við sturtu- og baðferðir, eldamennsku og þurrkun á þvotti. Við gefum einnig sjálf frá okkur raka við öndun. Móða á rúðum og speglum er góð vísbending um að loftrakinn sé of mikill og þá er hætta á rakaþéttingu á köldum yfirborðsflötum, við rúður eða innan í byggingarhlutum. Vatnsgufa þéttist, ryk og gró eru til staðar og aðstæður til mygluvaxtar kjörnar. Í þessum tilfellum má sjá svarta slikju eða doppur við rúður, svarta bletti í úthornum eða á útveggjum á bak við húsgögn. Einnig eykst hætta á að heitt rakt loft berist upp í kalt þakrými, inn í veggi eða aðra hluta og raki þéttist þar með tilheyrandi afleiðingum. Slímhúðin okkar óskar eftir hærri loftraka en á köldum vetrardögum þola húsin okkar það illa.
Þéttiefnum, fúgum og vatnsverjandi efnum á baðherbergi þarf að fylgjast með og lagfæra þegar þörf er á. Rétt er að benda á að fúguefni á milli flísa er ekki vatnsþolið og því er mikilvægt að vinnubrögð við uppsetningu sturtu og baðs séu vönduð og framkvæmd af fagmönnum. Gott er að fá fagmann sem hefur klárað námskeið í frágangi á votrýmum. Kostnaðarsöm vatnstjón verða reglulega í votrýmum og oft vegna þess að efnisvali og frágangi var ábótavant. Skemmdir verða oft á nærliggjandi herbergjum þar sem vatn hefur náð að fara inn í veggi og undir gólfefni og mygluvandamál kemur þá oftar en ekki upp í svefnherbergjum íbúa.
Í fljótu bragði má því segja að fyrirhyggja, fagmennska, ábyrgð, athygli og viðbragð húseiganda geti haft veigamikil áhrif í forvörnum gegn rakavandamálum.
Gangi ykkur vel, frekari upplýsingar og heimildalisti er á vefsíðunni www.husogheilsa.is
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir BSc líffræði, lýðheilsu og fagstjóri Húss og heilsu hjá EFLU verkfræðistofu