En í sumar kynnti hún Margrét Leifs vinkona mín mig fyrir poppuðu Amaranthi og við bjuggum til nammikúlur sem við vorum með á matreiðslunámskeiði í haust.
Á namminámskeiðunum núna í nóvember og desember hafa svo verið búnar til poppaðar amaranth nammi kúlur við mjög góðar undirtektir.
Það er talað um Amaranth sem korntegund en í raun er hún fræ eins og kínóa. Amaranthið er mjög næringarríkt og inniheldur til dæmis mikið af próteinum, steinefnum og vítamínum.
En það er ekki bara næringarinnihaldið sem gerir þessar kúlur spennandi, heldur er það líka áferðin. Þessar kúlur eru svo ólíkar öllum öðrum kúlum, þessum týpísku kókos/hnetukúlum sem flestir þekkja. Þær standa auðvitað alltaf fyrir sínu en það er samt svo gaman að kynnast einhverju alveg nýju.
Amaranth fæst bæði ópoppað og tilbúið poppað í Lifandi Markaði.
Á síðasta námskeiði gerðum við tilraun og bættum við nokkrum dropum af karamelludropum út í deigið áður en vi mótuðum kúlurnar. Það var hriiiiiikalega gott og ég hlakka svo til að endurtaka leikinn núna um helgina og búa til karamellukúlur handa ungunum mínum, veit að það mun svo sannarlega slá í gegn.
Og svo er hægt að færa þessar kúlur alveg upp á næsta stig með því að dýfa þeim í bráðið dökkt súkkulaði eftir að búið er að kæla þær.
Hitið pönnu (eða pott) þannig að hún sé vel heit. Setjið 1 msk af korni á pönnuna.
Kornið byrjar fljótlega að poppast en um leið og það hættir hellið þið af pönnunni yfir í skál. Þessi aðgerð tekur aðeins nokkrar sekúndur. Kornið má alls ekki vera of lengi á pönnunni því þá byrjar það að brenna og kemur rammt bragð af því. Þið gætuð þurft að minnka hitann ef kornið vill brenna.
Takið svo aftur 1 msk og setjið á pönnuna, svo koll af kolli….
Ég skora á ykkur að prófa að búa til þessar skemmtilegu, bragðgóðu og næringarríku nammi kúlur til að eiga í bakhöndinni þegar sætuþörfin gerir vart við sig í annríkinu. Svo væri nú gaman að heyra hvernig smakkaðist.
Þessi uppskrift ásamt fleirum er að finna í nýju nammi bókinni „Sætindi sem næra, hressa og bæta“ sem fæst á hópkaup þessa dagana: https://www.hopkaup.is/heilsamamman-saelgaeti
Nammi namm …
Snilldar uppskrift frá Heilsumömmunni.