Framköllun fæðingar er inngrip og er ekki framkvæmd nema læknisfræðileg ástæða liggi fyrir vegna þess að aðeins auknar líkur eru á inngripi eins og mænurótardeyfingu, sogklukku og fæðingu með keisaraskurði ef fæðing er framkölluð. Fæðingalæknar og ljósmæður ákveða hvenær fæðing er framkölluð og hvaða aðferðir eru notaðar. Ávallt er haft að leiðarljósi að tryggja öryggi móður og barns.
Helstu ábendingar sem fagfólk styðst við eru þessar:
Fæðingarlæknir ákveður hvenær ástæða er til að framkalla fæðingu. Læknir og ljósmóðir útskýra ástæður framköllunar fyrir verðandi foreldrum og ef ástand fósturs er gott er haft samráð við foreldra varðandi dagsetningu.
Alla jafna er ekki mælt með framköllun fæðingar ef um er að ræða:
Rannsóknir hafa sýnt að framköllun fæðingar við þessar aðstæður leiðir ekki endilega til að fæðing verði auðveldari eða að útkoman verði betri fyrir móður eða barn.
Þegar meðganga hefur varað lengur en 42 vikur er talað um lengda meðgöngu. Það gerist í um það bil 10% tilvika. Ekki er vitað með vissu hvað veldur því en lengd meðganga er algengari hjá frumbyrjum og hjá þeim konum sem áður hafa gengið með barn lengur en 42 vikur. Erfðir geta einnig haft áhrif.
Við lengda meðgöngu eykst lítillega áhætta fyrir móður og barn. Það getur dregið úr fósturvexti, vegna breytinga á fylgjustarfsemi. Það eru meiri líkur á því að barnið losi fósturhægðir í legvatnið, sem verður þá grænt. Líkur á burðarmálsdauða geta aukist lítillega, vari meðgangan lengur en 42 vikur. Við lengda meðgöngu aukast líkur á því að móðirin þurfi að gangast undir keisaraskurð.
Boðið er upp á framköllun fæðingar við 40-41 viku þegar móðir er orðin 40 ára. Það er talið að hugsanlega sé aðeins betri útkoma fyrir barnið að eldri mæður gangi ekki með mikið lengur.
Á fyrri hluta meðgöngu er leghálsinn langur, lokaður og þéttur viðkomu. Þegar fer að líða á seinni hluta meðgöngunnar og einkum þegar dregur að fæðingunni, tekur leghálsinn að mýkjast og opnast innan frá (styttast). Belgir og kollur fóstursins þrýstast niður í leghálsinn. Líkja má opnun leghálsins og færslu höfuðsins niður í hann við þröngan kraga á rúllukragapeysu sem verið er að klæða yfir höfuð barnsins.
Hjá konu sem er að fæða í fyrsta sinn, frymbyrju, þá byrjar leghálsinn á að styttast en síðan tekur útvíkkun við. Hjá fjölbyrju verður stytting og útvíkkun á leghálsi samhliða og því er frekar hægt að gera belgjarof hjá fjölbyrju en frumbyrju.
Þegar losað hefur verið um belgi aukast líkur á því að fæðing fari sjálfkrafa af stað. Við þreifingu á leghálsinum er metið hvort hægt er að losa um belgi. Leghálsinn þarf að vera byrjaður að breytast; styttast, mýkjast og opnast örlítið eins og hann gerir í aðdraganda fæðingar. Eftir belgjalosun má búast við að samdrættir aukist og hríðarverkir geta hafist innan sólarhrings. Þegar meðgangan er orðin 41 vika eða meira býður ljósmóðir í meðgönguvernd belgjalosun. Ekki er talinn ávinningur af belgjalosun fyrir 41 viku.
Við framköllun fæðingar eru eftirfarandi aðferðir notaðar:
Algengast er að nota Cytotec® töflur til framkölllunar á fæðingu. Þá er tafla sett upp í leggöngin aftan við leghálsinn. Þessi tafla veldur því að leghálsinn þroskast, mýkir hann og styttir og getur framkallað hríðar. Þessi aðferð er notuð ef leghálsinn er langur og lokaður. Cytotec má gefa á 4 klukkustunda fresti í nokkur skipti. Endurmat á leghálsi og samdráttum í legi er gert fyrir hverja gjöf. Í sumum tilfellum er byrjað að kvöldi og haldið áfram morguninn eftir. Sumar konur geta farið heim í millitíðinni. Fylgst er reglulega með hjartslætti barns með fóstuhjartsláttarriti (mónitor).
Ef legvatn er farið er Cytotec gefið um munn og þá á 2 tíma fresti.
Ef leghálsinn er opinn 1-2 sm og styttur (hagstæður) og kollur barns er skorðaður í grindinni má gera gat á belgina sem umlykja barnið. Við það örvast myndun hormóna sem setur fæðingarhríðar af stað. Ef sótt hefst ekki innan 2 tíma frá belgjarofi þarf að bæta við oxýtósín dreypi. Belgirnir eru rofnir með lítilli plastklóru sem líkist heklunál. Óþægindi ættu ekki að vera meiri en við venjulega innri kvenskoðun.
Oxýtósín er hríðaörvandi hormón sem framkallar samdrætti í legi og er stundum er kallað ástarhormón. Þegar fæðing fer af stað losnar oxýtósín í auknum mæli í líkamanum en hvað kemur því af stað er ekki með fullu vitað. Hormónið örvar samdrætti í legi og framkallar hríðar. Þetta hormón er til í lyfjaformi (Syntocinon®) og er stundum notað við framköllun fæðingar eða til að auka kraft hríða í fæðingu. Hríðaörvandi dreypi er yfirleitt ekki notað nema legvatn sé farið að leka og leghálsinn orðinn styttur og aðeins opinn. Syntocinon® er blandað í saltvatnsupplausn og gefið í æð. Byrjað er að gefa nokkra dropa á mínútu og það síðan aukið reglulega þar til konan er komin með reglulegar hríðar. Fylgst er með hjartslætti barnsins allan tímann vegna þess að í einstaka tilfellum geta hríðaörvandi hormón valdið oförvun á legi og þar af leiðandi streitu hjá barninu.
Einstaka sinnum er leghálsinn víkkaður út með vatnsfylltri blöðru (ballon) á enda leggs sem dregin er í gegn um leghálsinn á nokkrum klukkustundum. Þetta er helst notað hjá konum sem hafa áður farið í keisaraskurð eða eru með ör í legi af öðrum ástæðum.
Að nudda geirvörtur og fara í gönguferðir getur haft örvandi áhrif á samdrætti í leginu, en þau ráð duga ekki til að setja fæðingu af stað. Hægðaörvandi lyf eða jurtir voru notuð áður fyrr til að örva samdrætti í legi en eru óæskileg vegna oförvunar ristils og óeðlilegu vökvatapi hjá móður. Í náttúrulyfjum geta verið virk efni sem geta leitt til oförvunar legs sem getur leitt til fósturstreitu. Aldrei ætti að reyna notkun slíkra lyfja nema að höfðu samráði við ljósmóður og lækni sem geta metið hvaða efni eru í því sem um ræðir. Nálastungur, nudd og þrýstipunktanudd hefur stundum verið notað í seinni tíð og er trúlega skaðlaust, en framkallar ekki fæðingu eitt og sér.
Einnig nota sumir samfarir og kynferðislega fullnægingu til að auka líkur á því að fæðingin fari sjálf af stað. Sæði inniheldur prostaglandín sem örvar oxýtósín framleiðslu.
Fyrst og fremst ástand legháls, þ.e. þéttleiki, lengd og opnun. Talað er um að legháls sé óþroskaður þegar hann er langur, lokaður og þéttur viðkomu en þroskaður eða hagstæður þegar stytting og útvíkkun eru hafin. Alla jafna eru prostaglandín efni notuð á óþroskaðan legháls en annars belgjarof og oxýtósín dreypi.
Þegar fæðing er framkölluð með lyfjum að kvöldi . . . LESA MEIRA