Börn geta orðið fyrir neikvæðum áhrifum af hávaða í sínu nánasta umhverfi eins og við leik á heimili, í daggæslu, leikskóla og skóla.
Börn geta orðið fyrir neikvæðum áhrifum af hávaða í sínu nánasta umhverfi eins og við leik á heimili, í daggæslu, leikskóla og skóla.
Rannsóknir sýna að langvarandi hávaði í umhverfi barna getur haft neikvæð áhrif á heilsu þeirra og frammistöðu.
Viðvarandi hávaði getur líka haft áhrif á einbeitingu og úthald barna, í verstu tilfellum getur hann skaðað heyrn varanlega. Börn eiga erfitt með að meta aðstæður og verja sig fyrir skaðlegum áhrifum hávaða.
Hávaði í skólum og leikskólum stafar fyrst og fremst af börnunum sjálfum en einnig af leikföngum, leiktækjum, húsgögnum og húsbúnaði. Rannsóknir á íslenskum skólum og leikskólum sýna að börn verða að meðaltali fyrir mun meiri hávaða en sett hávaðamörk reglugerða segja til um, eða allt að þreföldum þeim gildum. Sömu niðurstöður er að finna víða á Norðurlöndunum. Til samanburðar mætti ímynda sér að hávaðinn væri svipaður því ef að leikskólastarf færi fram á gangstétt við umferðarþunga götu! Eða að barn myndi leika sér í lengri tíma við hliðina á þvottavél á þeytivindu!
Skólinn er vinnustaður þar sem börn verja stórum hluta uppvaxtarára sinna. Aðbúnaður þeirra, umhverfi og vellíðan skiptir miklu um afköst og árangur í námi. Sumum hávaða er ekki hægt að komast hjá en hægt er að koma í veg fyrir eða minnka flestan hávaða með því að vera vakandi fyrir hávaðavöldum í umhverfi barna og þekkja til úrræða
Góð ráð
- Skoða umhverfi barnsins – heima og í skólanum, er hávaði?
- Bæta umhverfi barnsins heima við til að minnka hávaða, t.d. fjarlægja hávaðasöm leikföng, nota mottur á gólf og dúka á borð, lækka í sjónvarpinu.
- Ganga úr skugga um að gerðar séu ráðstafanir til að minnka hávaða í skólum.
- Fræða börn um hvað sé hávaði, t.d. hversu hátt er of hátt á sjónvarpinu.
Hvaða áhrif getur hávaði haft á börn?
Neikvæð áhrif á heyrn barna
- Skert heyrn
- Skert þol fyrir hávaða
- Sífellt suð (tinnitus)
Neikvæð áhrif á vitsmunalega þætti barna
- Skert náms- og tungumálahæfni
- Skert virkni og einbeiting
- Skert minnisgeta
- Skert geta til að takast á við flókin verkefni
Óbein áhrif hávaða
- Rám rödd og hnútar á raddböndum sem afleiðing þess að hækka röddina til að yfirgnæfa hávaða
Hvað getum við gert?
Þrenns konar aðferðir hafa reynst vel til að minnka eða koma í veg fyrir hávaða í umhverfi barna. Þær fela í sér tæknilegar, skipulagslegar eða kennslufræðilegar breytingar.
Tæknilegar
- mýkra yfirborð vega
- hávaðamanir
- umferðastýring
- breytingar á loftræstikerfi
- aukið pláss og takmarkaður fjöldi barna í hverju rými
- notkun skilrúma
- notkun hljóðeinangrandi vegg- og loftflísa
- notkun magnarakerfis
Skipulag
- fækka hávaðasömum leikföngum
- þykkar gólfmottur
- þykkir borðdúkar
- takmarka hávaða frá sjónvarps- og útvarpstækjum
- skapa hljóðláta matmálstíma
- velja staðsetningu daggæslu m.t.t. umferðarhávaða
- útivera
Kennslufræðilegar
- fullorðnir fyrirmyndir barna
- kenna börnum mun á eðlilegum og óæskilegum hávaða
- starfsfólk daggæslu/leikskóla/skóla sé meðvitað um hvernig draga má úr hávaða
- notkun sýnilegs mælibúnaðar fyrir almenning
Heimild: ust.is
Tengdar fréttir