Það eru ýmsir þættir sem við höfum ekki stjórn á sem hafa áhrif á beinþéttni, m.a. kyn, aldur, kynþáttur og erfðir, en einnig aðrir þættir sem eru að stórum hluta á okkar valdi eins og hreyfing og mataræði.
Eins og við höfum marg oft heyrt þá er hæfilegt magn af kalki og D-vítamíni nauðsynlegt til að hámarka beinþéttni og halda aldurstengdu beintapi í lágmarki. Mjólkurvörur eru góð uppspretta kalks og lýsið okkar hefðbundni D-vítamíngjafi. Ekki er þó endilega nauðsynlegt að þamba nýmjólk og drekka beint af lýsisflöskunni. Jógúrt og ostar eru góðir kalkgjafar og fyrir þá sem þjást af mjólkursykursóþoli þá hefur úrval laktósafrírra vara aukist til muna síðustu ár. Einnig er hægt að borða t.d. spergilkál, sardínur (með beini), ákveðnar hnetutegundir og kalkbættar sojaafurðir, en hafa verður þó í huga að oft þarf að borða mun stærri skammta til að uppfylla kalkþörfina. Þeir sem eiga í vandræðum með að borða nóg af kalkríkri fæðu, eða þjást af sjúkdómum sem hafa m.a. áhrif á frásog kalks gætu þurft að taka það inn sem fæðubót í samráði við fagaðila.
D-vítamín getur myndast í húð fyrir tilstilli sólarljóss, en þessi myndun er háð ákveðnum geislum sólar og er mjög árstíðabundin. Yfir vetrarmánuðina þurfum við hér á norðurhjara því flest að fá D-vítamín úr fæðunni og er rétt að minnast á að árið 2013 voru ráðlagðir dagskammtar hækkaðir og eru nú 10µg fyrir börn undir tíu ára, 15µg fyrir 10-70 ára og 20µg fyrir fólk yfir sjötugt. Því miður eru ekki margar fæðutegundir sem innihalda teljandi magn af D-vítamíni og fáir líklega sem geta hugsað sér að borða feitan fisk alla daga vikunnar. Að sjálfsögðu stendur gamla góða lýsisflaskan ávallt fyrir sínu, en fyrir okkur hin þá er líka ágætis úrval af öðrum lýsisvörum eins og hylkjum og perlum. Einnig er hægt að taka inn D-vítamín í töfluformi og ýmis fjölvítamín innihalda D-vítamín. Svo má líka alltaf skella sér til suðrænni og sólríkari staða á hnettinum.
Engar afsakanir, finnum okkur kalk- og D-vítamíngjafa við hæfi og byrjum strax að stuðla að bættri beinheilsu ævina á enda.
Grein eftir Tinnu Eysteinsdóttur næringarfræðing sem birt var í Morgunblaðinu þann 20. október sl. í tilefni af alþjóðlegum beinverndardegi.
Grein af vef beinvernd.is