Nú er komið að fjórða og síðasta þjálfaranum hjá VIVUS sem við kynnum til leiks sem reglulegum pistlahöfundi hjá okkur á Heilsutorg.is. VIVUS þjálfun var stofnað árið 2020 og er rekið af fjórum sjúkraþjálfurum. Þar er boðið uppá fjölbreytta og faglega fjarþjálfun fyrir byrjendur, lengra komna, hlaupara og mæður, ásamt hóptímum í sal. Einnig er boðið uppá ýmis workshop, meðal annars fyrir hlaupara og einstaklinga með stoðkerfisverki. Undir starfsemi þeirra tilheyrir einnig
Netsjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfararnir á VIVUS ætla að birta hjá okkur pistla einu sinni í viku og ætlum við að kynnast þeim öllum hér í Viðtalinu og nú er komið að henni Valgerði Tryggvadóttur. Við bjóðum VIVUS velkominn í hóp Gestapenna á Heilsutorg.is
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér?
Ég heiti Valgerður Tryggvadóttir og er uppalin í Kópavoginum þar sem ég bý á gamla æskuheimilinu með manninum mínum og þremur börnum. Við keyptum nýverið húsið og höfum verið að gera það upp síðastliðið ár.
Við hvað starfar þú í dag?
Ég starfa sem sjúkraþjálfari á tveimur dásamlegum vinnustöðum, Sjúkraþjálfunarstofunni Styrk og á afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla. Einnig er ég ásamt þremur öðrum sjúkraþjálfurum með fjarþjálfunarúrræði VIVUS sem býður upp á fjölbreytta þol- og styrktarþjálfun, hlaupaþjálfun, mömmuþjálfun ofl. ásamt netsjúkraþjálfun. Við vorum líka að byrja með mömmutíma í sal.
Hver er þín helsta hreyfing?
Varðandi hreyfingu finnst mér útivera gefa mér mest og þá skiptir ekki máli hvort það sé að ganga eða hjóla, á róló með krakkana, fara á útivistarsvæði eins og Elliðaárdalinn eða Hvaleyravatn að leika. Ég er líka dugleg að fara sjálf út hvort sem það er til að gera æfingar með eigin líkamsþyngd eða ketilbjöllur, ganga, hjóla eða hlaupa.
Öll þol- og styrktarþjálfun finnst mér líka mjög skemmtileg, sérstaklega með ketilbjöllum en ég hef einnig prófað kraftlyftingar og ólympískar. Það mætti segja að ég hafi áhuga á allri hreyfingu en ég þarf að vera mjög dugleg að flétta henni inn í daglegt líf með vinnu og heimilishaldi þessa dagana. Mér finnst gaman að spá í hreyfingu hvort sem það er út frá sjúkraþjálfara/þjálfara sjónarhorninu eða sem iðkandi og til að læra betur inn á líkamann minn.
Hver veit í hverju ég enda þegar börnin eru orðin eldri og meiri tími gefst til að sinna áhugamálum. Ég verð líklega komin í æfingabúðir erlendis og stefnan var líka sett á hlaup erlendis áður en covid skall á og ég varð ólétt af þriðja barninu. Núna nýt ég þess bara að geta hreyft mig eins og ég vil og get samhliða heimilislífinu, finna þol og styrk aukast eftir meðgönguna.
Ég hef sjálf þurft að vinna mig úr stoðkerfisverkjum og streitutengdum einkennum eftir bílslys og erfiða meðgöngu og er því einstaklega þakklát fyrir þær stundir sem ég hreyfi mig. Þessi tímabil hafa þó kennt mér hvað mest á líkama minn og ekki síður andlega og sýnt mér hvað hreyfing er stór og mikilvægur hluti af mínu lífi.
Ertu dugleg að ferðast og áttu þér uppáhalds áfangastað?
Við höfum ekki verið svo dugleg að ferðast síðastliðin ár en þó eitthvað hérna innanlands. Það eru þess vegna margir áfangastaðir bæði hér heima og erlendis sem heilla. Sem dæmi ætlum við Sigurjón að fara til Tokyo þegar tækifæri gefst og ég á líka eftir að njóta Vestfjarðanna betur eitthvert sumarið.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og áttu þér uppáhalds bók?
Ég les mjög mikið, sérstaklega skáldsögur og hlusta ekki síður mikið á hljóðbækur og podcöst. Bæði fræðileg tengd þjálfun, kvennheilsu, streitustjórnun ofl. og mannlega þætti.
Hver eru áhugamálin þín?
Ég hef mest gaman að því að hreyfa mig og sérstaklega með vinum og fjölskyldu. Ég elska að nördast í einhverjum pælingum um líkamann og þjálfun og get endalaust gleymt mér í því.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?
Ef ég ætla að hafa það sérstaklega náðugt vil ég helst vera einhversstaðar ein á göngu með bók eða podcast í eyrunum sama hvernig viðrar, fara í heita pottinn í sundi og fá mér Hipstur í kvöldmat. Þetta verður ennþá notalegra ef það er kalt eða rigning og rok.
Hvað segir þú við jálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt eða erfitt verkefni?
Allt tekur enda. Þetta er erfitt núna en það klárast. Í kjölfar erfiðleikanna vex maður.
Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?
Vonandi að gera nákvæmlega það sem mig langar. Að ég fylgi minni sannfæringu og taka mark á henni. Mér finnst líka mikilvægt að hafa tíma fyrir fjölskylduna svo ætli ég sníði ekki vinnu og áhugamálum eftir því.