Að fyrirgefa er ekkert flókið - hugleiðing frá Guðna
Það er auðvitað einstaklingsbundið hve mikið fólk veltir sér upp úr úrgangi fortíðarinnar. En staðreyndin er sú að mörg okkar sleppa aldrei alveg tökunum á neinu sem gerst hefur heldur höngum við á hundruðum og þúsundum spotta. Og þegar okkur leiðist – þegar eirðarleysið tekur völdin – er mjög vinsæll og skemmtilegur samkvæmisleikur að þreifa á spottunum til skiptis, bara til að athuga hvort þeir séu ekki örugglega þarna ennþá.
Því það er aðeins ást. Og það er aðeins núna. Og það ert aðeins þú.
Manneskja sem heldur í marga þræði sem liggja í köggla langt úti í sjó er ekki aðeins mjög upptekin (og þar með fjarverandi og ó-fullkomin) heldur líka illa lyktandi. Frá henni stafar illum daun. Aðrar sálir í kringum hana finna þennan daun. Sumir laðast að honum (þeir sem þurfa og vilja slíkt) en aðrir hrökklast í burtu. Enn aðrir komast hvorki lönd né strönd (t.d. börn viðkomandi eða maki) og sitja því uppi með illa lyktandi einstakling.
Að fyrirgefa er ekkert flókið. Að fyrirgefa er eins og að létta á sér. Maður bara sleppir.
Og það getur enginn létt á þér nema þú sjálfur.