Fara í efni

Aðventukökur - svo dásamlegar frá mæðgunum

Um helgina bökuðum við mæðgur fínustu aðventukökur: hafra- og heslihnetusmákökur með súkkulaðibitum. Þær minntu okkur svolítið á smákökur sem langamma/amma bakaði í den.
Aðventukökur - svo dásamlegar frá mæðgunum

Um helgina bökuðum við mæðgur fínustu aðventukökur: hafra- og heslihnetusmákökur með súkkulaðibitum.

Þær minntu okkur svolítið á smákökur sem langamma/amma bakaði í den. 

Við ætlum nú ekki að þykjast myndarlegri en við erum. Við bökum ekki margar sortir til að geyma fram að jólum, við veljum oftast bara eina góða til að fá aðventustemmningu og ilm í húsið, og leyfum ungunum að dunda með okkur í huggulegheitum. Jú, reyndar er piparkökubakstur með krúttunum föst hefð líka. En þar með eru sortirnar nú upp taldar.

Við ólumst báðar upp við smákökur úr grófara mjöli en tíðkaðist í þá daga, með fullt af hnetum og svolítið skertu sykurmagni, og þannig finnst okkur þær líka bestar. Smákökur eiga að sjálfsögðu að vera sætar og bragðgóðar, en það skiptir okkur mæðgur alltaf miklu máli að velja gott hráefni, líka þegar við útbúum sætindi. Við veljum hráefni úr lífrænni ræktun þegar það er hægt og tökum trefjaríkara mjöl eins og heilhveit/spelt/haframjöl fram yfir hvítt hveiti. Súkkulaði viljum við helst bara kaupa ef það hefur fairtrade vottun. (Þetta eru hlutir sem skipta okkur máli, en hver og einn velur að sjálfsögðu eftir sinni sannfæringu). 

Margar klassískar uppskriftir formæðra okkar gera ráð fyrir að smákökudeig sé kælt áður en kökurnar eru mótaðar. Þetta góða ráð hjálpar til við að halda kökunum í fínu formi inni í ofni. Kælingin er sérlega mikilvæg í þessari uppskrift, því hafrar hafa ekki sömu bindigetu og glúteinríkt mjöl. En ef deigið er vel kælt haldast smákökurnar mjög vel saman. Best er að móta deigið í "pulsu", kæla í 3-4 klst (eða yfir nótt) og skera svo í ½ cm þykkar skífur. Deigið má sem best útbúa fyrirfram og baka svo í góðum félagsskap þegar tími gefst til í rólegheitum. 

 

Uppskriftin

4 ½ dl lífrænt haframjöl, sett í matvinnsluvél og malað
2 dl kókospálmasykur
bindiefni: 1 vegan egg EÐA 2 msk möluð chiafræ + 3 msk vatn
2 ½ msk kókosolía
100g heslihnetur, saxaðar
1 tsk vanilluduft
¼ tsk sjávarsalt
nokkur chilikorn ef vill
100g saxað 70% súkkulaði (fairtrade)

Aðferðin

  1. Forhitið ofninn í 175°C
  2. Ef þið notið möluð chiafræ og vatn sem bindiefni er best að byrja á að hræra það saman. (Sleppið ef þið notið annarskonar bindingu eins og t.d. 1 vegan egg)
  3. Setjið haframjölið í matvinnsluvél og malið í frekar fínt mjöl.
  4. Bætið restinni af uppskriftinni (fyrir utan súkkulaðið) í matvinnsluvélina og látið hrærast saman.
  5. Bætið súkkulaðibitunum í deigið og ýtið á "pulse" takkann til að blanda saman án þess að súkkulaðið verði of smátt.
  6. Rúllið í tvær lengjur ("pulsur"), pakkið inn og geymið í kæli til að stífna, t.d. yfir nótt, eða í 3-4 klst.
  7. Skerið í ½ cm þykkar skífur og leggið á bökunarpappír á ofnskúffu.
  8. Bakið í 10-12 mínútur við 175°C - 180°C, fylgist með að þær dökkni ekki um of.
  9. Takið ofnplötuna út og látið kökurnar standa á plötunni í 5 mín til að kólna.
  10. Látið kólna alveg áður en kökurnar eru settar í box/krukkur til geymslu.
  11. Njótið í góðum félagsskap.

Hafrakökurnar eru dásamlegar með ísköldu jurtamjólkurglasi!

 

Dásamleg uppskrift frá maedgurnar.is