Aðventan er svo notalegur tími
Aðventan er svo notalegur tími, kertaljós, jólaljós, bökunarilmur í eldhúsum, tilhlökkun í loftinu og flestum er boðið í hinar ýmsar uppákomur til að skapa nánd og samveru. Því miður höfum við það ekki öll jafn gott og viljum við nú flest gera það sem við getum til að létta undir og styðja við þau sem upplifa erfiðleika á þessum tíma. Þessi tími er notalegur fyrir mörg okkar, þau sem hafa kost á og geta notið til dæmis þau sem missa ekki sjónar á því sem skiptir máli, því jú öllu er hægt að ofgera. Eitt sinn um aðventu hringdi í mig ung kona og sagði mér að hún væri að kafna, nánast að bugast. Mér brá og hélt að þetta tengdist náminu hennar, að það væri orðið of mikið álag í prófatörninni. En nei, þá sagði hún mér að hún væri orðin mikið streytt því hún yrði að mæta í svo marga aðventuatburði. Vinnufélagarnir, skólafélagarnir, félagasamtökin, vinkonurnar og fjölskyldan væru öll með aðventuviðburði sem hún gæti ekki hafnað og því hefði hún ekki þann tíma sem hún þyrfti til að sinna náminu.
Það er sannarlega gott að fá mörg góð tilboð og dýrmætt að njóta en það getur reynst erfitt ef það veldur því að hún missir sjónar á öðru sem skiptir hana máli.
Fyrir einhverjum árum síðan skapp ég til Indlands og þar mætti ég miklum andstæðum. Til að lýsa þessum aðstæðum ætla ég að segja ykkur frá því þegar ég var, eitt sinn, á gangi eftir malbikaðri götu og það sem blasti við mér á hægri hönd var þurr sandur, þar sem töluvert af fólki var samankomið, fólkið hafði stungið staurum ofan í sandinn og var búið að hengja á staurana einskonar gúmmídúka, og þarna sátu þau til þess að skýla sér frá sólinni. Sum óklædd en einhver þeirra voru í slitnum, skítugum fötum, þau voru mjög horuð og langflest með blóðuga góma, þetta var svangt fólk, þyrst fólk en samankomið í ró, með bros á vör.
Á sama tíma sá ég mér til vinstri handar fólk á hraðferð, fólk í fínum fötum, unglinga með snjallsíma í einni hendi og skyndibita í hinni, fullorðið fólk með skjalatöskur og kaffi, fólk að flýta sér, broslaust og þungt á svip. Það var merkileg upplifun að standa þarna og horfa á þessar andstæður.
Þessar andstæður birtast okkur líka hér á Íslandi, í kirkjunni eru þær sérstaklega áberandi á aðventunni, þegar hópur fólks sem er húsnæðislaust eða býr við fátækt, fólk sem sér ekki fram á að ná endum saman leitar til kirkjunnar og annarra samtaka, eftir búbót til þess að eiga fyrir mat og til þess að eiga möguleika á að halda jól. Sem betur fer hafa söfnuðirnir fengið gjafir og geta sótt í sjóði sem safnað hefur verið til þess að mæta fólki í þessari stöðu. Það er dýrmætt að fá að taka þátt í slíku starfi. Ég þakka fyrir að flestir Íslendingar vilja gefa af sér og sjá tilgang með því. Fólk vill standa saman í erfiðum aðstæðum.
Missum ekki sjónar á því.
Boðskapur jólanna týnist gjarnan í glæsilegum umbúðum, auglýsingabæklingum og kröfum um flottar veislur og jólagjafir. Fólk missir sjónar á því sem skiptir máli; þarfir fólksins, einstaklinganna sjálfra, í sorg og í gleði eru mikilvægastar. Samveran og brosið. Kærleikur, virðing og umhyggja, það að láta sig aðra varða, að gefa sér og öðrum tíma, sem er okkur öllum svo mikilvægt.
Missum ekki sjónar á því.
Díana Ósk Óskarsdóttir, faglegur handleiðari og sjúkrahúsprestur.