Aukning í notkun svefnlyfja meðal barna á Íslandi
Ávísanir svefnlyfja á börn hafa aukist mikið undanfarin ár. Frá 2004 til 2007 var fjöldi ávísana á svefnlyf hverfandi, en frá 2008 til 2015 má segja að sprenging hafi átt sér stað í ávísunum svefnlyfja í þessum aldursflokki (Mynd 1). Svefnlyfinu sem er ávísað er svo til eingöngu hormónið melatónín (Circadin).
Aukningin er margföld frá því árið 2008, mest hjá börnum á aldrinum 10-14 ára eins og sést á grafinu hér að neðan. Ekki hefur enn verið sýnt fram á öryggi og verkun Circadin hjá börnum á aldrinum 0-18 ára (1, 2). Samkvæmt Sérlyfjaskrá er ábending fyrir Circadin svefnleysi hjá 55 ára og eldri.
Mynd 1 Ávísanir svefnlyfja (aðallega melatóníns) meðal barna, 0 til 14 ára á Íslandi 2004 til 2015 í DDD/1000 börn á dag (DDD er skilgreindur dagskammtur).
Norska blaðið Aftenposten greindi frá því nýlega að notkun barna á svefnlyfjum hafi tvöfaldast á síðustu 10 árum og eru áhyggjur af þessari þróun þar í landi (3). Rannsókn á lyfjanotkun barna 0-17 ára í Noregi 2004 til 2014 sýndi að notkun barna á svefnlyfjum hefur vaxið á undanförnum árum (4). Ef borinn er saman fjöldi barna eftir kyni og aldri þá sést að talsvert fleiri drengir og stúlkur fá ávísað svefnlyfjum á Íslandi heldur en í Svíþjóð og Noregi árið 2015 (5, 6).
Mynd 2 Fjöldi drengja sem fékk ávísað svefnlyfjum (mest melatónín) á Íslandi, Noregi og Svíþjóð árið 2015.
Minna er ávísað til stúlkna en munur milli landanna er svipaður og hjá drengjunum. Árið 2015 var fjöldi notenda hér á landi tæplega helmingi meiri meðal stúlkna á aldrinum 10-14 ára borið saman við Noreg.
Mynd 3 Fjöldi stúlkna sem fékk ávísað svefnlyfjum (mest melatónín) á Íslandi, Noregi og Svíþjóð árið 2015.
Á árinu 2015 fengu 19 af hverjum 1000 íslenskum stúlkum á aldrinum 10-14 ára ávísað svefnlyfi a.m.k. einu sinni, í Noregi var fjöldinn rúmlega 10 af 1000 og í Svíþjóð 13 af 1000 (Mynd 3). Fjöldi notenda svefnlyfja meðal stúlkna 10-14 ára hér á landi er því 83% meiri hér á landi en í Noregi og 47% meiri en í Svíþjóð.
Á árinu 2015 fengu 31 af hverjum 1000 íslenskum drengjum á aldrinum 10-14 ára ávísað svefnlyfi a.m.k. einu sinni, í Noregi var fjöldinn tæplega 17 af 1000 og í Svíþjóð 22 af 1000 (Mynd 2). Fjöldi notenda svefnlyfja meðal drengja 10-14 ára hér á landi er því 84% meiri hér á landi en í Noregi og 37% meiri en í Svíþjóð.
Ef ávísanir svefnlyfja hjá þessum aldurshópi hér á landi eru bornar saman við Svíþjóð kemur í ljós að ávísanir í dagskömmtum eru þrisvar sinnum hærri fyrir drengi hér en í Svíþjóð. Hjá stúlkunum er munurinn á dagskömmtum um helmingur. Það eru því ekki einungis mun fleiri drengir sem fá ávísað lyfjunum heldur eru skammtar á hvert barn, og þá sér í lagi drengi, hærri hér á landi en í Svíþjóð (Mynd 4).
Mynd 4 Ávísaðir dagskammtar(DDD/1000 börn á dag) meðal 10-14 ára barna á Íslandi og Svíþjóð árið 2015.
Þessi þróun hefur verið til skoðunar undanfarin ár hjá lyfjateymi embættisins en mörg þeirra barna sem taka svefnlyf eru jafnframt að taka örvandi lyf við ADHD. Gerðar hafa verið athugasemdir við ávísanir lækna og óskað eftir að farið sé eftir klínískum leiðbeiningum fyrir VINNULAG VIÐ GREININGU OG MEÐFERÐ ATHYGLISBRESTS MEÐ OFVIRKNI(7). Í leiðbeiningunum um lyfjameðferð barna með ADHD með metýlfenidati segir: „Algengustu aukaverkanir eru lystarleysi, kviðverkir, höfuðverkur, pirringur og svefntruflanir“. Ekki er vitað hvort verið sé að gefa svefnlyf vegna aukaverkana örvandi lyfja, en slíkt hlyti að teljast vafasamt, sérstaklega í ljósi þess að sum þeirra svefnlyfja sem verið er að ávísa börnum eru ekki ætluð börnum.
Þá segir jafnframt í leiðbeiningunum að „ADHD-einkenni, sem birtast einkum sem athyglisbrestur, kalla oft á miklu víðtækari athugun varðandi mismunagreiningar en ADHD sem einkennist af ofvirkni. Útiloka þarf t.d. væga þroskaseinkun, málþroskaröskun, kvíða/þunglyndi, áfallastreituröskun (PTSD), svefntruflanir eða alvarlega íþyngjandi sálfélagslegar kringumstæður sem orsök athyglisbrests“. Af þessu verður ekki annað ályktað en að svefnerfiðleikar sé einn af grunnþáttum sem þarf að útloka til að rétt greining geti farið fram.
Ef barn tekur metýlfenidat á forðalyfjaformi (Ritalin Uno, Concerta, Methylphenidate Sandoz eða Medikinet CR) og dagsskammti lyfsins er skipt niður og það tekið að morgni, í hádegi og mögulega eftir hádegi þá geta skammtar teknir í hádegi og sérstaklega skammtar teknir eftir hádegi haft áhrif á svefn og hversu vel barni gengur að sofna á kvöldin. Sum barna á metýlfenidati fá einnig ávísað Circadini og þá er vert að huga að því hvenær dags þessi börn taka metýlfenidatið til þess að meta hvort það gæti haft áhrif á hversu vel barni gengur að sofna á kvöldin. Þessi athugasemd getur mögulega átt við hjá fullorðnum, sérstaklega hjá þeim sem eru á háum skömmtum af metýlfenidati.
Það ber að hafa í huga að margar rannsóknir, bæði á dýrum og mönnum, sýna að hormónið melatónín (Circadin) hefur áhrif á ýmis kerfi líkamans eins og hjarta- og æðakerfi, æxlunar-, ónæmis- og efnaskiptakerfi. Áhrif langtímanotkunar á börn (og fullorðna) eru ekki þekkt. Því ætti ekki að ávísa melatóníni á börn til langs tíma án þess að vandaðar rannsóknir liggi til grundvallar greiningu á svefnvanda barnsins og foreldrum þess sé gerð grein fyrir þeirri óvissu sem ríkir um öryggi lyfsins.
Heimildir
- www.serlyfjaskra.is
- Kennaway DJ. Potential safety issues in the use of the hormone melatonin in paediatrics. J Paediatr Child Health. 2015 Jun;51(6):584-9.
- http://www.aftenposten.no/familieogoppvekst/Bruk-av-sovemedisin-blant-barn-doblet-pa-ti-ar-855776_1.snd (Birt 7.11.2016).
- http://www.socialstyrelsen.se/statistik/statistikdatabas/lakemedel
- http://reseptregisteret.no/
- Hartz I, Skurtveit S, Steffenak AK, Karlstad Ø, Handal M. Psychotropic drug use among 0-17 year olds during 2004-2014: a nationwide prescription database study. BMC Psychiatry. 2016 Jan 29;16:12.
- http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item14259/ADHD-7.%20mars%202012.pdf
Ólafur B. Einarsson verkefnisstjóri lyfjamála
Lárus S. Guðmundsson lyfjafræðingur
Magnús Jóhannsson læknir