Berðu þig vel: 5 leiðir til þess að hætta að vera hokinn í baki
Finnur þú fyrir stirðleika og spennu þegar þú stendur upp eða sest niður?
Slæm líkamstaða gæti verið ástæðan fyrir því að þú finnur til. Það er auðvelt að sjá það á fólki þegar það ber sig illa.
Hausinn er alltaf hálfu á skrefi á undan líkamanum, hryggurinn er boginn og það virðist sem axlirnar séu á góðri leið með að snúa í alvitlausa átt.
Slæm líkamsstaða á ekki bara við þegar við stöndum eða göngum. Það eru margir sem hanga yfir tölvunni eða heimalærdóminum.
Sitja jafnvel í keng í sófanum með tölvuna eða poppskálina í fanginu og gera sér ekki grein fyrir því að það hefur slæm áhrif á allan líkamann að bera sig illa, sama í hvaða stöðu við erum.
Þegar ég var ung þá átti ég þjálfara sem hjálpaði mér að bera mig betur. Hann lét mig standa í réttri stöðu og límdi mig með stóru og þéttu límbandi á milli herðablaðanna minna. Hann náði í penna og krotaði lítillega á mig þar sem límbandið var fest á mig. Hann sagði mér að ef ég gæti haldið límbandinu svona í 2 klukkutíma án þess að rífa það af, mætti ég fara í heita pottinn í stað þess að synda æfingu. Ég gat ekki svindlað þar sem að hann var búinn að krota á mig nákvæmlega þar sem límbandið var á mér. Ég vandaði mig meira en ég hef nokkurn tíman gert. Mig langaði svo mikið í pottinn. Það tókst, ég náði að halda límbandinu á mér og var því í réttri stöðu allan tíman. Mér leið eiginlega einsog ég væri að þykjast vera einhver hefðarfrú á meðan á þessu öllu stóð. Ég þurfti að passa mig á því hvernig ég sat og hvernig ég gekk. Þetta var erfiðara en ég bjóst við. En síðan þá hef ég náð að bera mig mjög vel.
Ef þú hefur ekki áhuga á að gera þessa litlu límbands tilraun þá eru hér 5 leiðir til að bæta líkamsstöðuna svo um munar.
1. Súperman – Þú liggur á maganum með hendurnar fyrir ofan haus. Þumalputtar vísa upp í loft. Spenntu rassvöðva og miðju líkamans. Lyftu höndum, haus og löppum af gólfinu og haltu stöðunni í 2 sekúndur. Gerðu þessa æfingu 15 sinnum. Þetta hjálpar til við að styrkja vöðvana í bakinu og stuðningsvöðva hryggjasúlunnar.
2. T. Liggðu á maganum og settu hendur til hliðar. Líkaminn myndar einskonar T. Þumalputtar vísa upp. Spenntu rassvöðva og miðju líkamans. Þrýstu herðablöðum saman og lyftu höndunum upp af gólfinu og haltu stöðunni í 2 sekúndur. Gerðu þessa æfingu 15 sinnum. Þetta hjálpar til við að styrkja vöðvana í efra bakinu og stuðning við herðablöðin. Þegar þú stendur í réttri líkamsstöðu þá þurfa herðablöðin að vera nálægt hvort öðru. Ekki svo að þau snertast, þá ertu kominn í of mikla fettu.
3. W. Liggðu á maganum með hendur til hliðar. Beygðu olnboga svo hendurnar á þér og hausinn mynda eins konar W. Framhandleggir liggja meðfram hausnum. Í Þessari æfingu gerir þú einsog í T æfingunni nema bara í W stöðu. Þumalputtar vísa upp og þrýstir herðablöðum saman. Gerðu þessa æfingu líka 15 sinnum.
4. Teygja á. Finndu þér horn til að standa í. Það er líka hægt að nota opnar dyr. Beygðu olnboga og leggðu hendur á vegginn sitthvoru megin við þig. Hendurnar ættu að vera rétt fyrir ofan axlarhæð. Þrýstu líkamanum hægt að veggnum, eða í gegnum opnu dyrnar. Ef þú stendur við dyr, passaðu þig að fara ekki of langt né of hratt. Herðablöðin færast saman. Haltu stöðunni í 4 sekúndur og slakaðu svo á. Gerðu þessa teygju 12 sinnum. Þessi teygja hjálpar til að losa um stífa brjóstvöðva sem geta valdið því að líkamsstaðan skekkist.
5. Teygðu efra bakið. Sittu í stól með milliháu baki. Settu handklæði á brúnina ef bakið er hart. Settu hendur á bakvið hausinn og teygðu þig aftur mjög hægt. Passaðu að teygja ekki hálsinn. Farðu eins langt og þér þykir þægilegt. Haltu stöðunni í 4 sekúndur og færðu þig svo rólega til baka. Ef þú situr í vinnu er gott að gera þessa æfingu nokkrum sinnum yfir er gott að gera þessa æfingu nokkrum sinnum yfir daginn. Þessi æfing hjálpar þér að halda góðu jafnvægi þegar þú stendur í réttri stöðu.
Grein fengin af vef pressan.is