Fara í efni

Hálfnuð er leið þá hafin er - hugleiðing á sunnudegi

Hálfnuð er leið þá hafin er - hugleiðing á sunnudegi

Hálfnuð er leið þá hafin er.

En ... þegar við ákveðum í hjartanu að ganga inn á braut heilinda og láta af óræktinni þá koma púkarnir til með að verjast. Þeir eru vanir að hafa sitt fram og verjast með kjafti og klóm. Þetta eru tímamót; aftur og aftur stöndum við á krossgötum í lífinu, en það er sjaldgæft að menn stigi skrefið til fulls fyrr en sársaukinn er nægur til að erfiðara sé að snúa við en að ganga áfram, inn í ljósið.

Sá sem stendur á svona krossgötum þarf að spyrja sig hvort hann vilji heyra sannleikann, vilji segja sannleikann og lifa í sannleika. Það er sannleikurinn sem frelsar; sannleikurinn opnar fyrir hæsta mögulega styrk og gefur hjartanu fullt slagrými.

Sá sem vill ekki gefa sig og sleppa tökunum forðast umgjörð eins og heitan eldinn. Inn á milli, í mikilli þjáningu, kann að hugsast að hann taki skref í átt að aukinni velsæld, en þar til hann hefur náð að segja „ég elska mig samt“ mun hann ekki öðlast frekari heimild til að sækja sér velsæld og því verður viðleitni hans aðeins fálmkennd og endaslepp.

Því að við forðumst agann og umgjörðina um kraftaverkið eins og heitan eldinn – þar til við trúum því að við eigum það skilið. Við sleppum ekki tökunum á þjáningunni, refsingunni og álögunum og veljum ekki að stíga yfir þröskuld þjáningarinnar, inn í rými velsældar og kyrrðar, fyrr en við gerum það með heimild, af festu og aga, í ást.