Hvað þreytir okkur svona mikið ? - hugleiðing dagsins
Af hverju ertu svona þreytandi?
Hvað þreytir okkur svona mikið? Hver þreytir okkur svona mikið?
Það er ekki náttúrulögmál að koma þreyttur heim úr vinnunni eða skólanum – tveir einstaklingar geta unnið nákvæmlega sama starf og annar þeirra kemur úrvinda heim en hinn í fullu fjöri.
Af hverju?
„Af hverju ertu svona þreyttur?“
Þessa spurningu legg ég alltaf fyrir skjólstæðinga mína á fyrsta fundi. Og það stendur ekki á svörum: „Úff ... vinnan, börnin, makinn, félagslífið, peningaáhyggjurnar, bíllinn, íbúðin, tannréttingarnar, ríkisstjórnin, bakverkurinn, brjóstsviðinn, nágranninn, þvotta- fjallið í kjallaranum, svefnleysið, andvökunæturnar ... “
Engum dettur í hug að ábyrgðin liggi beinlínis hjá sér.
„Ertu ekki bara þreyttur af því að þú ert þreytandi?“ spyr ég í kjölfarið. Það er ekki mjög vinsæl spurning.