Brynhildur Pétursdóttir nýr gestapenni á Heilsutorgi
Brynhildur Pétursdóttir er menntaður innanhússhönnuður en þaðan lauk hún prófi árið 1993. Hún hefur einnig aflað sér menntunar sem leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands, er með BA próf í viðskiptatungumálum frá háskólanum í Óðinsvéum og með vottun í verkefnastjórnun frá símenntun Háskólans á Akureyri.
Lengst af starfaði Brynhildur hjá Neytendasamtökunum eða frá árinu 2002 til 2013 og frá 2005 sem ritstjóri Neytendablaðsins auk þess að sitja í stjórn Neytendasamtakanna frá árinu 2008. Hjá Neytendasamtökunum sinnti hún aðallega málefnum tengdum mataræði og siðrænni neyslu með góðum árangri og hefur margoft verið fyrirlesari um þau málefni til að mynda á Matvæladegi Matvæla- og næringarfræðafélagi Íslands. Brynhildur hefur einnig komið að menntamálum og það var með setu sinni í stjórn Heimils og skóla á árunum 2008-2011.
Nú er Brynhildur Alþingiskona fyrir Bjarta framtíð en hún hóf setu á þingi árið 2013 og hefur síðan setið í fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd auk tímatbundinnar setu í þingskapanefnd.
Brynhildur mun vera gestapenni á Heilsutorgi en hún lætur sér annt um málefni er snúa að neytendamálum og heilsu.
Heilsutorg býður Brynhildi velkomna í hópinn og hlökkum við til að njóta krafta hennar í framtíðinni.