VIÐTALIÐ: Hildur Harðardóttir sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir okkur frá matarsóun.is ásamt fleiru
Í tilefni opnunar á vefnum Matarsoun.is og samstarfs Heilsutorgs og Matarsóunar birtist hér viðtal við Hildi Harðardóttur sérfræðing hjá Umhverfisstofnun sem er einn af samstarfsaðilum um vefinn.
Fullt nafn: Hildur Harðardóttir
Segðu okkur aðeins frá sjálfri þér og hvaðan ert þú?
Ég er 31 árs og bý á Laugarnesvegi í Reykjavík ásamt sambýlismanni mínum. Ég er fædd og uppalin í Mývatnssveit þar sem ég bjó til 16 ára aldurs. Ég var alltaf með annan fótinn á Húsavík þar sem fjölskylda mín rekur ferðaþjónustufyrirtækið Norðursiglingu. Ótal sumur vann ég við fyrirtækið, bæði á sjó og í landi. Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Að loknu stúdentsprófi flutti ég til Svíþjóðar til þess að læra ljósmyndun í eitt ár en kunni svo vel við mig að ég ílengdist í 9 ár.
Menntun og við hvað starfar þú í dag?
Ég er umhverfisfræðingur, lauk BA prófi í mannvistfræði við Gautaborgar háskóla og meistaranámi í umhverfisfræði við Stockholm Resilience Centre hjá Stokkhólms háskóla. Ég bætti við mig einu ári í mastersnámi við Landbúnaðarháskólann í Uppsölum í ´samskipti og stjórnun í umhverfismálum´ (e. Environmental Communication and Management).
Í dag er ég sérfræðingur í neytendateymi á sviði sjálfbærni hjá Umhverfisstofnun þar sem mín helstu verkefni eru vitundarvakning um matarsóun og bætta nýtingu auðlinda.
Hver eru þín helstu áhugamál?
Umhverfismál eru eitt af mínum áhugamálum, bæði hnattrænar áskoranir sem og náttúran í mínu nánasta umhverfi. Það má segja að ég sé mjög heppin að geta unnið við eitt af mínum áhugamálum.
Ég hef gaman af því að sigla á seglskútum og hef stundað nám við Stýrimannaskólann. Ég hef einnig mikinn áhuga á tónlist, ég æfði á fiðlu í nokkur ár og í dag syng ég í kórnum Hljómfélaginu og læri einsöng við Söngskóla Sigurðar Demetz.
Átt þú bakgrunnur í íþróttum?
Ég æfði sund og skíði á yngri árum en undanfarin ár hef ég verið dugleg að leita mér að fjölbreyttri hreyfingu og nýju sporti til þess að taka upp og hef prufað allt frá brimbretti til tangó.
Segðu okkur aðeins frá vefsíðunni Matarsóun.is, hver var kveikjan og hvernig hafa viðtökur verið. Hvernig gekk að safna efni fyrir vefinn?
Síðan matarsóun.is er fræðsluvefur um matarsóun og alls konar ráð til að koma í veg fyrir slíka sóun. Kveikjan var í rauninni sú að okkur fannst vanta vettvang fyrir fræðslu um matarsóun og þá sérstaklega til að leiðbeina fólki um hvernig hægt er að minnka matarsóun. Síðan og önnur matarsóunarverkefni eru partur af bæði sóknaráætlun í loftlagsmálum og úrgangsforvarnastefnu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Viðtökur hafa verið mjög góðar og stöðug umferð um síðuna, sérstaklega eftir stórkostlega leikræna tilburði Helgu Brögu í Áramótaskaupinu 2016. Það er fátt sem kemur skilaboðum betur á framfæri en góður húmor.
Það gekk mjög vel að safna efni fyrir vefinn þar sem það er hafsjór af upplýsingum um matarsóun á öðrum tungumálum á netinu. Málið er auðvitað mjög ógnvekjandi og alvarlegt því um þriðjungur framleiddra matvæla er sóað! Það jákvæða er þó að mikil vitundarvakning hefur átt sér stað á heimsvísu á undanförnum árum um gríðarlegt umfang matarsóunar en einnig líta dagsins ljós fjöldinn allur af tiltölulega einföldum leiðum til þess að minnka sóun – bæði fyrir einstaklinga, söluaðila og framleiðendur.
Hvaða land í heiminum stendur sig einna best gagnvart matarsóun?
Frakkar og Ástralir standa sig vel samkvæmt vísitölum um sjálfbær matvæli (e. Food Sustainability Index). Danir hafa einnig náð góðum árangri og það rekja Danir að mestu leyti til einstaklingsframtaks Selinu Juul, en hún er talin hafa hjálpað Dönum að minnka matarsóun um 25% á síðastliðnum fimm árum.
Eitt af því sem Selina gerði var að sannfæra stóra matvöruverlsun (Rema 1000) um að í staðinn fyrir magnafslátt (eins og 2 fyrir 1) að veita frekar afslátt af stökum vörum. Til dæmis selja “einhleypa” banana á afslætti – átak sem minnkaði bananasóun um 90% hjá versluninni!
Sjáið þið fyrir ykkur að bæta söfnun á lífrænum úrgangi með einhverju móti því þrátt fyrir að við séum öll af vilja gerð þá fellur alltaf eitthvað til af lífrænum úrgangi heima fyrir og lífrænn úrgangur er eitthvað sem erfitt er að geyma nálæg hýbýlum fólks?
Nú þegar eru nokkur sveitarfélög að sækja flokkaðan lífrænan úrgang frá heimilum og hefur það gengið vel. Þetta snýst um að veita góða aðstöðu og að lífrænu tunnurnar séu tæmdar reglulega. Einnig geta íbúar moltugert við heimilið og ef valdar eru góðar lokaðar tunnur er hægt að moltugera mest allan lífrænan úrgang án lyktarmengunar.
Akureyrarbær er eitt af sveitarfélögunum sem sækir flokkaðan lífrænan úrgang frá heimilum og rekstraraðilum og moltugerir. Einnig hafa þeir komið upp söfnun á notaðri steikingarolíu og dýrafitu frá mötuneytum, veitingahúsum, rekstraraðilum og heimilum sem fer í framleiðslu á lífdísil.
Er eitthvað eitt sem allir geta gert til að draga úr matarsóun?
Vera skipulagðari í innkaupum! Það þýðir að leggja á minnið það sem til er í skápunum heima, kaupa einungis það sem vantar og hugsa nokkrar máltíðir fram í tímann. Útkoman er oft kreatívar máltíðir og maður sparar hellings pening.
Hvernig gætu verslanir unnið meira/betur gegn því að henda matvælum?
Veita góðan afslátt af vörum sem eru komnar á “Best fyrir” dagsetningu og grænmeti sem er orðið þreytt eða útlitsgallað. Verslanir gætu líka gert kröfur á framleiðendur að slaka á útlitsstöðlum hvað varðar grænmeti og ávexti. Það væri líka flott að sjá verslanir gefa það sem ekki selst til góðgerðarmála og koma restinni sem er ekki lengur hæf til neyslu í moltugerð.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum?
Egg, majónes og smjör!
Hver er þinn uppáhalds matur & matsölustaður?
Ég er mikið fyrir sterkan mat, sérstaklega indverskan og thaílenskan. Tveir góðir í þeirri deildinni er Holy Cow og Koh Phangan í Stokkhólmi. En ég kann einnig mjög vel að meta alla flóruna af fiskveitingastöðum á Íslandi.
Ert þú að lesa eitthvað þessa dagana og hver er ein besta bók sem þú hefur lesið?
Ég las síðast Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson og mér þykir alltaf mjög vænt um Sjálfstætt fólk eftir Laxness.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú?
Þá fer ég út að borða og á góða tónleika.
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni?
Mér finnst mikilvægt að minna sjálfa mig á að maður tekur bara eitt skref í einu. Þó það sé nauðsynlegt að hafa heildaryfirsýn og fókus á loka takmarkinu þá getur verið truflandi að vera alltaf með hugann við stóru myndina. Mér finnst gott að einbeita mér að smærri áföngum sem hver um sig er mikilvægur í heildarmyndinni.
Hvar sérð þú sjálfa þig fyrir þér eftir 5 ár?
Ég verð enn að starfa við áhugamál mitt og vinna að krefjandi og spennandi verkefnum.