Ég ætti eða ég ÆTLA.
Ég fæ oft spurningar frá fólki um það hvernig það ætti að koma sér af stað.
„Hvernig get ég komið mér í form? Hvað þarf ég að gera til þess að léttast?“
Fyrsta skrefið er alltaf hjá þér. Þú verður að ákveða að nú ÆTLAR þú að koma þér af stað. Þú ÆTLAR að koma þér í form og þú ÆTLAR að taka til í mataræðinu. Sem þjálfari þá hef ég oft notast við tilvitnun úr Star Wars sem litli vinur okkar allra segir „Do or Do not - there is no try.“ Þetta er nákvæmlega málið en það er annað sem mig langar að tala um. Ætti ég, eða Ætla ég?! Hversu oft hefur þú setið í sófanum, að horfa á góða mynd með kók í annarri og skál af snakki hjá þér og þú hugsar „ég ætti nú að fara að hugsa betur um mataræðið“. Svo færðu þér snakk, sérð einhvern úti að hlaupa og þú hugsar „ég ætti að skella mér út að hlaupa um helgina, reyna að koma mér í form“ svo fer helgin í það að liggja og horfa á enska boltann.
Hættu að hugsa um hlutina „ég ætti kannski að…“ og farðu að farðu að hugsa „ég ÆTLA AÐ...“. Taktu skrefið, farðu á eftir því sem þú þarft að gera.
Það er alveg klárt mál að þú hefur heyrt það ótal sinnum að til þess að grenna sig þá er það 75 – 80% mataræðið sem þarf að vera í lagi. Hreyfingin skiptir líka miklu máli til að vera í góðu standi en fyrsta skrefið hjá þér ætti að vera að laga mataræðið. Þrátt fyrir að þú vitir þetta, þá kemur það fyrir á næstum hverjum einasta degi að einhver segir við mig „ég veit að ég ÆTTI að vera að borða svona mat og ég ÆTTI að gera svona æfingar en finn ekki hvatninguna eða góðar upplýsingar.“
Netið í dag er fullt af upplýsingum um það sem þú leitar að, og hvatningin ætti ekki að vera vandamál. Það ætti að nægja að hugsa um fjölskylduna, að geta leikið við krakkana sína, geta farið í bolta með vinum, geta gengið á fjöll. Hvatning og upplýsingar eru út um allt!
Þú þarft að ákveða að þú ÆTLIR að breyta um lífsstíl. Ég get sýnt þér leiðina en þú tekur skrefin.
Ef þú villt líta vel út og hugsa um heilsuna þá þarf mataræðið að vera í lagi.
„Ég ÆTTI að (borða betur/borða minna/borða hreinna) er gagnslaus hugsun sem mun ekki hjálpa þér neitt…. HÆTTU AÐ SEGJA ÆTTI
Ekki á morgun, ekki í kvöld heldur NÚNA. Tækifærið þitt er NÚNA og ég ætla að gefa þér nokkra punkta.
- Byrjaðu á því að skrá niður þann mat sem þú ert veik/ur fyrir. Maturinn sem þú ert sjúk/ur í. Þetta er maturinn sem þú veist að ef þú byrjar á því að fá þér þá hættir þú ekki fyrr en það er búið. Þetta er fæðan sem þú ætlar að útiloka.
- Ef þú veist hvaða fæða það er sem fer svona illa í þig, settu þá regluna að þessi matur sem þú settir á listann er „forboðni ávöxturinn“ þetta er maturinn sem verður ekki keyptur.
- Þetta er ekki spurning um viljastyrk. Þetta er einfaldlega bara það sem þú ert að gera NÚNA
- Ef þig langar til þess að fara að borða hollan og góðan mat og þú veist hvaða matur það er sem fer illa með þig, þá verður þú að gera þennan lista sem segir til um hvað þú mátt borða og hvað er bannað. Ef þú ert eins og næstum allir aðrir, átt erfitt með að hemja þig þegar kemur að óhollum mat þá er bara „einn biti, eitt súkkulaði“ reglan ekki í boði!
- Ef þú ert búin/n að gera listann þá er komið að því að hreinsa til, farðu í skápana þína, ísskáp, frysti, kex skúffuna, hreinsaðu út allt það sem er bannað á listanum þínum.
Ég sé alveg fyrir mér það sem þú ert að hugsa núna „en ég er búin/n að borga fyrir þetta, það er alveg eins gott að ég klári þetta bara“ Ef þér er alvara um að hreinsa til þá er þetta bara fórnarkostnaðurinn, gefðu nágrönnunum þetta, gefðu þetta í Hjálparstofnun kirkjunnar - komdu þessu bara frá þér.
„En ég hef bara ekki efni á því að borða hollt, það er rándýrt.“ Er það í alvöru málið? Ertu búin/n að reikna út hvað þú eyðir miklu í gos, snakk, nammi, pylsur og annað sjoppufæði í viku hverri? Maður þarf aðeins að hugsa fram í tímann og lesa sér til og þá sérðu að það er ekkert of dýrt að borða hollt.
Ekki reyna að finna endalaust upp nýjar afsakanir fyrir því að komast ekki í ræktina. Ég hef heyrt þær allar og þær virka bara ekki. Eins og staðan er í dag þá eru líkamsræktarstöðvar opnar langt fram eftir kvöldi, þær bjóða flestar upp á barnagæslu, þær bjóða upp á að fá aðstoð í salnum með þjálfara, þær bjóða upp á námskeið og opna tíma. Ekki nóg með það heldur býður okkar fallega land upp á frábæra náttúru, frábært loftslag og besta vatn í heimi til að taka með sér í göngutúr, á skokkið eða út að hjóla.
Hver sem segir að það sé ekki hægt að finna sér tíma til að æfa er hreinlega í bullinu. Æfingar í dag þurfa ekki að taka meira en 20 – 40 mínútur. Þú gætir þurft að fara á æfingu snemma um morguninn, í hádeginu, seinni partinn eða hreinlega þegar krakkarnir eru sofnaðir. Hverju jafngildir ein æfing? Til dæmis einum sjónvarpsþætti! Er það mikil fórn? Meira að segja hérna á Íslandi þarftu að sætta þig við auglýsingar inn í miðjum þætti eða kvikmynd. Nýttu þér það! Í hverju auglýsingarhléi geturðu til dæmis tekið 5 armbeygjur, 10 hnébeygjur og 10 kviðæfingar í staðinn fyrir að skipta um rás og leita að nýju efni.
ÞAÐ ER ALLTAF TIL TÍMI TIL AÐ ÆFA!
Núna þegar þú veist að þú HEFUR tíma til að æfa þá þarf að skipuleggja sig því þú vilt ekki byrja of geyst og gefast upp. Þú vilt gera þetta að lífsstíl, þú vilt sjá árangur en hann kemur ekki á einni viku! Það þarf þrautseigju og vilja til að halda út.
- Byrjaðu rólega – byrjaðu á því að fara út að ganga í 10 mínútur á hverjum degi, gerðu 5 armbeygjur og hnébeygjur – fyrsta skrefið er það erfiðasta. Þegar þú ert komin/n af stað þá bætir þú í.
- Búðu til stundaskrá. Hvenær hefur þú tíma til að fara á æfingu? Stundum kemstu að morgni til og stundum að kvöldi. Gerðu stundaskrána og farðu eftir henni rétt eins og þú þarft að mæta á fund einn daginn og næsta dag þarftu að halda fyrirlestur. Þú skrópar ekki í vinnuna, af hverju ættirðu að skrópa á æfingu?
- Breyttu hugsunarhættinum. Þú veist það að þú átt eftir að fá harðsperrur þegar æfingarnar verða erfiðari, ekki hugsa um þær sem slæman hlut, líttu á þetta þannig að þú veist að þú varst að taka á því, þú ert að gera eitthvað gott fyrir sjálfa/n þig. Hugsaðu um hvað æfingarnar gera þér gott og hvað það getur verið slæmt fyrir þig að sleppa æfingu.
Hvernig getur það verið slæmt fyrir mig að sleppa æfingu?
- Taktu ábyrgð á þínum æfingum, láttu fólk vita, fáðu vin eða vinkonu með þér í lið. Gefðu honum eða henni 10.000 kr. Þú þarft svo að láta hann eða hana vita í hvert skipti sem þú ferð á æfingu eftir stundaskrá Ef þú lætur vita þá færðu 500 kr. til baka, ef þú sleppir æfingu þá fær hann eða hún 500 kr.
- Fáðu einhvern með þér á æfingu. Þannig er komin ábyrgð og hvatning til þess að fara á æfingu. Vinur eða vinkona mun segja við þig „hey, áfram með þig! Þú færð ekkert að sleppa í dag!
- Settu þér markmið, Draumamarkmið, Langtímamarkmið og Skammtímamarkmið. Settu þér reglur um hversu oft þú ætlar að æfa í hverri viku. Þetta er algjörlega undir þér komið.
Það að breyta um lífsstíl getur verið krefjandi og erfitt en það að komast í betra form getur hjálpað þér með svo margt. Aukið sjálfstraust og sjálfsöryggi, bætt líðan, bætt kynlíf… þarf fleiri ástæður??
Ef þig vantar aðstoð þá er ég til staðar fyrir þig. Ég hef fulla trú á þér og er tilbúinn til þess að hjálpa þér að finna réttu leiðina en ÞÚ ÞARFT AÐ TAKA SKREFIN!
Guðmundur Hafþórsson, Íþróttafræðingur og einkaþjálfari