Naanbaka með mangókjúkling og spínati frá Eldhúsperlum
Hér er á ferðinni alveg brjálæðislega góður og djúsí skyndi helgarmatur sem varð til alveg óvart í eldhúsinu hjá mér um daginn.
Þetta er svona – það var ekkert til en ég nenni ekki að fara og kaupa neitt en allir eru mjög svangir – máltíð. Þá gerast nú oft undrin.
Ég mæli hiklaust með réttinum og get ekki beðið eftir að elda þetta aftur.
Naanbaka með mangókjúkling og spínati (fyrir 3-4)
- Tvo stór naanbrauð (ég notaði Stonefire hvítlauks naan, fást t.d. í Hagkaup)
- 2 msk smjör
- 700 gr úrbeinuð kjúklingalæri, krydduð með kjúklingakryddi og karrýi eftir smekk (ég mæli með Deluxe karrýi frá Pottagöldrum)
- 2 msk ólífuolía,
- 1 dl mangóchutney
- 1 dl kjúklingasoð (vatn og kraftur, ég nota alltaf fljótandi Oscar kraft)
- 1 tsk Sambal oelek chillimauk (má sleppa ef þið viljið alls ekki sterkt)
- 2 góðar handfyllir ferskt spínat
- 200 gr rifinn ostur (1 poki, má líka nota meira)
- Ofaná: 1 rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar, fersk steinselja eða kóríander og jógúrtsósa, ég notaði tilbúna jógúrt sósu frá Gott í kroppinn með hunangi og dijon.
Aðferð:
Hitið ofn í 180 gráður. Leggið naanbrauðið á ofnplötu. Skerið kjúklinginn í litla munnbita. Hitið pönnu með ólífuolíu, kryddið kjúklinginn vel með góðu kjúklingakryddi og karrý og steikið. Þegar kjúklingurinn hefur brúnast vel bætið þá mangóchutney og kjúklingasoði á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og sósan hefur þykknað aðeins, ca. 10 mínútur (það á ekki að vera mikil sósa). Smakkið til með salti og pipar og chillimaukinu.
Smyrjið naanbrauðin með smá smjöri og skiptið spínatinu jafnt á bæði brauðin. Hellið því næst kjúklingnum ofan á spínatið og toppið með vel af rifnum osti. Bakið í um 15 mínútur. Þegar komið úr ofninum leggið þá þunnar rauðlaukssneiðarnar yfir og skreytið með smá saxaðri steinselju eða ferskum kóríander og jógúrtsósu.
Uppskrift: eldhusperlur.com