Embætti Landlæknis leggur til að stjórnvöld hækki álögur á gosdrykki umtalsvert
Embætti landlæknis leggur til að stjórnvöld hækki álögur á gosdrykki þannig að þeir séu a.m.k. skattlagðir í samræmi við almenna skattheimtu í landinu, þ.e. beri 24% virðisaukaskatt í stað 11%.
Einnig ætti að leggja vörugjöld á gosdrykki þannig að hækkunin nemi a.m.k. 20% í heildina.
Fjármuni sem koma inn mætti nýta til að lækka álögur á grænmeti og ávexti. Einnig ætti að eyrnamerkja hluta af álögunum fyrir starf á sviði heilsueflingar eins og gert er með gjöld á tóbak og áfengi. Þannig gætu stjórnvöld skapað aðstæður sem hvetja til heilbrigðari lifnaðarhátta og aukið jöfnuð til heilsu.
Samhliða slíkri skattlagningu er mikilvægt að upplýsa almenning um heilsufarslegan ávinning af minni sykurneyslu. Einnig er mikilvægt að fylgjast með og meta hvaða áhrif skattlagningin hefur á neysluvenjur.
Forsendur
Embætti landlæknis telur ekki fullreynt með sérstakar álögur á gosdrykki og því eru ofangreindar tillögur settar fram, enda er neysla á gosdrykkjum óhóflega mikil hér á landi og mun meiri en á hinum Norðurlöndunum.
Sykraðir gos- og svaldrykkir vega þyngst í sykurneyslunni, en rúmlega þriðjungur (34%) af viðbættum sykri í fæði landsmanna kemur úr þessum vörum. Verð á gosdrykkjum er lágt á Íslandi og lækkaði enn frekar þegar vörugjöld voru afnumin í byrjun árs 2015. Þá lækkaði ákveðinn tveggja lítra gosflaska um tæplega 14% samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar.
Ísland er trúlega eitt fárra vestrænna ríkja þar sem verð á gosdrykkjum hefur lækkað undanfarin ár. Samkvæmt niðurstöðum norrænnar vöktunar á mataræði, hreyfingu og holdafari er mest neysla á sykruðum gosdrykkjum og sykurríkum vörum á Íslandi samanborið við hin Norðurlöndin.
Hlutfall of feitra er sömuleiðis hæst á Íslandi í sömu rannsókn. Neysla á sykurríkum vörum eykur líkur á offitu og tannskemmdum og mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur auk þess aukið líkur á sykursýki af tegund 2.
Ný skýrsla frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO)
Í nýrri skýrslu frá WHO kemur fram að það sé vaxandi vísindalegur grunnur fyrir því að vel skipulagðir skattar á matvæli, ásamt fleiri aðgerðum, geti verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur. Skattlagning ætti því að vera ein af forgangsaðgerðum stjórnvalda til að fyrirbyggja langvinna sjúkdóma.
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að það sé mestur ávinningur af skatti á sykraða drykki og hann þurfi að vera áþreifanlegur og hækka verð um a.m.k. 20%. Þar kemur einnig fram að 20% skattur geti minnkað neyslu um 20%.
Þetta er í samræmi við niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem gerð var hér á landi af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (H.Í.) og Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við H.Í., kynnti á málþingi í H.Í. þann 3. janúar sl.
Sú rannsókn sýndi að verðteygni gosdrykkja er tæplega 1%, sem þýðir að fyrir hverja prósentuhækkun á gosdrykkjum minnkar neyslan um 1%. Á sama málþingi kynnti Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri næringar hjá Embætti landlæknis, hugsanlegan ávinning af skattlagningu gosdrykkja, sjá ítarefni.
Einnig kemur fram í skýrslu WHO að sterkur vísindalegur grunnur sé fyrir því að 10-30% lækkun á álögum á hollum vörum eins og ávöxtum og grænmeti geti verið áhrifarík leið til að auka neyslu á þessum fæðutegundum.
Reynsla annarra
Í Berkeley í Kaliforníu voru lögð á vörugjöld, 40 kr. á lítra, á drykki með viðbættum sykri í mars 2015. Niðurstöður rannsóknar um áhrif þessarar skattlagningar, sem birtust í American Journal of Public Health í ágúst 2016, sýna að neysla á sykruðum gosdrykkjum dróst saman um 26% en vatnsdrykkja jókst umtalsvert.
í Mexíkó voru vörugjöld, 6 kr. á lítra, lögð á sykraða drykki í byrjun árs 2014, sem samsvöruðu um 10% hækkun. Niðurstöður, sem birtar voru í tímaritinu British Medical Journal í janúar 2016, sýndu að neyslan minnkaði um 12% fyrsta árið eftir að vörugjöldin voru lögð á. Minnkunin var meiri meðal tekjulágra eða um 17%.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir
sviðstjóri áhrifaþátta heilbrigðis
Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjóri næringar
Elva Gísladóttir
verkefnisstjóri næringar
Af vef landlaeknis.