Fara í efni

Fótaóeirð - þekkir þú einkennin ?

Einkenni fótaóeirðar geta valdið erfiðleikum við að festa svefn og einnig uppvöknunum.
Fótaóeirð - þekkir þú einkennin ?

Einkenni fótaóeirðar

Einkenni fótaóeirðar geta valdið erfiðleikum við að festa svefn og einnig uppvöknunum. Allt að 80% einstaklinga með fótaóeirð hafa einnig svokallaðar lotubundnar hreyfingar í útlimum á meðan sofið er. Þetta eru vægir vöðvakippir sem koma venjulega með 20 til 30 sekúndna millibili í lotum alla nóttina og geta valdið því að viðkomandi rumskar og vaknar upp. Ef þú átt í erfiðleikum með að festa svefn eða ert að vakna upp á næturnar getur það valdið því að þú ert bæði óeðlilega þreytt(ur) og átt í erfiðleikum með einbeitingu á daginn. Viðvarandi svefnleysi og syfja á daginn getur haft áhrif á einbeitingu, afköst þín í vinnu, á frístundir og félagsstarf og getur valdið skapsveiflum sem aftur hafa áhrif á samskipti þín við aðra.

Greining fótaóeirðar

Greining fótaóeirðar byggist á 4 spurningum sem sjúklingur þarf að svara játandi:

  1. Þörf fyrir að hreyfa fætur, vegna eða samhliða óþægindum eða skrýtinni tilfinningu, pirringi í fótum.
  2. Þörf fyrir að hreyfa sig eða óþægindi, skrýtin tilfinning kemur eða versnar eftir kyrrstöðu eða hreyfingarleysi eins og þegar legið er út af eða setið.
  3. Þörf fyrir að hreyfa sig eða óþægindi, skrýtin tilfinning sem lagast að hluta eða alveg við að hreyfa sig. Eins og við að ganga eða teygja úr sér a.m.k. jafn lengi og hreyfing á sér stað.
  4. Þörf fyrir að hreyfa sig eða óþægindi, skrýtin tilfinning sem er verri að kvöldi eða um nótt en að degi til eða kemur eingöngu fyrir á kvöldin eða nóttinni.

Greining byggir á jákvæðu svari við öllum 4 spurningunum. Greining er líkleg ef jákvætt svar fæst við 3 af 4 spurningunum.

Almennt um fótaóeirð

  • Erfiðleikar við að festa svefn og svefnrof.
  • Allt að 80% hafa lotuhreyfiröskun útlima í svefni (PLMS).
  • Lotuhreyfiröskun útlima í svefn truflar oft svefn rekkjunautar.
  • Flestir greinast á miðjum aldri en einkenni geta byrjað á bernskuárum.
  • Margir hafa fjölskyldusögu um sjúkdóminn.

Fótaóeirð af öðrum orsökum

Fótaóeirð getur verið fylgikvilli annara sjúkdóma eða ástands:

  • Meðgöngu, allt að 15% kvenna fá einkenni fótaóeirðar á meðgöngu.
  • Blóðleysis t.d. vegna járnskorts.
  • Nýrnabilunar.
  • Taugaskemmda í útlimum.
  • Sykursýki.
  • Ákveðin lyf geta aukið einkenni fótaóeirðar

Meðferð

Aðal markmið við meðferð sjúkdóma, þar með talin meðferð á fótaóeirð, er að ná sem mestum árangri með lágmarks áhættu. Markviss meðferðaráætlun tekur þannig mið af ávinningi og áhættu og byrjað er á áhættuminnstu meðferðinni. Eðlilegast er að byrja á því að meðhöndla undirliggjandi sjúkdóma ef þeir eru til staðar og breyta líferni ef ástæða er til.

Ef frumorsök fótaóeirðarinnar er járn- eða vítamínskortur, þá geta viðbótarskammtar af járni, B-12 vítamíni eða fólinsýru verið nægilegir til að meðhöndla sjúkdóminn.Vegna þess að jafnvel litlir skammtar af einstökum steinefnum (t.d. járni, magnesíum, kalíum, og kalsíum) geta truflað líkamsstarfssemi eða valdið eitrunareinkennum er ráðlagt að nota einungis járn og steinefni í samráði við lækni. Mælt er með að járnbúskapur sé kannaður og járnmeðferð er ráðlögð ef járnbirgðir eru of lágar.

Ákveðin lyf eru talin geta aukið einkenni fótaóeirðar. Þessi lyf eru t.d. kalsíum blokkarar (notuð til að meðhöndla háan blóðþrýsting og hjartasjúkdóma), flest lyf við ógleði, sum lyf við kvefi og ofnæmi, sterk geðlyf eins og geðrofslyf, phenytoin og flest lyf sem notuð eru við þunglyndi.

Meta þarf hjá hverjum einstaklingi hvort ákveðnir lífshættir eða neysluvenjur auka á eða draga úr sjúkdómseinkennum. Heilsusamlegt og fjölbreytt fæði er mikilvægt til þess að draga úr fótaóeirðareinkennum. Þó koffeinneysla kunni að virðast draga úr einkennum til að byrja með þá gerir hún það að verkum að einkenni koma seinna fram á hverjum degi og verða oftast verri. Best er því að forðast koffeinneyslu með öllu, þar með talið kaffi, te, súkkulaði og neyslu allra drykkja sem innihalda koffein. Áfengisdrykkja veldur því að einkenni versna og vara lengur, best er því að forðast neyslu áfengis eins og kostur er.

Þar sem þreyta og syfja geta aukið á einkenni fótaóeirðar, ætti fyrsta skrefið til að draga úr einkennum að vera góðar svefnvenjur. Þér gæti fundist að þú náir betri nætursvefni ef þú ferð seinna að sofa og seinna á fætur ef aðstæður leyfa, t.d. gæti verið betra fyrir þig að sofa frá klukkan 2 eftir miðnætti til klukkan 10 fyrir hádegi. Sumum finnst gott að gera léttar æfingar í nokkrar mínútur áður en farið er í háttinn.

Ýmsar athafnir sem vinna gegn einkennum fótaóeirðar hafa reynst árangursríkar við að halda aftur af einkennunum þó það sé aðeins í skamman tíma. Þér gæti t.d. fundist gagnlegt að ganga, gera teygjuæfingar, fara í heit eða köld böð, nudda útlimi, nota heita eða kalda bakstra, gera slökunaræfingar, stunda hugleiðslu eða jóga. Mörgum fótaóeirðarsjúklingum reynist erfitt að sitja kyrrir t.d. á ferðalögum og finnst þá hjálpa að halda huganum við einhver verkefni eins og samræður eða rökræður, einnig að gera hluti sem krefjast einbeitingar s.s. að sauma út eða spila tölvuleiki.

Því miður er það oft þannig að einkenni fótaóeirðar minnka ekki þrátt fyrir meðferð á þeim kvillum sem valda eða auka á einkennin né við breytingar á lífsstíl. Einnig geta einkennin versnað smám saman með tímanum. Ef þannig háttar getur lyfjameðferð reynst nauðsynleg.

Lyfjameðferð

Fyrsta val við meðferð á fótaóeirð eru lyf sem auka á virkni dópamínviðtaka í miðtaugakerfinu, svo sem rópíníról (Requip-Adartrel), pramipexol (Sifrol) (pramipexol) og Permax (pergólíð), en einnig lyf eins og Sinemet (carbidopum/levodopum) sem auka magn dópamín. Nýlega hafa tvö af þessa lyfja rópínírol og pramipexol verið viðukennd af lyfjayfirvöldum sem meðferðaúrræði við fótaóeirð.

Upplýsingar þessar eru unnar að hluta úr bæklingnum “Að búa við fótaóeirð”.

Grein af vef doktor.is