Heilsuspillandi áhrif vegna saurmengunar í sjó og baðvatni
Vegna frétta undanfarið um saurmengun á ströndum Reykjavíkur vegna bilunar í dælustöð í Faxaskjóli vill sóttvarnalæknir taka fram að sýkingarhætta af völdum slíkrar mengunar getur verið margvísleg.
Hættan fer eftir því hvaða sýklar (bakteríur, veirur og sníkjudýr) eru í menguninni og í hversu miklu magni þeir finnast.
Saurmengaður sjór og baðvatn getur valdið sýkingu í húð og einnig almennum veikindum, sérstaklega meltingarfæraeinkennum, ef hann nær að menga matvæli og drykkjarvatn.
Sóttvarnalæknir hefur upplýst lækna á höfuðborgarsvæðinu um ofangreinda sýkingarhættu og beðið þá um að tilkynna um veikindi sem rekja má til mengunarinnar. Engar tilkynningar um slík veikindi hafa hins vegar borist til sóttvarnalæknis.
Sóttvarnalæknir hvetur almenning til að vera á varðbergi gagnvart mengun í sjó og við strendur. Fari mengun fram úr viðmiðunarmörkum ætti ekki að stunda sjóböð að óþörfu. Gæta þarf að því að hlutir á ströndum geta einnig verið mengaðir og því þarf að handfjatla þá með varúð.
Rétt er að taka fram að mengun í Nauthólsvík hefur ekki farið yfir viðmiðunarmörk þann tíma sem bilunin í Faxaskjóli hefur staðið.
Upplýsingar um vöktun strandsjávar Opnast í nýjum glugga ásamt upplýsingum um við gæði sjávar við strendur í Reykjavík má finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Sóttvarnalæknir
Af vef landlæknir.is