Hvað getur þú gert sem neytandi til að draga úr matarsóun?
Hvað getur þú gert sem neytandi til að draga úr matarsóun?
Nú skulum við skoða aðeins hvað við getum gert til að draga úr matarsóun og hér koma
frábærar upplýsingar frá matarsoun.is. Listinn er lengri en þú heldur og birtum við áframhaldandi
lista í næstu viku - Fylgist vel með.
Þessi grein er eftir Selina Juul, stofnanda samtakanna Stöðvum matarsóun (Stop spild av mad).
Samtökin eru stærstu óháðu samtök Danmerkur sem vinna gegn matarsóun – http://www.stopspildafmad.dk
Hvað er hægt að gera heima fyrir?
Passaðu upp á að hafa „flæði“ í kæliskápnum, frystinum og eldhússkápum. Stilltu elstu matvælunum og
þau sem hafa verið opnuð fremst, helst í augnhæð svo þú hafir gott yfirlit og notir þau fyrst.
Hafðu afgangana þína áberandi
Settu afgangana á áberandi stað. Gerðu það að vana að nota afganga í alla matargerð, hvort sem um er að ræða venjulegan heimilismat eða veislumat. Matarafgangar eiga að geymast en ekki að gleymast.
Geymdu því alla afganga á áberandi stað í kæliskápnum þannig að þú sért ávalt vakandi yfir hvað sé til og
getir notað þá í nýja rétti eða sem nesti.
Afgangar eru ókeypis matur
Breyttu viðhorfi þínu gagnvart afgöngum. Matarafgangar eru ekki „refsing“ heldur gróði.
Þegar þú manst eftir að nota afganga þá spararðu þér ferð út í búð. Jafnframt lækka
heimilisútgjöldin og þú stuðlar að bættu umhverfi.
Kæliskápurinn er ekki ruslatunna
Í yfirfullum kæliskáp liggur matarsóunargildran í leyni því þú veist ekkert hvað þar er að finna.
Hafðu rúmt um matvælin í kæliskápnum þannig að þú hafir góða yfirsýn yfir þau. Með því að
hafa rúmt um matvælin þá flæðir kalda loftið mun betur um kæliskápinn og heldur matnum eins
og hann á að gera, köldum. Gættu fyllsta hreinlætis og mundu að afþýða kæliskápinn og
frystinn reglulega.
Notaðu réttar geymsluaðferðir
Ekki geyma avokadó, tómata og banana í kæliskápnum svo dæmi sé tekið. Hægt er að
nálgast góð ráð um geymslu matvæla á síðunni http://www.stopspildafmad.dk
Hafðu yfirsýn yfir endingu matvælanna
Matvæli sem eru merkt með „síðasta söludegi“ (notað m.a. á ferskar kjötvörur og nýjan fisk) á helst ekki að neyta eftir að þær eru útrunnar. Matvæli sem eru merkt með „best fyrir“ eða
„geymsluþol til“ (notað m.a. á pasta, hrísgrjón, hrökkbrauð, súkkulaði og fleira), er í góðu lagi að
neyta eftir uppgefna dagsetningu. Ef þú ert í vafa um hvort slík matvæli séu í lagi, þá er hægt
að þefa af þeim eða smakka.
Losaðu þig við óttann um að þú eigir ekki nægan mat
Margir hafa tilhneygingu til að elda of mikið, hvort sem um er að ræða venjulegan heimilismat
eða veislumat. Barnafjölskyldur elda til að mynda að öllu jöfnu 30% meiri mat en þær þarfnast.
Mikilvægt er að reikna út skammtastærðir áður en þú eldar. Fullorðinn einstaklingur getur til að
mynda borðað 500-800 grömm af matvælum, að brauði þar með meðtöldu.
Olnbogarými – notaðu smærri diska og smærri matarföt
Hægt er að koma í veg fyrir að þú eða ruslafatan þín „borði yfir sig.“ Síðastliðin 20 ár hafa matardiskar
farið stækkandi – eins og klárlega má sjá á mittismáli margra landsmanna.
Ekki bera allan matinn fram í einu
Berðu matinn fram í smærri einingum og bættu svo við eftir því sem þurfa þykir og matur
klárast. Ástæðulaust er að láta allt sem þú eldaðir standa frammi á borðum í langan tíma,
við það missir maturinn gæði. Þetta á jafnt við um heimilismat sem og veislumat. Matvæli ættu
yfirleitt ekki að standa á borðum lengur en í tvo tíma, sérstaklega ef þú ætlar að nota afgangana
síðar. Sum matvæli svo sem rækjur og síld, þarf að setja sem allra fyrst aftur í kæliskápinn.
Afgangarnir eiga að fara sem allra fyrst í kæliskápinn
Það er ekki gott að láta matvæli standa uppi á borðum í fleiri klukkutíma.
Blandaðu sem minnst af matvælunum saman
Ef við hugsum út frá afgöngum þá er ekki gott að blanda matvælum saman, því þá geymast þau verr.
Berðu salatið og rækjurnar fram í sitt hvoru lagi. Það sama á reyndar einnig við um spaghettí og hakk
ásamt fjölmörgum öðrum matvælum.
Upphitun matvæla
Hér er mjög mikilvægt að vanda sig. Ef þú átt afgang af pottrétti þá er nauðsynlegt að rétturinn sé hitaður
upp í að minnsta kosti 75 gráður. Að öllu jöfnu er hægt að geyma matarafgangana í um 3-4 daga
að hámarki í kæliskáp.
Bjargaðu matnum þínum
Flestalla matarafganga er hægt að frysta. Skiptu afgöngum upp í hæfilegar skammtastærðir og
frystu þá. Brauð er fínt að skera niður í sneiðar og frysta. Þú getur líka fryst rjóma. Pakkaðu
kryddjurtum, grænmeti, ávöxtum og osti í hæfilega skammta og frystu þá. Passaðu bara vel upp
á að hafa yfirlit yfir það sem er í frystinum. Merktu pakkningarnar með innihaldi og dagsetningu
og mundu svo eftir að nota þær.
Afgangarnir eiga að vera lystugir þegar þú berð þá fram
Flestum og þá sérstaklega börnum finnast matarafgangar óspennandi. Notaðu hugmyndaflugið
og nýttu afgana í nýja og spennandi rétti. Mundu bara eftir að framreiða þá sem lostæti.
Afgangar eiga að líta vel út og vera girnilegir hvort sem þeir eru bornir fram á borð eða notaðir sem nesti.
Búðu til einn fastan dag í viku fyrir afganga
Þú getur valið sunnudaga eða einhvern annan dag. Á þessum tiltekna degi nýtir þú allar kræsingarnar
sem þú hefur safnað saman yfir vikuna. Reyndu líka að klára allt sem þú átt í kæliskápnum og frystinum
áður en kemur að stórhátíðum. Þú þarft að eiga nóg pláss fyrir alla flottu matarafgangana sem falla til á
þessum hátíðisdögum.
Notaðu allan gænmetisúrgang til að búa til seyði eða grænmetiskraft
Hægt er að nota allar gerðir af laukhýði, gulrótarafganga, hvítlaukshýði, þvegið kartöfluhýði,
restar af selleríinu, púrrulaukstoppana, tómata og gúrkuafganga til að sjóða upp grænmetiskraft
úr þessum úrgangi.
Hafðu fullt af margskonar ílátum í eldhúsinu
Þú þarft á þeim að halda undir matarafganga. Hafðu líka rúllu af frystipokum liggjandi á áberandi
stað í kæliskápnum. Í rúllunni felst stöðug áminning um að nota hana undir alla afganga.
Slepptu því að borða myglaðan mat
Jafnvel þó að brauðsneiðin sé bara rétt farin að mygla öðru megin, þá verður þú því miður að henda
henni. Ef eitthvað af matvælunum er farið að mygla, þó ekki sé nema lítillega, þá eru miklar líkur á að
myglan hafi dreift sér. Í þessu tilfelli þýðir hvorki að þefa né að bragða á matvælunum.
Slíkum matvælum verður því miður að henda strax.
Fylgist með í næstu viku – fleiri punktar um hvernig á að minnka matarsóun!