Hvaða áhrif hefur það á mig að eiga systkin í neyslu?
Hvaða áhrif hefur það á einstakling að eiga systkin sem neytir fíkniefna? Hvernig má aðstoða foreldra barna sem eiga barn/börn í eiturlyfja neyslu?
“17 ára unglingsstúlka í neyslu til nokkurra ára, hefur ítrekað verið týnd, komið heim í fylgd lögreglu, er skapstór á heimilinu og hefur enga þolinmæði fyrir systkini sitt sem er sjö ára. Litla sjö ára krílið hefur verið með áhyggjur af systur sinni þegar hún hefur verið týnd og er hrædd við hana því hún er oft svo reið. Krílið þarf stöðugt að vera í pössun hér og þar því mamman er að leita af systurinni eða að heimsækja hana inn á spítala, þess á milli er mamma oft grátandi og hún ekki lengur glöð. Líðan móðurinnar gerir systkinið óöruggt og kvíðið, þessi líðan birtist í því að þetta kríli er farið að einangra sig og er að lenda í útistöðum við félagana í skólanum”
Systir um fertugt segir: “ Vá hvað ég vildi að við hefðum fengið hjálp fyrir 20 árum, lífið hefur alltaf snúist um hana systur mína og ég hélt mér alltaf til hliðar til þess að foreldrar mínir þyrftu aldrei að hjálpa mér eða að hafa áhyggjur af mér, ég passaði mig á því að þau þyrftu ekki að sinna mér en var samt alltaf sár og reið og sár yfir því. Samskipti mín við foreldra mína voru alltaf þannig að ég var að styðja þau og hjálpa þeim og ég hef verið meðvirk systur minni til að þóknast þeim og til að valda þeim ekki frekari kvíða.”
Börn sem eiga systkini í neyslu upplifa oft aðstæður sem við viljum helst ekki að börn upplifi, þessar aðstæður geta verið mjög mismunandi og langur listi að telja upp en það algengasta er að allir séu í uppnámi vegna þess að systkinið sem er fíkill er týnt, fíkillinn er að ógnandi á heimilinu eða að beita foreldra ofbeldi, fíkillinn er að brjóta hluti heima eða stela hlutum heima (stundum frá systkinum sínum).
Unglingur í neyslu fer oftast ekki eftir reglum heimilisins né lögum landsins, þeir skeyta skapi sínu á sínum nánustu og geta verið mjög orðljótir, þar með eru þeir ekki góð fyrirmynd yngri systkina, þetta leiðir líka oftast til rifrilda á heimilinu og þá taka yngri systkinin oftast afstöðu og skipa sér í lið. Unglingar í neyslu þurfa að búa sér til réttlætingar fyrir hegðun sinni og oftast eru það þeirra nánustu sem eru gerðir að blórabögglum, þá fá systkinin misvísandi skilaboð, því foreldrar eiga til með að segja „bróðir þinn er óþekkur“ eða þetta týpíska „bróðir þinn er með unglingaveikina“ (sem veldur ótta – ha er bróðir minn veikur? Verð ég líka veikur?) en bróðirinn segir að þetta sé allt mömmu og pabba að kenna því þau skilji ekki neitt. Barnið situr því uppi með að foreldrið segir eitt en systkinið annað.
Barnið upplifir að það þurfi að taka afstöðu með annað hvort foreldrum eða systkini sínu og stundum leiðir sú afstaða til þess að barnið þarf að bera þung og erfið leyndarmál. Leyndarmál sem það getur ekki leitað til foreldra sinna með.
Þegar foreldrar leita sér hjálpar hefur yfirleitt mikið gengið á heima fyrir. Þessir foreldrar eru oft mjög ráðvilltir í mikilli sorg og yfirkeyrðir af þreytu. Samskiptin við unglinginn hafa verið mjög erfið og í sumum tilfellum hafa þessir foreldrar verið gíslar á eigin heimili. Auðvitað eru málin mismunandi og mislangt komin, en vanlíðanin, svefnleysið og vanmátturinn eru samnefnari þessara foreldra.
Foreldrar upplifa að ástand unglingsins sé hættuástand og þeim beri að bregðast við strax og þar með eru hin systkinin sett í bið (eiga að sjá um sig sjálf eða sett í pössun), þessi bið á ekki að vara lengi bara á meðan þau redda unglingnum sem er í vanda, en því miður er þessi bið oft mánuðir eða jafnvel ár.
Unglingur í neyslu verður hirðulaus um sjálfan sig og umhverfi sitt, hann verður óheiðarlegur og virðir ekki reglur heimilisins né lög samfélagsins. Ef þessi unglingur á eldri systkini þá veldur hann þeim áhyggjum og vanlíðan ef hann á yngri systkini þá veldur hann þeim óöryggi og er þeim slæm fyrirmynd. Vanlíðan foreldranna og þeyta þeirra veldur því að þessi börn verða enn óöruggari og að þau geta ekki leitað til foreldra sinna, börnin eru einnig orðin vön því að foreldrarnir eru pirraðir og argir á milli þess sem þau gráta. Hér er einnig mikilvægt að hafa í huga að barn í þessari aðstöðu fer mjög gjarnan að vernda foreldra sína á eigin kostnað.
Þessir einstaklingar hafa því lært ákveðið hegðunarmynstur og aðlagað sig að þeim aðstæðum sem þeir búa við. Oft kemur þetta álag fram í skólunum sem hegðunarvandi eða einangrun. Þetta hegðunarmynstur má kynna sér með því að lesa um einkenni og hlutverk barna sem hafa búið við vímuefnaneyslu eða ofbeldi.
Börn sem eiga systkini í neyslu upplifa sig gjarnan fyrir, einskins verð, ekki í forgangi og þarfnast þess mest af öllu að eiga mömmu og pabba sem sýna þeim, segja þeim og hjálpa þeim að uppifa hversu dýrmæt þau eru í raun.
Vinna með Foreldrum felur meðal annars í sér það að styðja þau í að hvíla sig, hjálpa þeim til þess að gefa sér leyfi til þess að slaka á gagnvart fíklinum og fara að sinna sjálfum sér og hinum börnunum, við ráðleggjum þeim oft í byrjun að gefa sér hálftíma á dag þar sem þau megi sleppa því að hafa áhyggjur og við þurfum að útskýra það vel fyrir þeim að það sé ekki ábyrgðarleysi heldur leið til að tapa ekki alveg áttum, margir foreldrar eiga erfitt með þetta. Þegar við byrjum svo að hjálpa þeim til að skoða samskiptin við systkini fíkilsins þá komum við oft að sterkum varnarvegg því foreldrarnir eru með svo mikla sektarkennd og skömm yfir því að geta ekki sinnt þeim vel. En þegar foreldrar finna það og sjá að við erum ekki að dæma þau heldur vitum að flestir foreldrar fara í gegnum þetta þá brestur oft varnarstíflan og þau geta af einlægni sagt frá hversu erfiðlega þeim gengur í samskiptum við systkinin. Oft er það þessi viðurkenning sem síðan hjálpar þeim til þess að byrja að æfa sig í nýjum samskiptum. Þá fyrst byrjar öll fjölskyldan að blómstra.
Díana Ósk Óskarsdóttir, Guðfræðingur og ICADC ráðgjafi.
Fyrrum Formaður FÍFV