Fara í efni

Hver ákveður tilgang þinn - hugleiðing frá Guðna

Mánudagshugleiðing.
Hver ákveður tilgang þinn - hugleiðing frá Guðna

Hver ákveður tilgang þinn? Það gerir þú. Hvernig? Með því að gefa þér rými og frelsi til að hlusta á hjartað.

Tilgangurinn titrar í tíðni hjartans, en hávaðinn í huganum hefur gert það að verkum að við höfum aldrei heyrt almennilega í honum.

Samt vitum við – innst inni. Samt finnum við og höfum alltaf fundið – innst inni – hver tilgangur okkar er. Í þessu felst stærsta höfnunin; að hafa legið eins og ormur á gulli á tilgangi sínum og svikið hjartað um kærleiksríka hlustun.
Skýr tilgangur tekur við af óljósum ásetningi – því hvað er ásetningur annað en hálfkák? Ásetningur er einfaldlega að setja hnakkinn á hestinn.

Ásetningur hefur ekki endilega í för með sér útreiðartúr – þú ríður ekki út fyrr en þú ríður út.
Fyrstu tvö skrefin færa okkur ljós og gera okkur kleift að uppgötva eigin frjálsa vilja – að við getum tekið allt valdið í eigin hendur.

Það kallar á að við ákveðum eigin vegferð. Að við ákveðum eigin tilgang.
Þú hefur frjálsan vilja og mátt til að ráðstafa orku þinni að vild – í vansæld eða velsæld er algerlega þitt val. Þú berð ábyrgð á því hvort þú gengur inn í myrkrið eða inn í ljósið.