Í foreldrahlutverkinu felst engin vinsældarkeppni
Hvernig geta foreldrar stuðlað að því að börn þeirri læri að njóta að borða hollan mat frá því þau fæðast?
Fyrst og fremst með því að borða hollan mat sjálf. Börn gera eins og fyrir þeim er haft og því er auðveldasta leiðin til að fá börn til að gera rétt að standa sig sjálfur. Mikilvægt er í þessu samhengi að falla ekki í þá freistingu að stytta sér leið þegar kemur að því að velja holla næringu og heilbrigðan lífsstíl. Kúrar eru dæmdir til að mistakast og oftar en ekki erum við í verri málum þegar við gefumst upp á kúrnum en við vorum áður.
Hvar geta þeir leitað sér upplýsingar um hvað eigi að gefa börnunum að borða frá því þau fæðast upp að grunnskólaaldri?
Því miður þá vantar talsvert upp á almennt gott aðgengi að góðum upplýsingum um næringu ungra barna. Það er einmitt þess vegna, því miður, sem það gerist að foreldrar leita í smiðjur þeirra aðila sem búa ekki yfir nægilegri þekkingu á efninu. Internetið er ekki rétti staðurinn til að fá upplýsingar nema frá traustum aðilum. Traustir aðilar eru til dæmis Embætti landlæknis (www.landlaeknir.is), Heilsuvefurinn 6H (www.6h.is), Næringarsetrið (www.naeringarsetrid.is), Rannsóknastofa í næringarfræði (www.rin.hi.is) og næringarfræðingar sem bjóða upp á ráðgjöf um mataræði ungra barna.
Eins og staðan er í dag á íslenskum matvörumarkaði er ekki nægjanlega mikil þekking til staðar til að fá nauðsynlegar upplýsingar í búðunum sjálfum. Þetta hafa til dæmis stjórnendur margra verslana í Bandaríkjunum áttað sig á og hafa því ráðið inn næringarfræðing í fullt starf til þess að aðstoða viðskiptavini við að velja mat sem hentar hverjum og einum. Þetta hefur tekist mjög vel og menn spyrja sig þar hvort verslanir hafi efni á því að hafa ekki næringarfræðing í fullu starfi, svo mikið hefur viðskiptavinum fjölgað hjá þeim sem hafa ráðið til sín næringarfræðing.
Hvað þurfa börn upp að sex ára aldri að borða í hverri viku til að vaxa og dafna eðlilega? Hvaða vítamín og svo framvegis?
Mjög mikilvægt er að við gerum greinarmun, þegar kemur að fæðuvali, á börnum sem eru yngri en 9-12 mánaða og þeirra sem eru orðin eldri og eru að mestu leyti farin að borða það sama og aðrir fjölskyldumeðlimir. Ég mun ekki fara í þessu svari, né öðrum hér, út í mataræði barna yngri en 9-12 mánaða enda ætti mataræði á fyrstu mánuðum að vera í ákveðnum farvegi eins og tíundað er hjá Embætti landlæknis. Einnig er mikilvægt að taka það fram að allt sem ég fjalla um hér á við börn sem glíma ekki við neina kvilla, t.d. í meltingarvegi eða fyrir einhverra hluta sakir geta ekki borðað ákveðin matvæli vegna ofnæmis, óþols eða annarra þátta. Til dæmis getur það reynst þrautinni þyngra að fá börn í krabbameinsmeðferðum til að borða ákveðin matvæli og verður því oft að gera málamiðlanir í mataræðinu í þessháttar tilfellum.
En varðandi börn frá eins til sex ára aldurs þá er ekki hægt að svara þessari spurningu nema á einn veg: börn þurfa allan venjulegan mat í viku hverri til að vaxa og dafna eðlilega! Ef börn borða reglulega yfir daginn, foreldrar lágmarka hvers lags skyndibita, sælgæti og mikið unnin mat og einbeita sér að því að nota grunnhráefni til þess að búa til matinn þá er akkúrat engin ástæða til annars en að börn séu að fá alla þá næringu og öll þau vítamín og steinefni sem þau þurfa. Eina undatekningin er D-vítamín. Nauðsynlegt getur verið að fá D-vítamínið sérstaklega og er feitur fiskur góður kostur. Lýsi virkar líka vel ef ekki er í boði að borða feitan fisk.
Mjög mikilvægt er einnig að foreldrar lendi ekki í þeirri gryfju að telja að fituskert og hitaeiningaskert fæði sé í lagi fyrir börn yngri en þriggja ára. Aldrei ætti að gera slíkt nema að fagfólk, læknir eða næringarfræðingur, sé haft með í ráðum.
Hvað er bráðnauðsynlegt að þau borði? Hvers vegna?
Allan mat! Á þann hátt kemst maður eins nálægt því og hægt er að tryggja að öll næringarefni séu til staðar fyrir eðlilegan vöxt og þroska barna. Foreldrar mega ekki vera hræddir við að bjóða börnunum upp á nýja hluti bara af því að foreldrarnir sjálfir þekkja ekki matvælin (t.d. grænmeti sem ekki hefur verið framreitt áður).
Nýjungagirnin gæti borgað sig: foreldrum gæti þótt „nýja“ varan góð!
Hvers konar tegund matar er slæmt að þau borði? Hvers vegna?
Hér væri hægt að setja fram miklar fullyrðingar sem væru í besta falli að hluta til réttar. Ef ég ætlaði mér að vera öfgafullur og hrífa með mér fólk sem líkar við slíkt þá myndi ég banna fólki að fara í bakarí, á Kentucky, Metró, Bæjarins bestu pylsur, American Style ofl. skyndibitastaði þar sem vissulega er boðið upp á mikla óhollustu. En þar er líka í mörgum tilfellum boðið upp á hollustu. Til dæmis má í bakaríum finna fullt af góðu heilkorna brauði og öðrum hollum matvælum og gæti ég ekki hugsað mér líf mitt til enda ef ekki væru til bakarí.
Aftur á móti ætti að lágmarka eins og kostur er allan mikið unnin mat eins og til dæmis pylsur, bjúgu, hangikjöt, saltkjöt, snakk, franskar og fleiri mikið unnin matvæli. Ef innihaldslýsing á matvælum er mjög löng og flókin þá er oftar en ekki um mikið unna vöru að ræða.
Hvernig geta foreldrar brugðist við áreiti frá umhverfinu eins og auglýsingum til að börnin vilji ekki óhollan mat eins og pizzur og hamborgara?
Ræða við börnin sín um að óhollur matur sé hluti af okkar menningu og hann verði alltaf til staðar. En á sama tíma gera börnum grein fyrir því að það er okkar sjálfra, einstaklinganna, að ákveða hvort við borðum þennan mat eða ekki. Af því að þú nefnir pizzur og hamborgara þá er sá matur alls ekki slæmur kostur svo framarlega að þessi matvæli séu matreidd skynsamlega. Til dæmis er grænmetispizza eða hamborgari með káli, tómati, gúrku og smávegis af tómatssósu alls ekki slæmur matur. Svo er að sjálfsögðu í lagi einstaka sinnum (endurtek einstaka sinnum) að leyfa sér að borða einhverja syndsamlega óhollustu.
Skiptir mataræði barna undir 6 ára máli fyrir allt lífið framundan? Er þá byggður grunnur?
Já að vissi leyti. Á þessum tíma þroskast stór hluti af skynfærum og skynmati barna og ef þau venjast á að borða ákveðna tegund af mat þá er líklegra að þau borði þann mat það sem eftir er ævinnar. Á sama tíma er líka hægt að ofgera hlutum þannig að börn hreinlega borði ekki mat sem þvingað var ofan í þau á unga aldri. Því er mikilvægt að venja börn á að borða allan mat og oft er þetta kjörinn tími fyrir aðra fjölskyldumeðlimi að prófa nýja hluti með barninu og bæta þar með neysluvenjur allra í fjölskyldunni. Fjölbreytni er hér lykilorðið!
Hver eru helstu mistökin sem foreldrar gera þegar þeir gefa börnunum sínum á þessum aldri að borða? Hvað eru þeir að gefa þeim rangt?
Mistök eru ekkert annað en tækifæri til að gera betur. Hér væri hægt að skrifa heila ritgerð því mistökin eru svo mörg þó svo að í fæstum tilfellum séu þau alvarleg. Í stuttu máli sagt þá held ég að foreldrar gefi sér ekki tíma til þess að búa til mat fyrir börn sín eða jafnvel með börnum sínum. Allt er á svo miklum yfirsnúningi að hent er í mat í flýti og oftar en ekki verður mikið unninn pakkamatur fyrir valinu. Ef foreldrar gefa sér smá tíma til að búa til mat úr grunnhráefnum þá er nánast ekki hægt að gera mistök. Oftar en ekki hentar mjög vel að setja niður matseðil fyrir alla vikuna og standa við það sem þar er niður skrifað.
Ef ég ætti að nefna eitt sem foreldrar mættu bæta þá væri það að stjórna betur hversu mikinn mat börnin borða. Leyfa þeim að nærast vel en ekki þannig að þau velti frá borðinu í hvert sinn sem þau eru búin að borða.
Leyfa íslenskir foreldrar börnunum sínum að ráða of miklu hvað er í matinn? Og leyfa þeim þá að velja óhollustu?
Mér finnst börn oft á tíðum ekki fá að ráða nógu miklu á þessum aldri. Þetta á sérskaklega við yngri börnin í þessum hópi, þ.e.a.s. frá kannski eins til fjögurra ára því það er einmitt á þessum aldri sem börn sækjast í hollustu frekar en hitt. Á þessum aldri er ólíklegt að búið sé að kenna börnum að kunna að meta óhollustuna og er það börnum því eðlislægt að velja hollan mat.
Flestir foreldrar vita sínu viti þegar kemur að næringu barna sinna en margir þeirra nenna ekki að standa í stappi til að fá sínu framgengt þegar kemur að því að velja í matinn. Oft á tíðum eykst þetta stapp þegar nær dregur gunnskólaaldri. Maður fær ekki nema eitt tækifæri til að ala upp börnin sín og því mikilvægt að maður geri allt sem hægt er til að gera það rétt og kenna börnum réttu handtökin. Ef fólk er í óvissu hvað ætti að gefa börnum að borða þá er hægt að finna slíkar upplýsingar hjá aðilum eins og þeim sem ég nefndi hér ofar. Þegar kemur svo að því að leiðbeina börnunum með mataræðið í heild sinni þá er það skylda okkar foreldra eða sjá til þess að mataræði barna okkar sé gott og heilnæmt. Ef það þýðir að maður verður „leiðinlegasti pabbi í heimi“ ef maður neitar barni um allra stærsta ísinn eða ef maður sendir barn sitt til að skila úr alltof stórum nammipoka, þá verður svo að vera. Við foreldrar erum ekki í vinsældarkeppni hjá börnum okkar.
Hvað er það algengasta sem foreldrar eru að gefa börnum sínum og er mjög slæmt?
Það er eiginlega ekki hægt að svara þessu á einn veg. Mín reynsla af þessu er sú að foreldrar leyfa börnum sínum að borða of mikið af mat. Hér er ekki verið að tala um að leyfa þeim ekki að nærast vel heldur eru margir foreldrar sem segja ekkert þó svo að börn þeirra séu að borða mat hvar og hvenær sem er. Mat ætti ekki að nota til að friðþægja né ætti að nota mat sem verðlaun – mat skal aldrei nota sem þvingunarúrræði. Koma þarf fram af virðingu við mat, matartíma og hefðir sem ríkja í kringum mat. Mikilvægt er að foreldrar kenni börnum sínum að matur er orkan sem við þurfum til að knýja líkamann áfram. Ég hef oft tekið dæmi fyrir börnin mín, sem nú eru 12 og 16 ára, um athöfnina að fara á bensínstöð og setja bensín á bílinn. Það væri í raun og veru fáránlegt af mér að setja meira bensín á bílinn en kemst í tankinn því það þjónar akkúrat engum tilgangi. Tankurinn getur bara tekið við þeirri orku sem pláss er fyrir og því sem þarf til þess að komast á milli staðar. Það sama gildir um líkamann!
Matvendni, hvernig er hægt að venja börn af henni? Ef þeir bíta í sig að vilja ekki borða eitthvað ákveðið?
Matvendni þarf ekki að vera af hinu illa. Hérna áður fyrr, þegar mun minna framboð var af mat en nú er, var þetta e.t.v. meira vandamál. En eins og staðan er í dag þá er svo mikið framboð af mat að þó að barn vilji ekki ákveðin matvæli þá er ávallt hægt að finna eitthvað annað gott í staðinn. Meira að segja getur matvendi orðið til þess að fleiri ný matvæli eru keypt og prófuð en ella hefði orðið.
Nú má finna í búðum allt milli himins og jarðar. Til dæmis hefur sjaldan eða aldrei verið jafn mikið framboð af góðum ávöxtum og grænmeti og finnst mér hrein unun að heimsækja margan stórmarkaðinn nú til dags enda leggja margir hverjir, t.d. Víðir, mikinn metnað í að bjóða upp á sem ferskustu ávextina og grænmetið og oftar en ekki íslenska framleiðslu.
Eru íslenskir foreldrar meðvitaðir um hvernig þeir fæða börnin sín?
Já og nei. Ég held að foreldrar viti meira en þeir þora að viðurkenna sjálfir en vanti oft bein í nefið til þess að segja nei þegar það gerist nauðsynlegt. Ég sá til dæmis eitt sinn fjölskyldu á ónefndum veitingastað. Ég komst ekki hjá því að heyra hvað fór fram við þeirra borð og þegar búið var að borða forrétt og aðalrétt kom að því að velja eftirrétt. Eitt barnið, varla meira en fjögurra ára, heimtaði risastóran ís með snickers súkkulaði, rjóma, súkkulaðisósu og ískexi. Móðirin maldaði í móinn í upphafi, með öllum réttu rökunum, en varð að lokum að lúta í lægra haldi fyrir barninu. Þarna var móðirin að nota röksemdina um magn matar (bensín á bílinn) til þess að hægja á græðgi barnsins en það dugði ekki til því hún gafst upp að lokum vegna yfirgangs.
Hvernig eru krakkar sem eru ekki að borða rétt? Sést það á hegðun þeirra?
Börn sem ekki borða rétt eru ekkert öðruvísi en önnur börn. Auðvitað er hægt að sjá slíkt á endanum, þegar rangt mataræði hefur verið til staðar til lengri tíma. Til dæmis er verulega grannt barn sem heldur lítilli einbeitingu í leikskóla og vill gjarna sofa, vísbending um að of lítið af mat sé neytt, þó svo að það sé ekki eina mögulega skýringin á hegðun barnsins. Verulega feitt barn gefur líka vísbendingu um að neysla matar sé umfram þá orku sem notuð er til hreyfingar, þó svo að ástæður fyrir of mikilli þyngd/fitu geti verið allt aðrar og flóknari. Mikilvægt er að við setjum ekki ákveðinn stimpil á börn eftir því hvernig þau líta út því börn eru jú afskaplega misjöfn. En ef komið er vel út fyrir það sem eðlilegt getur talist í þyngd og/eða útliti þá þarf að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að breyta til betri vegar. Slíkt tekur langan tíma, er þolinmæðisverk fyrir alla aðila, og þarf að vinna með fagfólki.
Hver er þín skoðun á nammidögum á laugardögum? Eru þeir komnir út í öfgar? Ætti að dreifa þeim jafnt á milli daga? Er vont að barnið borðið allt í einu á þessum eina degi?
Nammidagar eru algerlega óþarfir. Upphaflega var hugsunin með einum nammidegi m.a. að verjast tannskemmdum og hafa sælgæti bara einu sinni í viku. Svo útfærði fólk þetta í kjölfarið á annan mat og drykk. Markaðsöflin sáu sér leik á borði og fóru að auglýsa þennan dag með þeim hætti sem nú er. Nú eru nammidagar fyrir marga hin fullkoma réttlæting til þess að borða yfir sig af öllum sköpuðum hlut, sér algerlega óþurftar. Ef við gætum haft nammidaga, þar sem við borðum óhollustu, viljum við það, í hóflegu magni, þá væri hægt að verja þetta hugtak. En eins og staðan er í dag þá er þetta í algjöru rugli; fólk hámar sælgæti og annan mat eins og enginn sé morgundagurinn og sýnir líkama sínum og matnum, sem eldsneyti fyrir líkamann, fullkomna vanvirðingu.
Nokkur fyrirtæki hafa þó áttað sig á því að neytendur þurfa og VILJA aðstoð. Til dæmis setti Krónan, eftir að ég nálgaðist þau með hugmynd að svokölluðu nammiveggspjaldi, fyrst íslenskra matvöruverslana upp leiðbeiningar um nammimagn í öllum sínum verslunum. Þetta er til mikilla hagsbóta fyrir foreldra ungra barna og til eftirbreytni enda kom það svo í ljós í kjölfarið að flestar aðrar verslanir settu síkar leiðbeiningar upp við sína nammibari.
Hvað eiga foreldrar að gera þegar þá grunar að barnið þeirra sé í yfirvigt? Hvert geta þeir leitað til að fá úrræði?
Mikilvægt er að fylgjast vel með barni sínu. Breytingar á líkamsþyngd á hvorn veginn sem er, sem og breytingar í útliti, eru eðlilegar og ekkert til þess að hafa áhyggjur af. Ég get tekið dæmi um dóttur mína sem nú er 16 ára. Hún rokkaði talsvert í þyngd þegar hún var yngri en oftast var það vegna þess að hún var að stækka og það átti bara eftir að teygjast úr henni til móts við líkamsstækkunina á þverveginn. Auðvelt hefði verið að fara á taugum og telja að barnið væri að fitna en svo var ekki. Aftur á móti ef þyngdaraukning er þeim mun meiri, og hugsanlega ýmis sálræn vandamál sjást einnig, getur verið nauðsynlegt að leita aðstoðar. Á þessum aldri á ekki að setja barn í megrun því slíkt býður hættunni heim. Mikilvægt er að leita til sérfræðinga og hinn eðlilegasti hlutur að panta tíma hjá einhverjum af þeim fjölda næringarfræðinga sem starfa á Íslandi.
Áttu einhverjar gullna reglu fyrir foreldra sem vilja ala upp heilbrigðan einstakling?
Að vera góð fyrirmynd fyrir barn er að mínu mati það mikilvægasta sem foreldrar geta gert. Ef þú vilt að barnið þitt vaxi og dafni með heilbrigðan lífsstíl og hollt og gott mataræði að leiðarljósi þá verður þú að gjöra svo vel að gera það sjálf/ur.
Steinar B.,
næringarfræðingur
www.steinarb.net
Þessi pistill er eign höfundar og má hvorki afrita hann né nota efni hans án leyfis.
Birt fyrst í Vikunni.
Spurningar: Ester Andrésdóttir