Líf er því miður ekki sama og líf
Eymundur Eymundsson þjáðist frá unga aldri af miklum kvíða og síðar félagsfælni. Eftir að hann áttaði sig á því hvers kyns var, 38 ára gamall, hefur Eymundur unnið ötullega að því að aðstoða fólk með geðraskanir og sinna forvörnum.
Líf er ekki sama og líf – því miður. Líf fólks með geðraskanir er enn ekki sama og líf heilbrigðra úti í samfélaginu, segir Eymundur, fimmtugur Akureyringur, í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann bætir við að þótt mikið hafi breyst á síðustu árum sé enn langt í land. „Maður skyldi ætla að allir gerðu sér grein fyrir því að höfuðið er hluti líkamans, en stundum virðist svo ekki vera,“ segir Eymundur. „Sjúkdómur sem á upptök inni í höfðinu og er ósýnilegur er ekki jafn viðurkenndur og aðrir. Það er mikið talað um ástandið á Landspítalanum en hér á Akureyri þarf líka að setja meiri peninga í geðdeild sjúkrahússins; hér þarf að efla starfið eins og víða annars staðar á landsbyggðinni. Það gengur ekki að fólki í sjálfsvígshættu sé vísað í burtu. Hjartveikur maður eða fótbrotinn lendir ekki í því af þeirri ástæðu að vegna fjárskorts séu deildir ekki alltaf opnar.“
Höfum bjargað mannslífum
Eymundur hefur verið áberandi í umræðu um geðraskanir undanfarin misseri. Hann stofnaði ásamt fleirum Grófina, geðverndarmiðstöð á Akureyri, haustið 2013 og segir starfið þar hafa bjargað mannslífum.
„Við þurftum ekki að finna upp hjólið. Ég starfaði áður með Hugarafli í Reykjavík og við erum með svipað módel hér. Á Akureyri voru ekki starfandi félagasamtök vegna geðsjúkdóma á þessum tíma; dagdeild geðdeildar var lokað 2009 en tveimur árum síðar hófu fagmenn og notendur þjónustunnar að hittast og Grófin varð til í framhaldi af því.“
Best væri, segir Eymundur, að hann þyrfti ekki að tala jafn mikið um geðraskanir og raun ber vitni. „Ég vildi helst að ég þyrfti ekki að segja mína sögu heldur gæti lifað lífinu eins og hver annar, en ég gekk í gegnum þetta og lifði af, sem var ekki sjálfgefið. Mér finnst nauðsynlegt að samfélagið vakni til lífsins; að meiri peningar verði settir í forvarnir og starfsemi geðdeilda. Geðraskanir eru svo langt á eftir öðrum sjúkdómum og við höfum misst svo marga að ég verð að segja frá.“
Eymundur segir forvarnir gífurlega mikilvægar og í raun spara mikið fé. „Hvað kostar mannslíf? Auðvitað kosta forvarnir, en þeim peningum er vel varið og spara mikið í framtíðinni. Það var ótrúlegt þegar í ljós kom um daginn að Hugarafl ætti að fá lægri styrk frá ríkinu en áður. Þetta er spurning um örfáar milljónir! Ráðamenn verða að kynna sér hvað þessi félagasamtök eru að gera og verða að setja meiri peninga í málaflokkinn. Það þarf að bera meiri virðingu fyrir fólki sem hefur gengið í gegnum þessa erfiðleika, hlusta betur á það og forgangsraða rétt.“
Hann segir mikla forvörn í því að fólk sem hefur glímt við geðraskanir tjái sig. Hefur til dæmis sjálfur, í félagi við fleiri, farið í alla grunnskóla á Akureyri og nágrenni síðustu ár og rætt við bæði kennara, annað starfsfólk og nemendur. Gestirnir hafa í öllum tilfellum fundið fyrir miklu þakklæti.
„Fólk sem hefur glímt við geðraskanir er vanmetinn hópur og getur nýst vel í að byggja upp samfélagið með því að miðla af reynslu sinni. Við höfum farið í 9. bekk og krakkarnir grípa vel það sem við segjum og spyrja mikið. Mér finnst að þau ættu að vinna markvisst að ýmiskonar verkefnum í kjölfarið og meiri samfella ætti að vera í þessum málum í skólakerfinu. Ekki bara að einhver komi og fari.“
Alkunna er að miklu meiri líkur eru á að börn sem líður illa verði fyrir einelti en önnur. „Þess vegna er svo mikilvægt að fræða börnin. Fæst þeirra gera sér í raun grein fyrir því hvað einelti er og best væri ef bæði gerendur og þolendur eineltis kæmu í skólana og töluðu við börnin. Það myndi skila sér og verða til þess að einhverjum sem líður illa og finnst þeir vanmáttugir gætu haldið áfram, farið í framhaldsskóla og tekist á við lífið, sem þeim þætti jafnvel óhugsandi í dag. Ég þekki það vel.“
Hann segir ungmenni mjög þakklát að sjá að þeir, sem heimsækja skólana á vegum Grófarinnar, séu bara „fólk eins og aðrir“ og að enginn þurfi að þykjast vera einhver annar en hann er til að falla í hópinn. „Með því að hjálpa ungmennum strax erum við að skapa verðmæti og hjálpa þeim til að vera þátttakendur í lífinu. Ef við hlustum á þau og hjálpum minnka líkurnar á að þau einangrist, leiti í vímuefni eða falli jafnvel fyrir eigin hendi.“
Dæmum ekki...
Margt jákvætt má segja um það sem starf sem unnið er í geðheilbrigðismálum, segir Eymundur, og einmitt mikilvægt að draga ekki einungis fram hið neikvæða. Hann nefnir Grófina, Lautina á Akureyri þar sem er athvarf fyrir fólk yfir daginn, svo og mikilvæga starfsemi Búsetudeildar bæjarins, Starfsendurhæfingu Norðurlands og Virk, auk félagasamtaka og lionsklúbba sem hafi styrkt Grófina fjárhagslega.
Eymundur segir marga sem glíma við geðraskanir leita í vímuefni og þess vegna þurfi að ráðast að rót vandans; vanlíðaninni.
„Við erum öll manneskjur með tilfinningar en stundum þurfum við hjálp til að byggja upp tilfinningarnar. Enginn ætti að þurfa að fela eigin vanlíðan; við erum búin að missa alltof marga út af slíkum feluleik, fólk sem hefur ekki treyst sér til að leita sér hjálpar vegna ótta við fordóma. Áður fyrr var geðveikt fólk bara lokað inni, en nú er þekkingin svo mikil að hægt er að hjálpa. Þar geta félagasamtök eins og Hugarafl og Grófin til dæmis gert mikið gagn, bæði fyrir þá veiku, fyrir aðstandendur og með því að sinna forvörnum.“
Ein mikilvægustu skilaboðin út í samfélagið séu þessi: „Dæmum ekki það sem við þekkjum ekki en hjálpum ef við getum, þó ekki væri nema að hlusta. Það getur gert kraftaverk.“
Greinahöfundur:
Skapti Hallgrímsson
Grein birt á mbl.is