Fara í efni

Lifrarbólgu A faraldur í Evrópu

Lifrarbólgu A faraldur í Evrópu

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) Opnast í nýjum glugga hefur vakið athygli á faraldri af lifrarbólgu A (hepatitis A) í Evrópu á síðasta ári, 2016 og það sem af er þessu ári, 2017.

Frá því í júní á síðasta ári hafa um 1.500 einstaklingar í 16 löndum Evrópu greinst með lifrarbólgu A, tæplega 3.000 grunaðir um að vera með sýkinguna og að líkindum fjöldi til viðbótar sem ekki hefur leitað til heilbrigðiskerfisins. Langflestir þessara einstaklinga eru karlmenn sem stundað hafa kynlíf með karlmönnum.
 

Lifrabólga A er yfirleitt hættulítill sjúkdómur sem lagast án meðferðar en getur í stöku tilfellum valdið alvarlegum lifrarskemmdum. Á Íslandi greinast færri en 5 einstaklingar árlega með lifrarbólgu A og ekki hefur sést aukning á sjúkdómnum hér á landi það sem af er þessu ári.

Lifrarbólga A smitast um munn með saurmenguðum mat eða vökva og engin meðferð er til við sjúkdómnum. Besta fyrirbyggjandi meðferðin við lifrarbólgu A er með bólusetningu auk þess að gæta að almennu hreinlæti við inntöku matar og vökva.

Sóttvarnalæknir hvetur alla sem eru mikið á ferðalögum erlendis og sérstaklega karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum að láta bólusetja sig.

Hægt er að fá bólusetningu gegn lifrarbólgu A t.d. á heilsugæslustöðvum. Til að fá bestu vörn þarf að gefa tvær sprautur með 6 mánaða millibili. Bólusetningin veitir vörn fyrir lífstíð.

Sóttvarnalæknir