Miðja líkamans
Mjaðmagrindina má kalla miðju mannslíkamans. Það er alltaf einhver þungi á mjaðmagrindinni hvort sem við sitjum, stöndum eða liggjum.
Þess vegna er hún alltaf undir álagi og því mikið í húfi að hafa hana í lagi alla ævi.
Innan mjaðmagrindarinnar eru mörg innri líffæri og vöðvar sem með flóknu samspili vinna saman að því að allt hreyfist og virki eins og það á að gera.
Það er staðreynd að vandamál tengd mjaðmagrindinni sem leita inn á borð sjúkraþjálfara og lækna eru mun algengari hjá konum en körlum. Það er vegna þess að líkami kvenna er flóknari að þessu leitinu til en líkami karla, og tengist það því að konur geti gengið með börn. Því má þó ekki gleyma að þegar kemur að almennum hreyfingum og vöðvavinnu á þessu svæði þá eru kynin ekki svo ólík.
Á meðgöngu reynir mikið á mjaðmagrind konunnar. Hormónið relaxin, sem eins og nafn þess gefur til kynna, slakar á liðböndum mjaðmagrindarinnar til þess eins að mjaðmagrindin gefi nægjanlega eftir og stækki eftir því sem barnið vex. Afleiðing þessa er oft sú að konur fá verki í mjaðmagrindina á meðgöngu, þessir verkir eru mismiklir, en gera sumar konur óvinnufærar. Nokkuð algengt er að konur finni fyrir einhverjum einkennum í mjaðmagrind á meðgöngu en það er þó ekki algilt. Það sem skiptir mestu máli er góð líkamsstaða, rétt líkamsbeiting og hófleg þjálfun líkamans eftir ástandi hverrar konu fyrir sig. Aðrir þættir skipta þó einnig miklu máli eins og til dæmis hvernig vinnu viðkomandi vinnur og er mikið um kyrrsetur og líkamlegt eða einhæft álag. Til þess að bregðast rétt við er nauðsynlegt að fá rétta fræðslu og leiðbeiningar hjá sjúkraþjálfara sem þekkir til. Stundum vill svo verða að konur fá grindarlos eða jafnvel grindargliðnun.
Þegar það gerist er mun meiri óstöðugleiki í einhverjum af þremur aðalliðamótum mjaðmargrindarinnar (spjaldliðunum tveimur eða lífbeini) og jafnvel í öllum þremur. Undir þessum kringumstæðum verður konan að fara sér mun hægar og vera undir eftirliti eða í meðferð hjá sjúkraþjálfara gegnum meðgönguna. Fleiri vandamál tengd mjaðmagrindinni sem konur geta upplifað á meðgöngu eru ekki talin upp hér en þau geta verið fjölmörg og mjög einstaklingsbundin.
Á síðustu árum hefur sú umræða hefur oft komið upp hvers vegna verkir í mjaðmagrind . . . LESA MEIRA
Af vefsíðu gaski.is