Fara í efni

Opnað hefur verið fyrir umsóknir að Heilsueflandi leikskóla

Nú geta leikskólar sótt um að taka þátt í þróunarstarfinu Heilsueflandi leikskóli.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir að Heilsueflandi leikskóla

Nú geta leikskólar sótt um að taka þátt í þróunarstarfinuHeilsueflandi leikskóli.

Undirbúningur hefur staðið yfir um nokkurt skeið og hafa fjölmargir aðilar komið að því verki.

Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla (2011) er Heilbrigði og velferð nú einn af sex grunnþáttum menntunar. Þátttaka í Heilsueflandi leikskóla styður leikskólana í að innleiða þennan grunnþátt í öllu sínu starfi.

Þegar Embætti landlæknis hefur móttekið umsókn fær leikskólinn sendar leiðbeiningar til að hefja vinnuna. Myndaður er stýrihópur, tekin eru fyrstu skref við mótun heilsustefnu og framtíðarsýn fyrir leikskólann og kortlagt hvaða  lykilhagsmunaaðilar koma að starfinu.

Í framhaldinu þarf að skoða stöðu viðkomandi leikskóla og vinna stöðumat með hjálp gátlista. Mikilvægt er að áætla góðan tíma í þessa undirbúningsvinnu áður en ráðist er í aðgerðir.

Leikskólar sem sækja um þátttöku í Heilsueflandi leikskóla fá aðgang að rafrænu kerfi þar sem þeir skrá upplýsingar um skólann inn á lokað svæði. Á þessu vefsvæði er m.a. skráð heilsustefna leikskólans og merkt við í gátlista sem eiga við átta lykilþætti í skólastarfinu. Þessir þættir eru: Hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk.

 

Í framhaldi af þessari vinnu gera leikskólarnir aðgerðaráætlun þar sem staðan er metin og út frá því er ákveðið á hvaða lykilþætti er best að byrja. Rafræna kerfið heldur utan um starfið og þar verður markvisst hægt að vinna með þau atriði sem eru ekki að fullu komin til framkvæmda.

Í lok júní á hverju ári mun kerfið útbúa skýrslu yfir það sem gert hefur verið á liðnu ári og með því móti er auðvelt fyrir leikskóla að skoða stöðuna á hverjum tíma og framþróun.  

Þeir leikskólar sem sækja um  þátttöku fá sendar leiðbeiningar og nánari upplýsingar um notkun á rafræna kerfinu fljótlega eftir að umsókn hefur borist.

Leikskólar eru hvattir til að sækja um og hefja vinnuna.

Lesa nánar:
Umsókn um þátttöku (eyðublað)

Um heilsueflandi leikskóla 

Jenný Ingudóttir
verkefnisstjóri heilsueflandi leikskóla

Af vef landlæknis