Pavlova með kókósbollurjóma og jarðberjum - Lólý.is
Það er alltaf eitthvað svo fallegt að bera fram Pavlovu, hún stendur einhvern veginn alltaf fyrir sínu og er afar einföld að baka. Það er margir hræddir við að skella í eina svona en ég held að maður eigi bara að prófa einu sinni til að sjá hversu auðvelt þetta er. Svona kökur geta alltaf fallið alveg sama hversu oft maður hefur bakað hana og maður má ekki hætta að baka hana þó að þetta gerist einu sinni. Oft hefur það meira að gera hvernig eggin eru heldur en hvort bakarinn er góður eða ekki. Svo að ég hvet ykkur til að skella í eina svona næst þegar ykkur vantar frábæran eftirrétt.
- 4 eggjahvítur
- ½ tsk borðedik
- 3 dl sykur
- 1 tsk lyftiduft
- 500 ml rjómi
- 1 pakki kókósbollur
- 1 askja jarðaber, bláber eða aðrir ávextir sem eru í uppáhaldi hjá hverjum og einum.
Eggjahvítur, edik og 2 ½ dl sykur þeytt saman þangað til það myndar toppa. Restin af sykrinum og lyftidufti hrært saman við þegar eggjamassinn er stífþeyttur, en passa verður upp á að sykurinn blandist vel saman við svo að þá er gott að hræra þetta vel og stinga fingrinum ofan í og finna milli fingranna hvort sykurinn er komin saman við eða ekki.
Setjið bökunarpappír á ofnplötuna og setjið eggjamassann á og myndið hring úr honum og hafið hann ca 5 cm þykkann.
Forhitið ofninn við 180°C en lækkið síðan niður í 150°C þegar kakan er sett inn og bakið í 1 ½ tíma en látið hana standa í ofninum til morguns ef hún er bökuð að kvöldi til.
Morguninn eftir þeytið þið rjómann, blandið kókósbollunum út í og setjið hann ofan á kökuna. Skerið niður ávexti til að setja ofan á. Gott að hafa hana síðan í ísskápnum í nokkra klukkutíma.
Það er líka mjög gott að bræða smá súkkulaði og dreifa aðeins yfir hana.
Birt í samstarfi við